Í vetrarblíðu Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi í góublíðunni með með Strandafjöllin í bakgrunni.
Í vetrarblíðu Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi í góublíðunni með með Strandafjöllin í bakgrunni. — Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Jón Sigurðsson Blönduósi Snjó- og auðnutittlingar hafa nánast ekkert sést á Blönduósi í vetur. Það er mat manna að fjarvera snjótittlinganna stafi fyrst og fremst af breyttum búskaparháttum og er þá átt við kornræktina.

Úr bæjarlífinu

Jón Sigurðsson

Blönduósi

Snjó- og auðnutittlingar hafa nánast ekkert sést á Blönduósi í vetur. Það er mat manna að fjarvera snjótittlinganna stafi fyrst og fremst af breyttum búskaparháttum og er þá átt við kornræktina. Hvað auðnutittlingana varðar þá virðist sem hrun hafi orðið í stofninum sem engar skýringar eru á. Ólíklegt er að þeir 19 kettir sem skráðir eru á Blönduósi afreki það að halda stofninum niðri og því síður 51 hundur sem skráður er. En það er ekki bara auðnutittlingunum sem fækkar því íbúum hefur fækkað um 46 á 10 árum og er fækkunin einna mest á síðasta ári en þá fækkar íbúum um 20 frá árinu á undan.

Oft hefur verið rætt um að þjóðvegurinn í gegn um Blönduós þarfnist lagfæringar. Fram hefur komið að undirbúningur Vegagerðarinnar að lagfæringum á Blöndubrú er langt kominn en í þeim áfanga verður bríkin að sunnanverðu fjarlægð og sett nýtt handrið á brúna. Þá verður gólf brúarinnar endurnýjað. Áætlaður kostnaður við þessa framkvæmd er um 30 milljónir. Samhliða þessu þarf að breikka veginn báðum megin við brúna og er kostnaður áætlaður 10-15 milljónir.

En fleira af vettvangi sveitarstjórnarmála. Geta má þess að sveitarstjórn hefur ákveðið að sækja um styrk úr húsfriðunarsjóði til að undirbúa umsókn um að „Gamli bærinn á Blönduósi“ verði verndarsvæði í byggð. Og ekki nóg með það. Byggðaráð Blönduóss ætlar að styrkja Félag íslenskra kraftamanna um 140.000 kr til að keppa í 1 – 2 keppnisgreinum í ágúst í sumar og koma bænum á sjónvarpskortið.

Það eru ekki allir sem vita það að Blönduós er gæsabær. Arnór Þ Sigfússon fuglafræðingur er að fjármagna um þessar mundir merkingar á grá- og heiðargæsum. Um er að ræða m.a. merkingar með gsm-sendi sem sendir daglega upplýsingar um staðsetningu gæsanna með gps-merki. Arnór hefur reifað að hann sé tilbúinn að merkja hér gæs nái hann að safna sem nemur 1.700 evrum en það er kostnaðurinn við tækið. Arnór hefur mikinn áhuga á að merkja gæsir á Blönduósi því hér voru merktar gæsir árið 2000 sem skiluðu sem sér ótrúlega lengi aftur í heimahagana eftir merkingu. Til gamans má geta þess að síðastliðið ár var enn að skila sér gæs sem var merkt sem ungi árið 2000 og ber einkennisstafina AVP. Nú er bara að spýta í lófana og safna saman 1.700 evrum svo við eignumst á ný merkta gæs sem hægt er að fylgjast með daglega og fara þess á leit við skyttur héraðsins að skjóta ekki vel merkta fugla.