Gjöf Gaman að gefa góðar smákökur í jólagjöf.
Gjöf Gaman að gefa góðar smákökur í jólagjöf.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Smákökubakstur er eitt af því sem einkennir jólaundirbúning og krakkar í Snælandsskóla stunda fyrir jólin. Júlía Ágústsdóttir heimilisfræðikennari sér um kennsluna þar ásamt Aðalheiði Jóhannsdóttur grunnskólakennara.

Þetta er mjög hefðbundið, við bökum súkkulaðibitakökurnar hennar Allýjar sem hafa verið bakaðar í minni fjölskyldu í fimmtíu ár. Þegar ég hóf kennslu gaf ég nemendum mínum val um nokkrar smákökutegundir en súkkulaðibitakökurnar urðu alltaf fyrir valinu og nú er komin hefð á þær,“ segir Júlía Ágústsdóttir.

„Það er líka hefð að skreyta stofuna í byrjun aðventunnar og þá hefst baksturinn fyrir alvöru. Mikil áhersla er lögð á að krakkarnir læri að vinna saman, baksturinn er því alltaf samvinna.“

Flýtið ykkur hægt

Hvað er það helsta sem þarf að gæta að í smákökubakstri?

„Að fara eftir uppskriftinni og mæla rétt. Krakkarnir eiga það til að flýta sér svolítið og þá geta orðið mistök. Því segi ég alltaf við nemendur mína: Flýtið ykkur hægt.

Allt kennsluárið leggjum við áherslu á matreiðslu og bakstur frá grunni úr hollu og góðu hráefni, en þegar kemur að jólabakstrinum leyfum við okkur að nota ýmsa óhollustu eins og smjörlíki og sykur. Jólabaksturinn er jú sérstakur.“

Er vandi að baka súkkulaðibitakökurnar?

„Nei, það er mjög auðvelt. Það eina sem þarf að gera, eins og fyrr sagði, er að fara nákvæmlega eftir uppskriftinni.“

Piparkökur og jólabollutré

Bakið þið eitthvað fleira fyrir jólin?

„Já við bökum piparkökur sem við leyfum nemendum að skreyta stofuna með. Annað sem er mjög hefðbundið í okkar jólaundirbúningi er svokallað jólabollutré. Það er hefðbundinn gerbakstur þar sem búnar eru til bollur og þeim síðan raðað upp þannig að þær mynda jólatré. Þegar við höldum jólaveislu í heimilisfræðinni, sem er valgrein hjá unglingum, höfum við alltaf bæði smákökur og jólabollubrauðið og það er ekki síður vinsælt en kökurnar.“

Eru krakkar áhugasamir um jólaundirbúning?

„Já, þau eru flest áhugasöm. Einstaka nemendur eru búnir að baka svo mikið heima og vera í miklum jólaundirbúningi með sinni fjölskyldu að þeim þeim finnst nóg komið. En mikill meirihluti er mjög spenntur fyrir jólabakstrinum. Árgöngunum er skipt upp í mismunandi verkgreinar í skólanum og það er mikill spenningur hjá þeim nemendum sem lenda í heimilisfræðihópnum í desember, það er svo mikið um að vera hjá okkur. Skreytingar, jólaseríur og bakkelsi setja svip á aðventuna, sem við reynum að gera heilmikið úr í Snælandsskóla. “

Hinar ómissandi sörur

Ertu dugleg að búa til smákökur heima hjá þér þegar þú hefur svona mikið að gera í vinnunni?

„Ég verð að svara þessu neitandi. Ég hef svo mikið að gera í skólanum að ég baka lítið heima við. En ég reyni þó alltaf að baka sörurnar í vetrarfríinu mínu í október. Þá mega jólin koma. Ég er búin að þessu núna því sörurnar eru nokkuð sem mér finnst ómissandi, ég vil eiga þær kökur til á jólunum. Mér er meira sama um allt annað. En auðvitað koma jólin þó svo sörur séu ekki til. Ég verð að viðurkenna að eftir langan vinnudag í desember er baksturslöngunin kannski ekki mikil þegar heim er komið. Meðan börnin mín voru yngri var ég duglegri að baka fyrir jólin með þeim en þau eru bæði flutt að heiman.“

Hefðbundinn jólabakstur á æskuheimilinu

Kaupir þú kökur fyrir jólin?

„Nei, það geri ég ekki og heldur ekki tilbúið deig. Á mínu æskuheimili í Hafnarfirði var hefðbundinn jólabakstur og ég ólst upp við súkkulaðibitakökurnar frá Allý móðursystur minni og þegar ég fór að búa fór ég að baka þær sjálf fyrir jólin. Eftir að ég fór að kenna hafa svo nemendur mínir bakað súkkulaðibitakökurnar með mér. Mér finnst það mjög heimilislegt.

Ég er mjög vanaföst, súkkulaðibitakökurnar tilheyra jólunum og eru eingöngu bakaðar í desember. Við gerum okkur semsagt dagamun á aðventunni en á öðrum tímum er hefðbundin heimilisfræðikennsla þar sem hollustan er höfð í fyrirrúmi. gudrunsg@gmail.com

Sörur

400 g fínmalaðar möndlur með hýði

6 dl flórsykur

5 eggjahvítur

Blandið saman fínmöluðum möndlum og flórsykri og blandið varlega saman við stífþeyttar eggjahvítur með sleif.

Setjið deigið á bökunarplötu með teskeið og bakið við 170°C í 10 mínútur.

Smjörkrem

1 ½ dl sykur

1 ½ dl vatn

5 eggjarauður

300 g smjör

2 msk. kakó

1 msk. kaffiduft

600-800 g ljós súkkulaðihjúpur

Sjóða saman sykur og vatn í síróp, þetta tekur u.þ.b. 5-7 mínútur. Þeytið rauðurnar á meðan og hellið síðan sírópinu í mjórri bunu út í þær og hrærið. Ekki kæla sírópið!!! Látið kólna vel áður en smjörið er hrært út í smátt og smátt. Að lokum er kakóinu og kaffiduftinu bætt saman við. Ath. að það er gott að sigta kaffiduftið og kakóið áður en það fer út í kremið.

Látið kremið kólna vel í kæli áður en því er smurt á sléttu hliðina á kökunum.

Ég skipti kökunum og kreminu í fjóra jafna hluta svo það sé auðveldara að láta kremið passa á allar kökurnar.

Að lokum eru kökurnar hjúpaðar með ljósum súkkulaðihjúp sem búið er að bræða í vatnsbaði. Gott er að geyma kökurnar í kulda áður en þær eru hjúpaðar.

Kökurnar eru geymdar í frysti fram að notkun.

Lakkrístoppar 3 eggjahvítur

200 g púðursykur

150 g rjómasúkkulaði (saxað smátt)

2 pk. lakkrískurl

Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt.

Súkkulaðinu og kurlinu blandað varlega saman við með sleif.

Sett á plötu með teskeið og bakað við 170°C í 11-13 mínútur.

Piparkökur

75 g mjúkt smjör

125 g sykur

1 dl sýróp

1 dl vatn

1 tsk. engifer

1 tsk. negull

2 tsk. kanill

2 tsk. matarsódi (natron)

450 g hveiti

Bræðið saman í stórum potti við vægan hita smjör, sykur og síróp, bætið svo vatni saman við og hrærið aðeins saman, takið pottinn af heitri hellunni.

Blandið hveiti, kryddunum og matarsódanum saman í skál og hellið varlega út í pottinn og hrærið saman með sleif.

Hellið deiginu síðan á bökunarpappír og hnoðið aðeins betur saman með pappírnum.

Pakkið deiginu inn í bökunarpappírinn og í plastpoka og geymið í kæli í 10-30 mínútur áður en farið er að vinna með það. Deigið er mjög meðfærilegt og auðvelt að fletja út. Það geymist í nokkra daga í kæli.

Bakið við 225C° í 5-10 mínútur, fer eftir þykkt.

Súkkulaðibitakökur

50 g smjörlíki

1 dl sykur

1 dl púðursykur

1 egg

2 dl hveiti

½ tsk. natron (matarsódi)

¼ tsk. salt

1 dl kókosmjöl

1 dl dökkir súkkulaðispænir

Smjörlíki og sykur hrært vel saman, síðan er eggið sett út í og hrært áfram.

Restin sett út í og hrært lítillega eða þangað til allt hefur blandast vel.

Búnar til kúlur og þær settar á plötu 7x7 stk. á bökunarplötuna.

Það verður smá afgangur sem fer á aðra plötu.

Bakað við 200°C á undir- og yfirhita í 10-12 mínútur.

Jólabollutré

1 ½ dl mjólk

1 ½ dl sjóðandi heitt vatn

3 tsk. þurrger

2 msk. sykur

¾ tsk. salt

3 msk. olía

1 tsk. kardimommuduft

1 dl hveitiklíð

6-7 dl hveiti

Stráið þurrgeri yfir volgan vökvann og bíðið í 5 mínútur án þess að hræra í.

Bætið við sykri, salti, olíu, kardimommudufti, hveitiklíði og hveiti og hnoðið deigið þar til það verður seigt og samfellt.

Stráið smá hveiti yfir og látið það lyfta sér á volgum stað þar til rúmmál þess hefur tvöfaldast.

Sláið niður og mótið 22 bollur úr deiginu og setjið upp eins og jólatré, 6 bollur neðst, svo 5 o.s.frv., síðasta bollan er fóturinn.

Látið lyfta sér á plötunni í 10-20 mínútur.

Síðan eru bollurnar penslaðar með eggjablöndu og bakaðar í miðjum ofni við 225°C í ca. 10 mínútur.