Pútín rýfur einangrun sína vegna sameiginlegs óvinar hans og Vesturlanda

Þær voru nokkuð af öðru tagi, viðtökurnar sem Vladimír Pútín fékk á fundi 20 helstu iðnríkja heims á þessu ári, en í fyrra. Fyrir ári var Rússlandsforseta ekki vel tekið og stafaði það af Úkraínudeilunni, sem þá var í hámarki. Engin lausn hefur fengist á þeirri deilu, en samt var Pútín að þessu sinni hrókur alls fagnaðar á leiðtogafundinum, og hefði fáa grunað, að þar væri á ferðinni leiðtogi ríkis, sem býr við viðskiptaþvinganir af hálfu flestra hinna ríkjanna sem þar áttu fulltrúa.

Ýmsar skýringar eru á þessum mun milli ára, en þar má helst nefna hernaðaraðgerðir Rússa í Sýrlandi, sem nú hafa fengið nýja vídd í kjölfar hryðjuverkanna í París, þar sem franski herinn hefur tekið höndum saman við hinn rússneska í viðleitni sinni til að sigrast á Ríki íslams. Það, að nú hafi verið staðfest, að sprengja hafi grandað rússnesku farþegaþotunni sem fórst yfir Egyptalandi fyrir skömmu, færir markmið Frakka og Rússa saman.

Á sama tíma fellur Úkraínudeilan sífellt meir í skuggann af þeirri alheimsvá, sem stafar af Ríki íslams. Það verður því auðveldara fyrir leiðtoga hins vestræna heims, sem hafa ekki sparað fordæminguna á athæfi Rússa í Úkraínu, að sópa því öllu undir borðið, að minnsta kosti tímabundið.

Fyrir Pútín er það kjörstaða, að helstu ríki Evrópu leiti nú til hans með aðstoð við að slökkva það bál, sem kveikt hefur verið fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann mun eflaust reyna að nýta sér þá stöðu til þess að reyna að fá létt af Rússlandi einhverjum af refsiaðgerðum Evrópusambandsins. Á sama tíma fær hann þegjandi samþykki fyrir innlimun Krímskaga, sem öllum var sennilega löngu orðið ljóst að mundi aldrei verða látin ganga til baka.

Þíðan í samskiptum Rússa og vesturveldanna gæti þó reynst tímabundin. Bandalög byggð á hentugleika og sameiginlegum óvinum eiga það til að leysast upp þegar aðstæður breytast. Öll gömlu deilumálin gætu komið upp á yfirborðið um leið og glittir í ósigur Ríkis íslams. Mestu skiptir þó að í augnablikinu náist samstaða um það, sem hefði alltaf átt að vera markmið heimsbyggðarinnar: Að uppræta Ríki íslams með öllu.