Marta Guðjónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
Eftir Mörtu Guðjónsdóttur: "Við erum ekki að minnast þessara tímamóta til að telja neinum trú um það að baráttunni sé lokið. Henni lýkur nefnilega aldrei."
Í ár voru liðin hundrað ár frá því konur á Íslandi fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þess hefur verið minnst með ýmsum hætti á árinu. Það fór vel á því að enda þetta afmælisár með því að heiðra minningu Ingibjargar H. Bjarnason, fyrstu konunnar sem settist á Alþingi, með málþinginu Stelpur stjórna í Ráðhúsi Reykjavíkur sem var haldið í gær, á afmælisdegi hennar. Hinn 31. mars sl. héldum við kjörnar konur í borgarstjórn sérstakan hátíðarfund í tilefni af kosningaafmælinu, en þann mánaðardag, árið 1863, kaus fyrsta konan, Vilhelmína Lever, í bæjarstjórnarkosningum norður á Akureyri. Hún kaus aftur til bæjarstjórnar þar hinn 3. janúar 1866. Danakonungur staðfesti lög um mjög takmarkaðan kosningarétt kvenna til sveitarstjórna árið 1882, til handa ekkjum og ógiftum konum, 25 ára og eldri ef þær stóðu fyrir búi eða voru á annan hátt sjálfra sín ráðandi. En þeim kosningarétti fylgdi ekki kjörgengi. Vilhelmína hefur því ekki séð ástæðu til að bíða eftir þessum réttarbótum konungs. Fyrsta konan til að neyta atkvæðisréttar síns í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík var Kristín Bjarnadóttir frá Esjubergi á Kjalarnesi, ljósmóðir og þá orðin ekkja sem starfrækt hafði veitingastofuna Hermes í Lækjargötu 4. Þetta var 3. febrúar 1888. Þegar Kristín reið á vaðið og kaus fyrst kvenna til bæjarstjórnar í Reykjavík höfðu 30-40 konur kosningarétt í bænum, án þess að nýta hann. En þetta tómlæti átti eftir að breytast í þaulskipulagða og kraftmikla hreyfingu. Hið íslenska kvenfélag stóð fyrir undirskriftasöfnun til stuðnings almennum kosningarétti kvenna árið 1885 og söfnuðust þá 2.348 undirskriftir. Önnur undirskriftasöfnun fór fram árið 1907 og skrifaði þá 11.381 kona undir áskorunarskjalið, eða tæp 40% allra kvenna í landinu, fimmtán ára og eldri.

Kosningabarátta skipulögð

Þær fáu konur sem fengið höfðu kosningarétt til sveitarstjórna 1882 fengu ekki kjörgengi fyrr en 1902 en árið 1908 fengu giftar konur loks kosningarétt og kjörgengi í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík og Hafnarfirði. Þá setti Bríet Bjarnhéðinsdóttir fram hugmyndina um framboðslista kvenna í Reykjavík. Hugmyndinni var vel tekið og framboðið vel skipulagt. Haldnir voru fyrirlestrar um réttarstöðu kvenna, nýju kosningalögin og ýmis málefni bæjar- og sveitarstjórna sem brunnu á konum. Þar buðu fram fjórar konur, skiptu bænum niður í kosningahverfi, opnuðu kosningaskrifstofu, gáfu út prentaða stefnuskrá og náðu tali af flestum þeim konum sem fengið höfðu kosningarétt. Þetta var upphafið að skipulagðri kosningabaráttu enda urðu þær ótvíræður sigurvegari kosninganna, fengu flest atkvæði þeirra 19 lista sem buðu fram og allar fjórar konurnar komust í bæjarstjórn. Þegar hér var komið sögu varð því ekki aftur snúið. Konur eignuðust málsvara á þingi og 1911 samþykkti Alþingi frumvarp sem gerði ráð fyrir jöfnum kosningarétti karla og kvenna en dönsk stjórnvöld höfnuðu því sem og öðrum breytingum á stjórnarskránni. Árið 1915 var þó samþykkt ný stjórnarskrá með ákvæði um kosningarétt og kjörgengi kvenna og vinnumanna. Langþráðu markmiðið var nú náð. Þessum áfanga í sögu kvenréttinda var fagnað hinn 7. júlí. Konur gengu fylktu liði frá Barnaskólagarðinum við Fríkirkjuveg og niður á Austurvöll og héldu þar fjölmennari samkomu en áður hafði verið stofnað til í Reykjavík. Hátíðleg mannamót voru þá þýðingarmeiri í huga alþýðufólks en síðar varð. Á Austurvelli ríkti einlæg gleði og eftirvænting. Á þessum þjóðfrelsistímum dró það svo ekki úr stemningunni, né sögufrægð samkomunnar að Austurvöllur var skrýddur hinum íslenska fána eins og við nú þekkjum hann og þá í fyrsta sinn viðurkenndum sérfána Íslands. Kristján konungur 10. hafði nefnilega einnig undirritað frumvarp hinn 19. júní um sérfána Íslands. Dagskrá þessarar miklu hátíðar á Austurvelli hófst á því að sendinefnd kvenna gekk inn í þinghúsið á fund sameinaðs þings með ávarp frá íslenskum konum en það kom í hlut Ingibjargar H. Bjarnason að lesa upp ávarpið. Forseti sameinaðs þings og ráðherra þökkuðu fyrir með stuttri ræðu og þingheimur tók undir með þreföldu húrrahrópi. Dagskránni var svo fram haldið á Austurvelli þar sem lesið var upp skeyti til Kristjáns konungs og drottningar og þær Ingibjörg H. Bjarnason og Bríet Bjarnhéðinsdóttir ávörpuðu gesti í tilefni dagsins. Þessum blíðviðris- og hátíðisdegi lauk svo með almennri samkomu í Iðnó um kvöldið.

Öflugur þingmaður

Ingibjörg H. Bjarnason sat á Alþingi 1923-1930 og var 2. varaforseti Efri deildar. Hún var öflugur þingmaður og notaði þann tíma vel sem hún sat á þingi. Hún beitti sér fyrir ýmsum mikilvægum málum, bæði á sviði skóla- og velferðarmála, og kom mikilvægum málum á dagskrá eins og byggingu Landspítalans, byggingu Sundhallarinnar, styrkjum til gamalmenna og beitti sér fyrir bættri stöðu óskilgetinna barna. Síðast en ekki síst nýtti hún hvert tækifæri til að minnast á réttindi kvenna og beitti sér fyrir víðtækri endurskoðun lagasafnsins í þeim tilgangi að hreinsa út úr lögunum þær greinar þar sem konum var mismunað.

Kvenskörungar

Á tímamótum sem þessum hvarflar hugurinn óneitanlega til ýmissa merkisbera réttindabaráttu kvenna hér á landi á síðustu öld. Að fjölmörgum öðrum ólöstuðum koma upp í hugann skörungar á borð við fyrstu konuna sem kjörin var á þing, Ingibjörg H. Bjarnason, Auður Auðuns fyrsta konan sem gegndi stöðu borgarstjóra og ráðherraherraembætti, fyrsti kvenbiskupinn, Agnes Sigurðardóttir, fyrsti kvenrektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, fyrsta konan til að gegna stöðu hæstaréttardómara, Guðrún Erlendsdóttir, og Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra til Vigdísar Finnbogadóttur, fyrstu konunnar sem kjörin var forseti lýðveldisins. En þó aðhér hafi verið drepið á nöfn öfárra kvenna sem hösluðu sér völl í hinum ýmsu æðstu embættum þjóðarinnar má aldrei missa sjónar á þeirri staðreynd að íslensk kvenréttindabarátta hefur fyrst og síðast verið fjöldabarátta þúsunda kvenna sem endurmetið hafa reynsluheim sinn og tekist, hver og ein, með sínum hætti, á við þröngsýni, fordóma, óréttlæti, ofbeldi og minnimáttarkennd. Hún hefur óneitanlega verið hugmyndabarátta inni á íslenskum heimilum, í fyrirtækjum og opinberum stofnunum og í öllum atvinnustéttum til sjávar og sveita. Á öllum þessum sviðum hafa konur rutt kynsystrum sínum leiðina, minnugar textans sem Grýlurnar sungu forðum daga: „Hvað er svona merkilegt við það...“. Við erum ekki að minnast þessara tímamóta til að telja neinum trú um það að baráttunni sé lokið. Henni lýkur nefnilega aldrei. Hið fullkomna samfélag hefur aldrei verið til og verður aldrei til. En við getum stöðugt bætt samfélög okkar og um það eiga kvenréttindabaráttan og stjórnmálin einmitt að snúast.

Höfundur er varaborgarfulltrúi.