— Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Jónas Ragnarsson jr@jr.is Þegar fjórir mánuðir eru til forsetakosninganna 25. júní 2016 er fróðlegt að rifja upp hvenær framboð voru tilkynnt í þau fjögur skipti sem þjóðin kaus sér nýjan forseta. Sveinn Björnsson forseti Íslands lést 25.

Baksvið

Jónas Ragnarsson

jr@jr.is

Þegar fjórir mánuðir eru til forsetakosninganna 25. júní 2016 er fróðlegt að rifja upp hvenær framboð voru tilkynnt í þau fjögur skipti sem þjóðin kaus sér nýjan forseta.

Sveinn Björnsson forseti Íslands lést 25. janúar 1952, 70 ára að aldri. Hann hafði verið kjörinn af Alþingi 1944 og var sjálfkjörinn fjórum árum síðar.

Skömmu eftir útför Sveins nefndu blöðin hugsanlega frambjóðendur svo sem Ásgeir Ásgeirsson alþingismann og bankastjóra, Gísla Sveinsson fv. alþingismann, Halldór Kiljan Laxness rithöfund, Sigurð Nordal prófessor og Thor Thors sendiherra. Farið var að undirbúa framboð Gísla í mars og um miðjan mánuðinn var Ásgeir Ásgeirsson talinn líklegastur sem frambjóðandi svonefndra lýðræðisflokka.

Þrjú framboð sama kvöldið

Það dró til tíðinda föstudaginn 9. maí, tveimur vikum áður en framboðsfrestur rann út. Þá voru fluttar fréttir af framboði Gísla Sveinssonar í kvöldfréttum Útvarpsins. Í síðari fréttatímanum þetta sama kvöld var tilkynnt um framboð Ásgeirs Ásgeirssonar, sem miðstjórn Alþýðuflokksins studdi, og sagt frá yfirlýsingu frá stjórnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að séra Bjarni Jónsson hefði orðið við tilmælum flokkanna um að gefa kost á sér til framboðs. Framboð Bjarna kom mjög á óvart, enda hafði nafn hans ekki verið nefnt í þessu samhengi fyrr en örfáum dögum áður.

Kosningabaráttan var sögð hörð og óvægin. Stuðningsmennirnir efndu til funda víða um land en ekki þótti viðeigandi að frambjóðendur kæmu sjálfir fram á slíkum samkomum. Þremur dögum fyrir kosningarnar fluttu frambjóðendurnir þrír ávörp í Útvarpið og var sagt að götur þéttbýlisstaða hefðu tæmst.

Íslenska þjóðin kaus sér forseta í fyrsta sinn sunnudaginn 29. júní 1952. Úrslitin lágu fyrir kl. 20:40 á þriðjudagskvöld. Ásgeir sigraði og hlaut 48,3% gildra atkvæða, Bjarni 45,5% og Gísli 6,2%. Aðeins munaði 1.879 atkvæðum á Ásgeiri og Bjarna.

Þegar úrslitin voru orðin kunn safnaðist fjöldi fólks saman við hús Ásgeirs og konu hans, Dóru Þórhallsdóttur, og heimili þeirra fylltist af blómum. Sérstaka athygli vakti stór blómakarfa sem gefandinn sagðist hafa fengið á góðu verði vegna þess að hún hafði verið gerð samkvæmt pöntun ríkisstjórnarinnar – til að senda Bjarna eftir sigur hans.

Sjónvarpsávörp í fyrsta sinn

Í áramótaávarpi sínu á nýjársdag 1968 tilkynnti Ásgeir Ásgeirsson að hann yrði ekki í kjöri við forsetakosningarnar í júní. Hann var þá orðinn 73 ára. „Ekki skaltu freista drottins Guðs þín og þá ekki heldur þjóðar þinnar með þrásetu,“ sagði forsetinn, sem hafði setið í sextán ár.

Í skoðanakönnun Vísis í janúar reyndist Gunnar Thoroddsen vera með mestan stuðning íbúa á höfuðborgarsvæðinu í embættið, 72% þeirra sem gáfu ákveðin svör vildu fá hann sem forseta, Agnar Klemens Jónsson ráðuneytisstjóri fékk 9%, Hannibal Valdimarsson alþingismaður 5% og aðrir færri atkvæði, en þeirra á meðal var Kristján Eldjárn.

„Nefnd þjóðkunnra manna úr öllum stjórnmálaflokkum“ skoraði síðar á Kristján Eldjárn þjóðminjavörð að gefa kost á sér. Kristján staðfesti við Blaðið, verkfallsútgáfu Vísis, að kvöldi sunnudagsins 17. mars að hann hefði orðið við áskoruninni.

Gunnar Thoroddsen sendiherra sendi frá sér yfirlýsingu 22. mars þar sem fram kom að hann hefði fengið skriflega áskorun frá á þriðja þúsund kjósendum og að hann hefði ákveðið að verða í framboði.

Óformleg könnun í maí benti til þess að Kristján hefði meira fylgi en Gunnar. Stuðningsmenn beggja frambjóðenda gáfu út kosningablöð og Gunnarsmenn efndu til kosningafundar í Laugardalshöll, þess fyrsta sem þar var haldinn. Tveimur dögum fyrir kosningar fluttu forsetaframbjóðendur ávörp í fyrsta sinn í Sjónvarpinu, en það hafði tekið til starfa tæpum tveimur árum áður.

Kristján sigraði í kosningunum 30. júní 1968 með yfirburðum, fékk 65,6% atkvæða en Gunnar 34,4%. Kristján sagði í blaðaviðtali að þessi mikli meirihluti hefði komið sér á óvart. Gunnar sagði í útvarpsávarpi að hann óskaði Kristjáni og konu hans, Halldóru Eldjárn, til hamingju með sigurinn, þakkaði stuðningsmönnum sínum og sagði svo: Guð blessi Ísland.

Kristján Eldjárn notaði áramótaávarp sitt, 1. janúar 1980, eins og Ásgeir tólf árum áður, til að tilkynna að hann hefði fyrir allöngu gert það upp við sig að bjóða sig ekki oftar fram til að gegna embætti forseta Íslands, en hann var þá 63 ára. „Og enginn hefur gott af því að komast á það stig að fara að ímynda sér að hann sé ómissandi.“

Albert Guðmundsson alþingismaður sagði í samtali við Dagblaðið 1. ágúst 1979 að hann teldi „allar líkur“ á að hann færi í forsetaframboð ef Kristján gæfi ekki kost á sér. Síðar kom í ljós að Kristján hafði um þetta leyti sagt æðstu ráðamönnum, í trúnaði, að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram. Í kjölfar yfirlýsingar Alberts voru nefnd nöfn Gylfa Þ. Gíslasonar prófessors, Ármanns Snævars hæstaréttardómara og Guðlaugs Þorvaldssonar ríkissáttasemjara. Mikið var rætt um framboð Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra sem sagði það vera freistandi.

Eftir yfirlýsingu Kristjáns um áramótin áréttaði Albert að ákvörðun sín stæði óhögguð. Í byrjun janúar fréttist að Hjalti Þórarinsson læknir hefði verið að íhuga framboð.

Pétur Thorsteinsson sendiherra var fyrstur til að tilkynna framboð á kosningaárinu. Það gerði hann 12. janúar en í byrjun mánaðarins hafði hann „ekkert hugleitt það“.

Guðlaugur Þorvaldsson sáttasemjari og fyrrverandi háskólarektor tilkynnti 14. janúar að hann hefði ákveðið að gefa kost á sér við forsetakjör „ef nægur stuðningur fæst“.

Hvatning frá sjómönnum

Nafn Vigdísar Finnbogadóttur leikhússtjóra mun fyrst hafa verið nefnt opinberlega í þessu samhengi í lesendabréfi frá Laufeyju Jakobsdóttur í Dagblaðinu 15. janúar. Undir lok mánaðarins tók hún þessu víðsfjarri, samkvæmt blaðafréttum, en föstudaginn 1. febrúar tilkynnti hún um framboð eftir hvatningu frá mörgum, meðal annars áhöfn togarans Guðbjarts. Útvarpið sagði að ákvörðunin hefði verið tekin daginn áður.

Dagblöðin birtu margar vinnustaðakannanir um fylgi frambjóðenda en eftir miðjan maí gáfu símakannanir til kynna að Guðlaugur eða Vigdís væru til skiptis með mest fylgi. Hálfri viku fyrir kosningar var Vigdís með heldur meira fylgi, þó munurinn væri ekki marktækur.

Vigdís var kosin forseti Íslands í kosningunum 29. júní 1980, hlaut 33,8% atkvæða, og Guðlaugur varð í öðru sæti með 32,3%. Munurinn var 1.911 atkvæði. Albert var í þriðja sæti með 19,8% og Pétur fékk 14,1%. Í samtali við Vísi sagði Vigdís að henni fyndist það vera „einstök framsýni hjá okkur Íslendingum að verða fyrstir til að kjósa konu til forseta“.

1996: Fimm í framboði

Við setningu Alþingis í byrjun október 1995 tilkynnti Vigdís Finnbogadóttir, sem þá var 65 ára, að hún hygðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs í embætti forseta Íslands árið eftir. „Það er talsvert eftir af sumrinu í mér,“ sagði Vigdís á blaðamannafundi. Í skoðanakönnunum frá því í október og fram í janúar var Pálmi Matthíasson prestur með mest fylgi en í næstu sætum voru Guðrún Agnarsdóttir læknir, Davíð Oddsson forsætisráðherra og Ólafur Ragnar Grímsson alþingismaður.

Fyrst til að tilkynna forsetaframboð var Guðrún Pétursdóttir háskólakennari. Það gerði hún 3. febrúar og sagði að hugmyndin hefði verið að þróast síðan haustið áður.

Guðrún Agnarsdóttir tilkynnti um framboð 23. mars „eftir mjög vandlega íhugun“ og sagðist trúa því að hægt væri að skapa fyrirmyndarþjóðfélag á Íslandi.

Að laða saman ólík öfl

Ólafur Ragnar Grímsson boðaði til blaðamannafundar á heimili sínu fimmtudaginn 28. mars og tilkynnti að hann gæfi kost á sér til að gegna embætti forseta Íslands. Þar ræddi hann um að laða saman ólík öfl í þjóðfélaginu og „að reyna að tryggja það að sess Íslendinga í síbreytilegum heimi verði í senn áhrifaríkur og efnisríkur“.

Pétur Kr. Hafstein hæstaréttardómari tilkynnti 16. apríl að hann byði sig fram og sagði að meginskylda forseta Íslands væri annars vegar að rækja hlutverk sitt í stjórnskipuninni og hins vegar að „tala í þjóð sína kjark og kraft“.

Snemma í apríl tilkynnti Davíð Oddsson að hann gæfi ekki kost á sér í embætti forseta Íslands, um miðjan mánuðinn sagðist Páll Skúlason háskólarektor ekki sækjast eftir embættinu og í lok mánaðarins sagði Pálmi Matthíasson að framboð væri ólíklegt. Um svipað leyti útilokaði Ólafur Ragnarsson bókaútgefandi framboð en nafn hans hafði verið í umræðunni svo og nöfn margra annarra. Helgarpósturinn fullyrti í byrjun maí að framboð Jóns Baldvins Hannibalssonar væri „talið nær öruggt“.

Ástþór Magnússon tilkynnti um framboð sitt 24. maí, daginn sem framboðsfrestur rann út, og var yfirlýstur tilgangur hans að kynna stefnu Friðar 2000.

Tvær kannanir sem voru birtar daginn fyrir kjördag sýndu báðar að Ólafur Ragnar myndi sigra með nokkrum yfirburðum.

Þegar atkvæði höfðu verið talin í kosningunum 29. júní 1996 kom í ljós að Ólafur Ragnar hafði sigrað með 41,4% atkvæða, Pétur fékk 29,5%, Guðrún 26,4% og Ástþór 2,7%. Þúsundir manna söfnuðust saman við heimili Ólafs Ragnars og konu hans, Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, á Seltjarnarnesi.

Frá febrúar og fram í maí

Í kosningunum 1952, 1968 og 1980 sigraði yngsti frambjóðandinn en sá næstelsti árið 1996. Kristján var fyrstur til að tilkynna framboð 1968, Vigdís síðust 1980 en Ólafur Ragnar þriðji af fimm árið 1996. Þeir sem sigruðu í þessum fernum forsetakosningum sem hér hefur verið fjallað um buðu sig fram frá 1. febrúar til 9. maí.

Í forsetakosningunum 1952 var meðalaldur frambjóðenda rúm 66 ár en rúm 48 ár í kosningunum 1996.