Heimsmálarinn „Nú er mannlífið að komast í samt horf, eins og ég fann í morgun á leiðinni á vinnustofuna,“ segir Erró, sem hefur búið í frönsku höfuðborginni frá árinu 1958.
Heimsmálarinn „Nú er mannlífið að komast í samt horf, eins og ég fann í morgun á leiðinni á vinnustofuna,“ segir Erró, sem hefur búið í frönsku höfuðborginni frá árinu 1958. — Morgunblaðið/Einar Falur
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Fyrstu dagana eftir hryðjuverkin var ró yfir öllu hér í París og fáir á ferli. Markaðir og söfn lokuð og fáir farþegar í metrónum.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Fyrstu dagana eftir hryðjuverkin var ró yfir öllu hér í París og fáir á ferli. Markaðir og söfn lokuð og fáir farþegar í metrónum. Ferðir á sumum línum hans voru felldar niður því fólk var hrætt og fór ekki út úr húsi. Nú er mannlífið að komast í samt horf, eins og ég fann í morgun á leiðinni á vinnustofuna. Eftir viku verða atburðirnir gleymdir og fólk farið að tala um annað,“ segir Erró í samtali við Morgunblaðið í gær.

Hringt frá tólf löndum

Erró hefur verið búsettur í París frá 1958. Sé litið skjótt yfir árin 57 þar segir Erró að sennilega hafi stúdentaóeirðirnar árið 1968 rist dýpra en hryðjuverkaárásirnar um liðna helgi. „Óeirðirnar '68 stóðu lengi og negldust inn í huga fólks. Þá barðist fólk alveg af lífi og sál,“ segir listamaðurinn, sem býr í 6. hverfi Parísarborgar og er með vinnustofu í því 15. Það var hins vegar í 10. hverfinu sem árásirnar voru gerðar og langt er milli þessara borgarhluta.

„Ég var heima á föstudagskvöldið þegar árásirnar voru gerðar. Það var upp úr klukkan ellefu sem síminn byrjaði að hringja þar sem fólk var að spyrja um okkur. Á laugardeginum var hringt í mig frá tólf löndum. Síminn stoppaði varla. Ég skrifaði þetta niður; þetta var heil blaðsíða af nöfnum, símanúmerum og löndum,“ segir Erró.

Stjórnvöld í Frakklandi hafa brugðist hart við árásunum í Frakklandi. Búið er að hafa hendur í hári flestra þeirra sem að þeim stóðu og Frakkar hafa látið sprengjum rigna yfir Raqqa í Sýrlandi í þeim tilgangi að uppræta bólvirki Ríkis íslams.

Trúmál skilji fólk ekki í sundur

„Hollande forseti hefur bjargað sér vel síðustu daga. Hann hélt snjalla og merkilega ræðu eftir atburðina. Sagði að fólk ætti að standa saman og trúmál ættu ekki að skilja það í sundur. Ég er sammála því. Nú þarf bara að taka olíuna af Sýrlendingum, þá hafa þeir engar krónur til að gera neitt,“ segir Erró sem kveðst þessa dagana halda sig mest á vinnustofu sinni, þar sem hann undirbýr nú fimm málverkasýningar sem verða á næsta ári.