9. október 1994 | Sunnudagsblað | 812 orð

VERALDARVAFSTUR/Eru kenningar Darwins byggðar á misskilning? Boðberi hamfara

VERALDARVAFSTUR/Eru kenningar Darwins byggðar á misskilning? Boðberi hamfara fortíðarinnar Á NÆSTA ári verða 100 ár frá fæðingu Emmanuels Velikovskys, eins umdeildasta vísindamanns á miðri þessari öld.

VERALDARVAFSTUR/Eru kenningar Darwins byggðar á misskilning? Boðberi hamfara fortíðarinnar

Á NÆSTA ári verða 100 ár frá fæðingu Emmanuels Velikovskys, eins umdeildasta vísindamanns á miðri þessari öld. Hann fæddist í Rússlandi og hlaut menntun í háskólum Moskvu, Berlínar, Vínarborgar og Edinborgar. Á árunum 1921 til 24 var hann samritstjóri Alberts Einsteins á ritverkinu: "Scripta Universitatis atque Bibliothecae Hierosolymitarum" en það ritverk varð síðar grunnurinn að Hebreska Háskólanum í Jerúsalem.

rátt fyrir merkileg störf innan háskóla er sennilegt að nafn Velikovkys hefði týnst í pappírsflóði þeirra, ef ekki hefði komið til birtingar þriggja bóka hans á árunum 1950 til 1955. Þær voru "Heimar í árekstri" (Worlds in Collision), "Aldir í óreiðu" (Ages in Chaos) og "Jörð í upplausn" (Earth in Upheaval).

Í þessum þrem bókum ræðst hann harkalega að "Jafnvægiskenningu" (Uniformity) Lyells, sem segir að ekkert hafi raskað yfirborði jarðar í milljón ár annað en hægfara niðurbrot. Á þessari kenningu er síðan þróunarkenning Darwins byggð, því að hún þarf milljónir ára til þess að skeldýr til dæmis breytist í manneskju!

Velikovsky styður sig við þrjú fræðisvið í mótkenningu sinni, sem segir að á tiltölulega skammliðnu tímabili jarðarsögunnar hafi átt sér stað miklar hamfarir með skömmu millibili vegna áhrifa utan úr geimnum. Þetta eru sagnfræði og trúarbækur, nýlegar uppgötvanir í steingervingafræði og nýjar uppgötvanir í stjörnufræði.

Þannig telur Velikovsky að margar mítur mismunandi trúarbragða um eyðileggingu, flóð og annað slíkt séu lýsingar á raunverulegum atburðum enda ber þessum lýsingum í meginatriðum saman. Sem dæmi má nefna að frásagnir um að sólin hafi staðið kyrr eða færst afturábak, sé vegna þess að um leið hafi yfirborð jarðar snúist um möttulinn vegna utanaðkomandi áhrifa. Þrátt fyrir miklar upplýsingar um flakk segulpólanna, um jurtaleifar t.d. pálmatrjáa á Spitzbergen eða á Suðurheimskautslandinu, og halastjarna og dvergplánetubrota innan sólkerfis okkar, hafa menn forðast að hrófla nokkuð við þægilegri þróunarkenningu Darwins: Baráttan um hana snérist eingöngu um valdaátök vísinda og kirkju á sínum tíma. Þann sigur vilja vísindin ekki gefa frá sér á ný fyrir nokkurn mun.

Velikovsky tekur einnig á stjörnufræðinni máli sínu til stuðnings. En þar sem þau vísindi eru meira eða minna byggð á sjónarhóli músarinnar sem gægist úr fylgsni sínu á hina stóru veröld, verður honum sem fleirum hér nokkur fótaskortur í stórbrotnum lýsingum sínum á hugsanlegri atburðarás, sem leiddu til hamfara á jörðinni. Þetta atriði hafa vísindamenn einkum talið honum til foráttu og gjarnan viljað afgreiða þar með allt hans mál, sem helbera vitleysu. Þetta eru vitaskuld óvísindaleg vinnubrögð. Carl Sagan stjörnufræðingur, sem er meðlimur í hópnum CSICP, sem vinnur að því að "afhjúpa" allt sem ekki fellur innan ramma vísindanna, skrifaði m.a. sérstaka bók til þess að fella stjörnufræðihugmyndir Velikovsky í bókinni Broca's Brain.

Þá er eftir að telja rök Velikovskys úr steingervingafræðinni. Hér er um mjög auðugan garð að gresja: Fyrir aðra heimsstyrjöldina var leitað að gulli með stórvirkum vinnuvélum í Norður-Alaska. Grafnir voru langir skurðir allt að 40 metra djúpir í þessu skyni. Yfirborðslagið á þessum slóðum er nefnt "muck" en það er samansett af ótrúlegum fjölda frosinna beina af dýrum eins og mammút, risafíl, risanauti og hestum. Saman við beinin eru sundurbrotin risatré. Þessi dýr létust fyrir tiltölulega skömmum tíma á jarðfræðilegum mælikvarða. Beinin eru öll sundurbrotin eins og undan mjög miklum þrýsting og sama gildir um trjábolina saman við þau. Magnið af þessum leifum er þvílíkt að hamfarir koma fyrst upp í hugann. Inn á milli hafa svo fundist steinverkfæri, sem sýna að menn voru samtíða þessum hörmungum.

Eyjurnar Stolbovoi og Belkov í Norður-Síberíu fundust 1805 og 1806: Jarðvegur þessara eyja er algjörlega pakkaður af beinum fíla og nashyrninga auk mammúta og trjábolum. Sandsteinn og tjara fyllir í eyðurnar. Hæð eyjanna er um 100 metrar og ekkert nema stórbrotnar náttúruhamfarir hafa getað myndað þessi fyrirbæri.

Beinaleifar mammúta, fíla, nashyrninga, vísunda og flóðhesta hafa fundist í einum haug víða á Bretlandi. Þær eru ekki eldri en sex þúsund ára gamlar og benda einnig til mikilla hamfara. Þvert á þær viðteknu skoðanir að geysimiklar jöklar hafi þakið alla Norður-Evrópu á nokkrum ísaldaskeiðum, en sannanir þess séu þau risabjörg, sem liggja langt frá uppruna sínum víða um lönd, vill Velikovsky meina að ófrosið vatn hafi flutt þau um set á augabragði. Hann bendir máli sínu til stuðnings á sams konar flutninga frá Sahara eyðumerkursvæðinu í allar áttir. En einnig á rannsóknir heimskautafara t.d. Vilhjálms Stefánssonar, sem leiddu í ljós að öll fjöll á Norður-Grænlandi og víðar á heimskautasvæðunum voru aldrei þakin jöklum.

Viðbrögðin við bókum Velikovskys voru eins og sprengju væri varpað. Vísindastofnanir hótuðu útgefendum hans öllu illu ef þeir gæfu bækur hans út. Og enn í dag eru kenningar Velikovskys feimnismál sem aldrei hefur fengið vísindalega afgreiðslu. Ætli við höfum byggt sögulega tilvist okkar á misskilningi, sem gerir okkur varnarlaus gagnvart næstu bylgju hamfara?

MYND frá 24. desember árið 1680 en þá sást halastjarna frá jörðu. Við sluppum í enn eitt skiptið.

Einar

Þorsteins

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.