Frákast Marvin Valdimarsson í baráttunni undir körfunni
Frákast Marvin Valdimarsson í baráttunni undir körfunni — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á ÁSVÖLLUM Kristin Geir Friðriksson kiddigeirf@gmail.com Stjörnumenn mættu heldur betur galvaskir og einbeittir til leiks í gærkveldi þegar þeir heimsóttu Hauka í 7. umferð Domino's-deildar karla í körfuknattleik.

Á ÁSVÖLLUM

Kristin Geir Friðriksson

kiddigeirf@gmail.com

Stjörnumenn mættu heldur betur galvaskir og einbeittir til leiks í gærkveldi þegar þeir heimsóttu Hauka í 7. umferð Domino's-deildar karla í körfuknattleik. Í aðeins einum hluta, þeim þriðja, tóku gestirnir öll völd og hreinlega lokuðu á allar aðgerðir heimamanna og unnu á endanum sannfærandi sigur, 85:73, eftir að hnífjafnt hafði verið í hálfleik, 36:36.

Þetta byrjaði allt saman í rólegheitum; á báðum liðum lá einhver sóknarmara sem dró svolítið úr þeim krafti sem ég hélt að myndi einkenna leikinn frá upphafi hans. Varnarleikur beggja liða var fínn en í bland við dapran sóknarleik beggja varð fyrri hálfleikurinn stigalágur.

Baráttan var hinsvegar alltaf til staðar hjá báðum liðum, eða alveg þar til í þriðja hlutanum. Þá misstu Haukamenn allt niður um sig! Við það hrundi varnarleikur þeirra líka og pirringur út í dómara kom í kjölfarið, sem kostaði liðið of mikið. Pirringnum hefði átt að beina að speglinum, því Stjörnumenn einfaldlega yfirspiluðu hræðilega illa skipulagða vörn Haukamanna og því aðeins um einn sökudólg að ræða í þessum leik; Haukaliðið! Fjórði hluti leið án þess að eitthvað jákvætt gerðist hjá Haukum. Stjörnumenn, með Al'lonzo Coleman í fararbroddi, misstigu sig aldrei og unnu því auðveldan sigur.

Það var allt annað að sjá Stjörnuna en í síðustu tapleikjum liðsins; liðsholningin frábær, jafnvægið innan liðsins flott í sókninni, þar sem boltinn fór mikið inn á Coleman. Vörnin var þétt á boltamann og uppskar því marga tapaða bolta frá Haukum.

Stjörnumenn léku leikinn nákvæmlega eins og þeir vildu; hægðu á hraðanum, komu boltanum inn í teig og sýndu meiri skynsemi en oft áður í sínum aðgerðum. Baráttan til fyrirmyndar og holning liðsins minnti á herra Hyde, miðað við doktor Jekyll síðustu leikja, eins og Hrafn Jóhannesson, þjálfari liðsins, orðaði það. Sterkur liðssigur sem ætti að gera anda liðsins gott.

Haukamenn sýndu hliðar sem sáust í fyrstu umferðum; skipulagið á báðum endum vallarins ekki gott. Stephen Madison átti ekki góðan dag og sá eini sem gat dregið kanínur úr hatti sínum var Kári Jónsson, aðrir voru ekki tengdir inn í neitt sem kallast gat „liðsheild“. Svona spiluðu Stjörnumenn í síðustu tapleikjum sínum; Haukar misstu móðinn alltof snemma og náðu aldrei alvöru áhlaupi á síðustu 10 mínútum leiks – á heimamvelli! Pirringur og slæmur undirbúningur kostuðu þá leikinn!

Haukar – Stjarnan 73:85

Schenkerhöllin, Dominos-deild karla miðvikudaginn 18. nóvember 2015.

Gangur leiksins : 4:4, 11:11, 18:19, 21:20 , 23:22, 26:27, 28:33, 36:36 , 40:44, 40:48, 43:53, 46:63 , 51:68, 59:75, 67:81, 73:85 .

Haukar : Kári Jónsson 22/9 fráköst/6 stoðsendingar, Stephen Michael Madison 16/4 fráköst, Haukur Óskarsson 14/5 fráköst, Hjálmar Stefánsson 10/5 varin skot, Emil Barja 4/8 fráköst/6 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 4/5 fráköst/6 stoðsendingar/3 varin skot, Kristinn Jónasson 3.

Fráköst : 24 í vörn, 12 í sókn.

Stjarnan : Al'lonzo Coleman 29/10 fráköst/7 stoðsendingar, Justin Shouse 13/4 fráköst, Marvin Valdimarsson 13/5 fráköst, Ágúst Angantýsson 12, Tómas Heiðar Tómasson 7/6 stoðsendingar, Daði Lár Jónsson 7, Magnús Bjarki Guðmundsson 3, Sæmundur Valdimarsson 1/8 fráköst.

Fráköst : 23 í vörn, 9 í sókn.