Bjarki Már Elísson
Bjarki Már Elísson
Lærisveinar Erlings Richardssonar hjá Füchse Berlín með landsliðsmanninn Bjarka Má Elísson innanborðs öttu kappi við N-Lübbecke í 14. umferð þýsku efstu deildarinnar í handknattleik karla í gærkvöldi.

Lærisveinar Erlings Richardssonar hjá Füchse Berlín með landsliðsmanninn Bjarka Má Elísson innanborðs öttu kappi við N-Lübbecke í 14. umferð þýsku efstu deildarinnar í handknattleik karla í gærkvöldi.

Füchse Berlín fór með sigur af hólmi í leiknum, en lokatölur í leiknum urðu 34:31 Berlínarrefunum í vil.

Bjarki Már skoraði sex mörk fyrir Füchse Berlín sem komst upp í fimmta sæti deildarinnar með sigrinum. Bjarki hefur leikið í öllum leikjum Füchse Berlín í deildinni í vetur og skoraði í þeim leikjum 33 mörk.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel mættu Wetzlar á útivelli. Lokatölur í leiknum urðu 30:26 fyrir Kiel. Christian Dissigner var markahæstur í liði Kiel með níu mörk. Kiel er komið með 20 stig eftir þennan sigur og er sex stigum frá Rhein-Neckar Löwen sem er í efsta sæti deildarinnar. Kiel fór upp fyrir Wetzlar með sigrinum og situr í fjórða sæti deildarinnar.

Hannover-Burgdorf, lið Rúnars Kárasonar og Ólafs Guðmundssonar, heimsótti Flensburg og fékk skell, 37:21. Rúnar skoraði þrjú mörk en Ólafur sem er nýkominn aftur á parketið eftir meiðsli komst ekki á blað hjá Hannover-Burgdorf. hjorvaro@mbl.is