Bernskujólin „Jólaveislunni hjá afa og ömmu fylgja líka góðar minningar um möndlugraut, hangikjöt, kaffibúðing og fleira góðgæti,“ segir Þóra Einarsdóttir óperusöngkona.
Bernskujólin „Jólaveislunni hjá afa og ömmu fylgja líka góðar minningar um möndlugraut, hangikjöt, kaffibúðing og fleira góðgæti,“ segir Þóra Einarsdóttir óperusöngkona. — Morgunblaðið/Eggert
Á aðfangadagskvöld borðuðum við spaghetti með tómatsósu.

Það besta við jólin eru samverustundir með fjölskyldu og vinum – hvort heldur er á aðventunni eða yfir hátíðirnar – eftirvænting og gleði, friður og ró. Tónleikahald er vitaskuld stór partur af jólunum mínum þar sem ég er yfirleitt mikið að syngja yfir hátíðisdagana. Jólaóratórían eftir Bach er toppurinn á jólatónlistinni í mínum huga og sömuleiðis óperan Hans og Gréta eftir Engelbert Humperdinck, en ég hef oft tekið þátt í uppfærslu á þeirri óperu í kringum jólin. Ef ég er ekki að syngja við guðsþjónustu á jólunum finnst mér mjög notalegt að fara í kirkju til að njóta.“

Jólahefðirnar á þínu heimili?

„Ég get ekki sagt að ég haldi í hefðir aðrar en þær að hafa það huggulegt og elda góðan mat. Við erum reyndar alltaf með lifandi kerti á jólatrénu, en það finnst mér skemmtileg hefð og sérstaklega hátíðleg. Við fjölskyldan höfum haldið jól víða um heim, meðal annars í Þýskalandi og á Englandi, og jólin hafa verið með ýmsu móti, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Mér finnst mikilvægt að láta ekki stjórnast af hefðum, þótt þær geti oft verið skemmtilegar.“

Nýju sparifötin

Óvenjulegustu jólin á erlendri grund?

„Fyrir nokkrum árum eyddum við hjónin jólunum í London. Á aðfangadagskvöld kom ég fram ásamt sinfóníuhljómsveit á jólatónleikum í Royal Albert Hall, og ætluðum við út að borða á eftir. Að tónleikunum loknum uppgötvuðum við hins vegar að allt var lokað og hvergi hægt að setjast niður yfir góðri máltíð. Við snerum því aftur í íbúðina sem við höfðum tekið á leigu, kveiktum á sprittkertum og borðuðum spaghetti með tómatsósu. Þrátt fyrir allt komu jólin og voru yndisleg.“

Hlýjar minningar frá bernskujólunum?

„Það er ótalmargt sem kemur upp í hugann. Minningin um ný föt, þegar allt var orðið hreint og fínt, við systurnar að skreyta jólatréð með pabba og mamma listakokkur að útbúa jólamatinn.

Julefrokost með heimalagaðri síld og kæfu og Janssons fristelse var órjúfanlegur partur jólahaldsins. Jólaveislunni hjá afa og ömmu fylgja líka góðar minningar um möndlugraut, hangikjöt, kaffibúðing og fleira góðgæti.

Þegar ég hugsa til jólanna á uppvaxtarárunum rifjast upp afar ánægjuleg samvera með fjölskyldunni, fjörugur leikur við frændsystkinin, bóklestur og nægur tími til alls.“

Gæs með sveskjum

Veislumaturinn í ár?

„Á aðfangadag verðum við með humar í forrétt og gæs í aðalrétt; Björn maðurinn minn er snillingur í að elda gæs en hann fyllir hana með sveskjum og eplum. Í eftirrétt höfum við svo ekta ris à l'amande. Á jóladag er það yfirleitt hefðbundið hangikjöt sem við fáum í jólaboðum fjölskyldunnar.

Á gamlársdag höfum við stundum haft önd eða kalkún, ostafondue hefur líka verið vinsælt hjá okkur þá, en engin ákvörðun hefur verið tekin í ár. Eitt af því sem annars tilheyrir mínum jólum er hnetu- og ávaxtakökubrauð, en uppskriftin er úr jólablaði Bo Bedre og ég hef bakað það síðustu árin. Brauðið er hollt og gott og slær alls staðar í gegn.“

Hnetu- og ávaxtakökubrauð

800 g hnetur og þurrkaðir ávextir í bland, saxa helminginn gróflega

börkur af einni sítrónu

100 g spelt (eða hveiti)

2 tsk. vínsteinslyftiduft

½ tsk. allrahanda

2 msk. hunang

3 egg

Þeytið saman hunang og egg ásamt sítrónuberki og allrahanda. Blandið út í hveiti og lyftidufti og loks hnetum og ávöxtum. Setjið í gott brauðform, fóðrað með bökunarpappír. Bakið við 150°C í 90 mín.

Mér finnst upplagt að gera tvö brauð. Annað má borða strax, það er líka gott með smjöri, en hitt geymi ég og vökva það af og til með koníaki, eða dökku rommi fyrir þá sem hafa smekk fyrir því. beggo@mbl.is