Mannlíf Hagstofa Íslands hefur birt nýja mannfjöldaspá þar sem m.a. kemur fram að íbúar hér á landi gætu orðið rúmlega 437 þúsund árið 2065.
Mannlíf Hagstofa Íslands hefur birt nýja mannfjöldaspá þar sem m.a. kemur fram að íbúar hér á landi gætu orðið rúmlega 437 þúsund árið 2065. — Morgunblaðið/Heiddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Hinn 1. janúar 2015 var mannfjöldinn á Íslandi 329.100 en samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofu Íslands, sem birt var í gær, gætu íbúar landsins orðið 437.336 árið 2065.

Sviðsljós

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Hinn 1. janúar 2015 var mannfjöldinn á Íslandi 329.100 en samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofu Íslands, sem birt var í gær, gætu íbúar landsins orðið 437.336 árið 2065.

Fyrsti framreikningur um mannfjölda hér á landi var gerður árið 1961 og náði til ársins 2000. Frá árinu 2010 hefur Hagstofan birt árlega nýja útgáfu af spá um mannfjöldaþróun til næstu 50 ára, en birtar eru þrjár útgáfur af spánni, þ.e. miðspá, lágspá og háspá, sem byggðar eru á mismunandi forsendum um hagvöxt, frjósemishlutfall og búferlaflutninga.

Mannfjöldinn mun halda áfram að vaxa næstu 50 árin samkvæmt mið- og háspá Hagstofunnar, en í lágspá, þar sem miðað er við lágt frjósemishlutfall og minni búferlaflutninga, er gert ráð fyrir að íbúatalan byrji að lækka fáeinum árum fyrir lok spátímabilsins. Þannig gerir háspáin ráð fyrir að íbúafjöldi hér á landi verði 513.116 árið 2065 en lágspáin reiknar með 372.642 íbúum. „Mannfjöldinn fer yfir hálfa milljón íbúa í kringum árið 2060 samkvæmt háspánni en í lágspánni verður hins vegar mannfækkun eftir árið 2055,“ segir í spá Hagstofunnar.

Innflytjendur stór þáttur

Einn þeirra þátta sem mikil áhrif hefur á mannfjöldabreytingar eru búferlaflutningar, en samkvæmt spánni verður fjöldi aðfluttra meiri en brott fluttra á hverju ári. Er það fyrst og fremst sagt vegna erlendra innflytjenda. Íslenskir ríkisborgarar sem flytja frá landinu verða áfram fleiri en þeir sem flytja til landsins, gangi spái Hagstofunnar eftir.

Í skýrslunni segir að þróun kynjahlutfalls, þ.e. fjöldi karla á móti hverjum 1.000 konum á ári, verði „áhugaverð“ í framtíðinni, en hún er samspil margra þátta, s.s. ólíkri fæðingartíðni, en fleiri drengir fæðast á hverju ári en stúlkur, ólíkum lífslíkum og ólíkri hegðun kynjanna hvað varðar afstöðu til búferlaflutninga. „Kynjahlutfallið [lækkar] samkvæmt miðspánni fram til ársins 2047 og verður þá lægra en áður hefur verið frá árinu 1950. Það fer niður fyrir 1.000 árið 2030 og helst þar fram undir lok spátímans. Það er vegna þess að karlar verða færri en konur á hverju ári eftir 2040,“ segir í spá Hagstofunnar.

Veruleg aukning eldra fólks

Öll spáafbrigði gera ráð fyrir verulegri fjölgun þeirra sem eru yfir 65 ára. Hlutfall þess fólks verður árið 2035 yfir 20% mannfjöldans og yfir 25% árið 2061. Hlutfall þeirra sem eru 65 ára og eldri í dag er 13,5%.

„Hlutfall þeirra sem eru 85 ára og eldri byrjar hins vegar ekki að aukast fyrr en árið 2028, en fram að því verður það innan við 2%. Fram til ársins 2045 mun það hlutfall tvöfaldast og fara í um 5% undir lok spátímabilsins,“ segir í spánni.

Frá árinu 2050, samkvæmt miðspá Hagstofunnar, mun fólk á vinnualdri, sem skilgreint er á aldursbilinu 20 til 65 ára, þurfa að „framfleyta hlutfallslega fleira eldra fólki en yngra, öfugt við það sem nú er.“

Lágspáin gerir ráð fyrir þessari breytingu 2037, en yngra fólk verður fleira í háspá en eldra fólk allt spátímabilið. „Íslendingar [eru nú] og verða enn um sinn mun yngri en flestar Evrópuþjóðir. Árið 2065 verður meira en þriðjungur Evrópubúa eldri en 65 ára en einungis um fjórðungur Íslendinga.“

Ísland þarf vinnuafl

Fólksfjölgunin hefur undanfarin 50 ár verið í kringum 1% en í spá Hagstofunnar er gert ráð fyrir að úr henni dragi smám saman næstu 50 árin. Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir töluna koma til með að nálgast 0,5%.

„Það er alveg ljóst að ef við ætlum að halda uppi þeim hagvexti sem við teljum okkur þurfa til að byggja hér upp lífskjör þá er vert að hafa áhyggjur af hugsanlegum skorti á vinnandi höndum,“ segir Gylfi og heldur áfram:

„Við sjáum, út frá atvinnuhagsmunum, t.a.m. enga ógn í því að hingað til lands komi fleiri skjólstæðingar flóttamannahjálpar. Ísland, eins og restin af Evrópu, þarf á miklu vinnuafli að halda.“