Lögregla Alvarlegur skortur er á vopnum, búnaði og mannafla.
Lögregla Alvarlegur skortur er á vopnum, búnaði og mannafla. — Morgunblaðið/Eggert
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

„Við höfum ítrekað erindið við ráðuneytið en bíðum enn eftir viðbrögðum þess,“ segir Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, vegna greinargerðar um eflingu viðbúnaðar lögreglu sem embættið sendi frá sér í apríl sl. Þar kemur m.a. fram að þörf sé á að bæta vopnabúnað og annan búnað lögreglu þannig að unnt verði að búa 150 lögreglumenn með fullnægjandi hætti á hverjum tíma og hægt að tryggja viðunandi viðbúnaðargetu hjá lögreglunni eftir að búnaðarefling, viðbragðsáætlanagerð og þjálfun hefur farið fram.

Allsherjar- og menntamálanefnd var kynnt staða mála hinn 6. október en Jón segir menn telja skortinn alvarlegan.

Fleiri verkefni í öryggismálum

Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að unnið sé að löggæsluáætlun þar sem þarfir lögreglunnar séu skilgreindar. „Mér finnst mjög líklegt að við sjáum fram á aukin verkefni vegna öryggismála og við munum setja sérstakan fókus á þetta mál,“ segir Ólöf. „Það er enginn vafi á því að lögreglan þarf að hafa yfir að ráða þeim mannafla og búnaði sem nauðsynlegur er,“ segir Ólöf.

Hún segir að það sé ekkert launungarmál að það þurfi aukalega fjármuni til þess að bæta í löggæsluna.

Hundraða milljóna þörf

„Það skiptir gríðarlega miklu máli að við getum sett fram tillögur sem eru trúverðugar, bæði gagnvart löggæslunni í landinu og gagnvart fjárveitingarvaldinu. Til þess að geta bætt í þurfum við hins vegar gríðarlega mikla fjármuni,“ segir Ólöf.

Hún segir að sjálfsögðu fylgst með hryðjuverkaógn en segir jafnframt að hún sé einungis hluti af endurskoðun löggæslu í víðum skilningi. Hún segir að stærri áætlanagerð um löggæslumál verði ekki tilbúin fyrr en á næsta ári. „Ef vel ætti að vera þyrfti hundruð milljóna til löggæslumála hér á landi,“ segir Ólöf.

Löggæsla
» Ríkislögreglustjóri sendi frá sér greinargerð til innanríkisráðuneytisins um eflingu viðbúnaðar lögreglu í apríl.
» Í greinargerðinni segir að eingöngu sé hægt að vopna almenna lögreglumenn með skammbyssum og að einungis sé hægt að vopna fáa þeirra komi til hækkunar vástigs.