Tónar Léttsveitin í afmælisferð kórsins í sumar þar sem þær sungu m.a. í dómkirkjunni í Gloucester, sem margir þekkja úr kvikmyndunum um Harry Potter.
Tónar Léttsveitin í afmælisferð kórsins í sumar þar sem þær sungu m.a. í dómkirkjunni í Gloucester, sem margir þekkja úr kvikmyndunum um Harry Potter.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Léttsveit Reykjavíkur heldur jólatónleika þar sem blandað er saman Baggalútslögum, sígildum jólasöngvum og nýju lagi eftir Hafdísi Huld.

Konurnar í Léttsveit Reykjavíkur eru byrjaðar að syngja jólasöngvana strax í september. Það dugar ekki annað en að byrja snemma ef á að takast að æfa vel lögin fyrir árlega jólatónleika kórsins.

Særún Ármannsdóttir er formaður Léttsveitarinnar en kórinn fagnar 20 ára afmæli á þessu ári. „Kórinn var stofnaður árið 1995 og er upphaflega afsprengi Kvennakórs Reykjavíkur en varð sjálfstæður nokkrum árum síðar, settur á laggirnar með það fyrir augum að flytja kórverk í léttari kantinum. Þau lög sem við syngjum eru ekki beinlínis léttmeti, en við tökum okkur ekki of hátíðlega og blöndum saman dægurtónlist og sígildum söngvum og nýjum verkum.“

Reiknast Særúnu til að Léttsveit Reykjavíkur sé stærsti kvennakór landsins en að jafnaði eru á bilinu 110 til 120 konur virkar í kórnum á hverjum tíma.

Tónleikar Léttsveitarinnar verða í Guðríðarkirkju þriðjudaginn 8. desember og fimmtudaginn 10. desember, kl. 20 í bæði skiptin. Á dagskrá tónleikanna eru jólalög úr öllum áttum. Gísli Magna stjórnar kórnum en Aðalheiður Þorsteinsdóttir spilar á píanóið og von er á góðum gestum á borð við Margréti Eiri söngkonu, auk Tómasar R. Einarssonar bassaleikara og Kjartans Guðnasonar slagverksleikara. Kaupa má miða í gegnum meðlimi kórsins og á Facebook-síðu Léttsveitarinnar.

Í „Harry Potter-kirkjunni“

Rennur miðaverðið til rekstrar kórsins og hjálpar meðal annars til að fjármagna árlegt ferðalag, ýmist innanlands eða utan. Hefur kórinn á undanförnum árum m.a. sungið á Ítalíu, Spáni, Kúbu og heimsótt Norðurlöndin. „Í sumar fórum við í afmælisferð til Englands og sungum m.a. í dómkirkjunni í Gloucester, sem margir þekkja úr kvikmyndunum um Harry Potter og tókum líka lagið í kirkjunni sem kennd er við Shakespeare, í Stratford Upon Avon.“

„Við höfum það líka fyrir sið í desember að syngja til stuðnings góðu málefni. Að þessu sinni ætlum við að syngja á styrktartónleikum í Laugarneskirkju og fyrir vistmenn og gesti Grensásdeildar endurhæfingar Landspítalans og færa þeim jólaandann,“ segir Særún.

Meðal verka sem flutt verða er nýtt jólalag eftir Hafdísi Huld, jólasöngvar úr smiðju grallaranna í Baggalúti í bland við sígild íslensk jólalög, jafnt nýrri sem eldri. Eru lögin mörg í nýjum útsetningum Gísla Magna og Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

Særún segir það óneitanlega geta verið undarlegt að byrja að æfa jólalögin snemma á haustin. „Þökk sé kórstarfinu er maður óneitanlega farinn að hugsa til jólanna fyrr en ella. Ég er sjálf mikið jólabarn í mér og finnst þetta bara æðislegt. Skrítnast þykir mér að koma út af jólaæfingu að kvöldi í miklu jólaskapi og uppgötva að það er enn bjart úti og jólin enn langt undan.“

Þá finnur Særún ekkert fyrir því þó að þátttaka í starfi kórsins kalli oft á tvær æfingar í viku. „Það er mjög gefandi að vera í kór og gott fyrir sálina að syngja. Sama hversu þreyttur maður kemur á æfingu er ekki annað hægt en að ganga út fullur af orku og gleði. Lífsgleðin er mikil í hópnum og félagsskapurinn góður enda segir það sína sögu að hópur kórkvenna hefur sungið með Léttsveitinni í 20 ár.“

ai@mbl.is