Notalegt Að skera laufabrauð við kertaljós er hin besta iðja.
Notalegt Að skera laufabrauð við kertaljós er hin besta iðja.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslensku jólasveinarnir verða á sveimi í Árbæjarsafni á sunnudögum í desember og hægt að upplifa jólahaldið eins og það var fyrr á tímum. Ungir sem aldnir geta skoðað áhugaverðar sýningar, fylgst með handverksfólki að störfum, föndrað og jafnvel leikið sér með leikföng frá síðustu öld.

Þeir eru ófáir sem geta ekki hugsað sér að missa af jóladagskrá Árbæjarsafns. Alla sunnudaga í desember vaknar safnið úr vetrardvala og iða húsin af lífi. Ágústa Rós Árnadóttir, viðburðastjóri á Borgarsögusafni Reykjavíkur, segir dagskrána njóta svo mikilla vinsælda að gott geti verið að taka strætó á safnið því bílastæðin eigi það til að fyllast.

Gömlu jólin

Jóladagskrá Árbæjarsafns stendur yfir þrjá sunnudaga í desember, n.t.t. hinn 6., 13. og 20. desember, frá kl. 13 til 17. „Þetta er fastur liður í jólaundirbúningi margra fjölskyldna sem fara saman í Árbæjarsafn til að upplifa gömlu jólin,“ segir Ágústa. „Andrúmsloftið á safninu er mjög hátíðlegt og upplifunin eins og að stíga eina öld aftur í tímann. Starfsfólkið er klætt í búninga í takt við tíðaranda safnsins og von á íslensku jólasveinunum sem hrekkja börnin á góðlátlegan hátt, stela sér hangikjötslæri og dansa í kringum jólatréð.“

Meðal þess sem ber fyrir augu gesta í ár er hefðbundinn laufabrauðsskurður við kertaljós, í gamla Árbænum. „Fylgjast má með prentara að störfum og fá hjá honum nýprentaða jólakveðju, sem og sjá handverksmann skera út gripi úr tré,“ lýsir Ágústa. „Í safninu er líka venjan á aðventunni að búa til kerti úr tólg með hefðbundnum aðferðum og hangikjöt er soðið í potti inni í Hábæ svo að ilmurinn fyllir húsið.“

Dansað við harmonikkuspil

Klukkan 15 safnast gestir, starfsmenn og jólasveinar saman við jólatréð sem stendur miðsvæðis í safninu og dansa þar og syngja jólasöngva við harmonikkuundirspil og kórsöng. Segir Ágústa gaman að sjá hvað jafnt ungir sem aldnir gestir eru duglegir að taka undir í sönginum. „Messað verður alla sunnudagana þrjá í Árbæjarsafnskirkju kl. 14. Hinn 13. verða fallegir jólatónleikar í húsinu Lækjargötu með dúettinum Stjörnubjart, kl. 13.30 og 14.30. Hinn 20. verða tónleikar í kirkjunni með Huga Jónssyni og Kára Allanssyni strax í kjölfar messunnar, kl. 14.30.“

Ekki má heldur gleyma að skoða sýningar safnsins. Ágústa segir sýninguna Komdu að leika! alltaf vekja jafnmikla lukku en þar er fjallað um leikföng barna á 20. öld. „Bæði pabbar, mömmur, afar og ömmur sem koma á þá sýningu finna þar eitthvað sem kallar fram fortíðarþrána, allir mega leika sér með sýningargripina, klæða sig upp í búninga og setja upp leikhús.“

Jólin árið 1959

Í Lækjargötu-húsinu er búið að innrétta stofu og jólaskreyta í anda ársins 1959. Þar verður einn af fróðari starfsmönnum safnsins til taks til að svara hvers kyns spurningum um jólahaldið og hvetur Ágústa gesti til að grennslast t.d. fyrir um það hvers vegna Íslendingar drekka malt og appelsín á jólum, hví það er til siðs að baka margar sortir af smákökum og af hverju í ósköpunum rauðkálið er ómissandi með hangikjötinu.“

Í Kornhúsinu er föndurhorn fyrir alla aldurshópa og hægt að gera þar gamaldags jólaskraut en þar er einnig að finna sýninguna Hjáverkin sem skoðar þau störf sem konur tóku að sér að vinna í heimahúsum á tímabilinu 1900 til 1970. „Í gegnum hannyrðir, matseld og kennslu öfluðu íslenskrar húsmæður mikilvægra tekna fyrir fjölskylduna en þetta framlag þeirra var þó hvergi skráð sem skyldi.“

Kakó og kaka

Ágústa minnir á að Árbæjarsafn er útisafn og þurfa gestir að klæða sig í samræmi við veður þótt hægt sé að skjótast inn í gömul húsin ef veður er kalt. „Síðan er alltaf hægt að setjast inn í Dillonshús, hita kroppinn með kakóbolla og gæða sér á kökusneið með. Sælkerarnir ættu líka að líta inn í Krambúðina og kaupa þar brjóstsykur í kramarhúsum eða ljúffenga súkkulaðimola. Í safnbúðinni má einnig finna hitt og þetta skemmtilegt sem gæti ratað í jólapakkann. Heyrst hefur að sumir jólasveinar finni þar góðar gjafir til að setja í skóinn úti í glugga, s.s. leikföng og ullarsokka.

Yngstu gestunum þykir iðulega stórmerkilegt að koma í safnið og fræðast um það hvernig jólahaldið fór fram fyrr á tímum, þegar prúðu börnin fengu bara kerti og spil í jólagjöf, en ekki barbídúkkur og leikjatölvur. „Það rifjast líka upp ýmsar minningar hjá þeim sem eldri eru þegar komið er inn á safnið, og ómetanlegt að geta deilt þeim með börnunum og barnabörnunum,“ segir Ágústa. ai@mbl.is