Yfirvöld í Frakklandi telja að lögreglan í París hafi komið í veg fyrir hryðjuverk þegar hún lagði til atlögu við hóp meintra hryðjuverkamanna í borginni í fyrrinótt.

Yfirvöld í Frakklandi telja að lögreglan í París hafi komið í veg fyrir hryðjuverk þegar hún lagði til atlögu við hóp meintra hryðjuverkamanna í borginni í fyrrinótt. Kona með sprengjubelti sprengdi sig í loft upp þegar sérsveit lögreglunnar réðst inn í íbúð í París og félagi hennar beið bana í árásinni. Washington Post sagði í gærkvöldi að höfuðpaur árásanna í París, Abdelhamid Abaaoud, hefði fallið.

Lögreglan lagði hald á „heilt stríðsvopnabúr, með Kalashníkov-rifflum, skotfærum og sprengiefni.“

Eftir hryðjuverkin í París skýrðu stjórnvöld í Svíþjóð og Danmörku frá því í gær að öryggisviðbúnaður yrði aukinn. Hann er nú í næsthæsta stigi af fimm. Skömmu eftir að tilkynnt var um aukinn viðbúnað í Danmörku rýmdi lögregla flugstöðvarbyggingu á Kastrup-flugvelli vegna gruns um sprengju. Það reyndist ekki vera og var hún opnuð á ný skömmu síðar.

Færri afbókanir til Frakklands hafa verið hjá íslensku flugfélögunum WOW air og Icelandair en þau reiknuðu með. Helst eru það Bandaríkjamenn sem hafa hætt við að halda áfram frá Íslandi og ákveða að eyða fríinu sínu hér á landi frekar en í Frakklandi. 2, 16-17