Jón Sigurðsson fæddist 9. september 1956. Hann lést 29. október 2015.

Útför Jóns fór fram 12. nóvember 2015.

Skjótt hefur sól brugðið sumri og naprir haustvindarnir heilsa okkur, banka á dyrnar til að bjóða okkur góðan dag. Birtan þverr og myrkrið minnir á sig nú þegar skammdegið gengur í garð. Það er komið haust á landi ísa.

Ég kynntist Nonna þegar ég sleit barnsskónum á Bíldudal. Hvílík paradís, hvílíkt umhverfi og ævintýraheimur. Þau forréttindi að hafa vaxið þar úr grasi undir verndarvæng fólksins í þorpinu okkar verða sennilega aldrei verðmetin. Ég man fyrst eftir Nonna þegar ég var smápjakkur og þótti hann skemmtileg týpa í minningunni, síðar áttaði ég mig á því að hann var haldinn ýmsum gáfum sem eru ekki öllum gefnar. Auk þess var Nonni drengur góður og mesta náttúrubarn sem ég hefi kynnst í minni jarðvist.

Æskuminningarnar að vestan sé ég oft í hillingum og væri ég meira en til í að upplifa þær aftur. Allt væri eins og það var þá; þorpið okkar, fólkið, fjöllin, lognið og bernskan fengi að blómstra í sakleysi sínu að eilífu. Minningarnar sem ég geymi um þig, Nonni, úr æsku minni og nútíð eru mér ógleymanlegar.

Haustið kom sviplega þegar okkur bárust fregnir af andláti þínu. Það er sárt að horfa á eftir þér kveðja hinn ófullkomna heim mannfólks langt fyrir aldur fram. Það er ekki orðum aukið að segja að að Nonna sé sjónarsviptir.

Að ferðalokum langar mig að þakka æðri máttarvöldum fyrir að hafa hlotið þá lukku í lífinu að fá að kynnast þér. Þú kenndir mér svo margt er viðkom fluguveiði, fluguhnýtingum og veiðum almennt. Veiðiþekking þín var á við þekkingu allra færustu fræðimanna sem kenna mér við Háskólann í Reykjavík. Einnig leiðbeindir þú sonum mínum við fluguhnýtingar og bauðst þeim í veiðitúra. Hafðu fyrir það ævarandi þakkir og hlýhug.

Þú fórst ótroðnar slóðir í lífinu, vildir öllum vel og varst boðinn og búinn að hlaupa undir bagga ef með þurfti.

Nú ert þú lagður af stað í síðustu veiðiferðina, yfir sandana eilífu og beljandi jökulfljótin. Æðri heimar bíða þín, sléttir firðir, lygn veiðivötn og grænir fjallasalir taka nú á móti þér, elsku vinur. Náðarfaðmur náttúrunnar ásamt veiðigyðjunni mun sjá vel um þig. Þú tekur kannski frá pláss á árbakkanum handa mér og bendir mér á bestu veiðistaðina, eins og þú gerðir hér í jarðlífinu, þegar við hittumst hinum megin.

Við fráfall þitt sendum við feðgar Hauki, Hrefnu, Sigurði, Herdísi, Guðnýju, Láru, Hrönn og öðrum aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur. Hugurinn er hjá ykkur.

Við kveðjum þig hér með sannri sjómannakveðju og þökkum þér fyrir okkur. Far og dvel í eilífum friði, elsku vinur.

Í sálarkimum niðdimm nótt,

sem nístingskulda geyma.

Þú elsku vinur fórst of fljótt,

farinn til æðri heima.

Sálarangist mótar menn,

þá minningarnar streyma.

Þig ljósið fagurt flytji senn,

fljótt til æðri heima.

Vér ávallt munum minnast þín,

manngæskunnar hjarta.

Þú prýddir heimsins hýjalín,

nú himininn stjörnubjarta.

Ljúft í hjarta logar mér,

ljósið bjart í sinni.

Ljósið fagra færi þér

frið í eilífðinni.

Ívar Örn Hauksson og synir.