Íslenska landsliðið í knattspyrnu stimplaði sig út á þessu ári á hálfendasleppan hátt eftir ævintýrið mikla þar sem því tókst að vinna sér farseðilinn á EM.
Íslenska landsliðið í knattspyrnu stimplaði sig út á þessu ári á hálfendasleppan hátt eftir ævintýrið mikla þar sem því tókst að vinna sér farseðilinn á EM. Í síðustu fimm leikjum ársins var uppskeran léleg; þrjú töp, tvö jafntefli og markatalan úr þessum leikjum 5:10.

En er þetta eitthvað til að hafa áhyggur af? Mitt svar er nei. Eðlilega varð mikið spennufall hjá leikmönnum eftir að EM-sætið var í höfn og í síðustu leikjum hafa orðið talsverðar mannabreytingar á liðinu þar sem lykilmenn hefur vantað og yngri og óreyndari leikmenn fengið tækifæri.

Ég tek undir þau orð Heimis Hallgrímssonar að nauðsynlegt hafi verið að gefa mönnum tækifæri og án þess sé ekki hægt að breikka hópinn. Auðvitað kalla svona breytingar á að úrslitin verði ekki með þeim hætti sem viljum sjá en mjög mikilvægt að vita hverjir eru tilbúnir og banka á dyrnar þegar að stóra verkefninu kemur.

Ég held að flestir sjái að fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er landsliðinu gríðarlega mikilvægur. Það hefur komið berlega í ljós í síðustu leikjum. Aron er akkerið og hjartað í liðinu sem bindur það saman, innan sem utan vallar.

Margir hafa áhyggjur af markvarðarstöðunni. Hannes Þór Halldórsson, okkar besti markvörður, er að jafna sig af erfiðum meiðslum og ómögulegt að segja til um í hvernig standi hann verður þegar líða fer á næsta ár. Ögmundur Kristinsson nýtti tækifærið illa í fjarveru Hannesar og mín skoðun er sú að verði Hannes Þór ekki orðinn 100% klár þegar að EM kemur eigi gamli maðurinn, Gunnleifur Gunnleifsson, að standa á milli stanganna. Ég treysti honum fullkomlega í það hlutverk.