Þórdís segir breytt viðhorf til frumkvöðla komið til að vera.
Þórdís segir breytt viðhorf til frumkvöðla komið til að vera. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Ný bók safnar saman reynslusögum 40 einstaklinga úr íslenska frumkvöðlasamfélaginu.

„Það sem við vildum gera með sjónvarpsþáttunum var ekki bara að segja söguna af því þegar vel gengur, heldur fjalla um í hverju það felst að vera frumkvöðull allt frá fyrstu sigum, og um leið miðla mikilvægri þekkingu til almennings. Með sýningu þáttanna fannst okkur við geta miðlað enn meiri þekkingu og varð því úr að gefa út þessa bók,“ segir Þórdís Jóhannsdóttir Wathne.

Þórdís og Kristinn Jón Ólafsson voru liðstjórar í sjónvarpsþættinum Toppstöðin sem sýndur var fyrr á árinu, en þar var skyggnst inn í verkefni frumkvöðla. Nú er komin út bók með sama nafni þar sem safnað er saman 40 reynslusögum frá frumkvöðlum og fólki sem tengist sprotaheiminum með ýmsum hætti. Sölvi Tryggvason ritstýrði bókinni.

Má segja að bókin sé eins konar þverskurður af umhverfi íslenskra frumkvöðla eins og það er í dag og segist Þórdís að við vinnslu bókarinnari tvö áhugaverð atriði staðið uppúr.

„Fyrra atriðið er mikilvægi þess að frumkvöðullinn tali opinskátt um hugmyndina sína en feli hana ekki ofan í skúffu, og helst af öllu að hann leyfi öðru fólki að skoða og prófa frumgerðir til að fá endurgjöf hjá þeim sem vonandi eru verðandi viðskiptavinir.“

Að tala um góða hugmynd greiðir líka leiðina að framkvæmd. „Þannig eflist tengslanetið smám saman og getur gerst fyrr en varir að frumkvöðullinn kemst í samband við mikilvægan samstarfsaðila,“ útskýrir Þórdís. „Ekki hvað síst felst hreinlega í því góð þjálfun að tala um hugmyndina út á við og við sem flesta, og gerir frumkvöðulinn betur í stakk búinn á síðari stigum að kynna vöruna sína fyrir mikilvægum fjárfestum og jafnvel fyrir allri heimsbyggðinni.“

Hitt atriðið sem Þórdís kom auga á er að frumkvöðullinn má ekki vera hræddur við að gera mistök. „Höfundur eins kaflans í bókinni kemst þannig að orði að án mistaka sé sennilega ekkert rými til betrumbóta.“

Bendir Þórdís á að þróunarvinna góðrar hugmyndar felist í eðli sínu í því að gera fjöldamörg mistök en bæta hugmyndina í hvert sinn. „Annar frumkvöðull bendir á það í bókinni að í frumkvöðlasamfélaginu vestanhafs séu mistök talin mönnum til tekna. Að spreyta sig á rekstri og mistakast er verðmætur skóli. Liggur við að þeim sem hafa aldrei gert nein mistök á ferlinum sé strax vísað á dyr þegar þeir setjast niður með fjárfestum í Kísildal.“

Bókin segir Þórdís að minni líka á mikilvægi nýsköpunar í starfandi fyrirtækjum. „Það hefur sjaldan verið mikilvægara að stunda nýsköpun innan starfandi fyrirtækja í því samkeppnisumhverfi sem við búum í. Fjallað er um mikilvægi fyrirtækjamenningar og samfélagsábyrgðar allt frá fyrstu stigum þar sem erfitt er að breyta þessum þáttum þegar fyrirtæki eru orðin rótgróin og vanaföst.“

Talið berst yfir í drifkraftinn sem hefur mátt greina í íslenska sprotageiranum á árunum eftir hrun. Hrunið ýtti mörgum frumkvöðlinum af stað og viðhorfið til frumkvöðla breyttist um leið. Skyldi þróunin snúast við núna núna þegar efnahagslífið er að styrkjast? Var frumkvöðlaæðið kannski bara bóla?

Þórdís segist halda að hápunktinum hafi ekki enn verið náð, og líklega verði ekki aftur snúið. „Því þeir sem reynt hafa vita að líf frumkvöðulsins er mjög áhugavert og spennandi. Unga fólkið í dag sækist ekki bara eftir öryggi í starfi. Það vill finna sér starfsframa sem gefur því lífsfyllingu, þó að það geti þýtt að biðin eftir einbýlishúsinu verði ögn lengri.“