Sunna Ósk Logadóttir
Sunna Ósk Logadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tilkynntar hafa verið tilnefningar til blaðamannaverðlauna vegna skrifa á árinu 2015. Úrslitin verð tilkynnt eftir viku. Sunna Ósk Logadóttir, fréttastjóri mbl.

Tilkynntar hafa verið tilnefningar til blaðamannaverðlauna vegna skrifa á árinu 2015. Úrslitin verð tilkynnt eftir viku.

Sunna Ósk Logadóttir, fréttastjóri mbl.is, er tilnefnd til Blaðamannaverðlauna ársins 2015 fyrir „áhrifamikla umfjöllun um heimsókn sína til Líbanon þar sem hún ræddi við sýrlenska flóttamenn og starfsmenn flóttamannabúða til að kynna sér aðstæður þeirra flóttamanna sem veitt hafði verið hæli á Íslandi,“ eins og segir í tilkynningu.

Auk Sunnu Óskar er Hörður Ægisson á DV tilnefndur til Blaðamannaverðlauna ársins 2015 fyrir umfjöllun um slitabú föllnu bankanna og Ingibjörg Kjartansdóttir á Stundinni fyrir umfjöllun um kynbundið ofbeldi.

Helgi Bjarnason, blaðamaður Morgunblaðsins, er tilnefndur til verðlauna í flokknum Viðtal ársins 2015. Helgi er tilnefndur fyrir viðtal sitt við Þröst Leó Gunnarsson um sjóslysið þegar Jón Hákon BA fórst úti af Aðalvík í fyrrasumar.

Reynir Traustason á Stundinni er tilnefndur til sömu verðlauna fyrir viðtal við Ástu K. Andrésdóttur hjúkrunarfræðing og sömuleiðis er tilnefnd Snærós Sindradóttir á Fréttablaðinu fyrir viðtal við Einar Zeppelin Hildarson.

Einnig eru tilnefningar til verðlauna fyrir Umfjöllun ársins 2015. Í þeim flokki fá tilnefningar þeir Gísli Einarsson, Ingólfur Bjarni Sigfússon, Karl Sigtryggsson og Ragnar Santos á fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir umfjöllun um flóttamannavandann í Evrópu.

Helgi Seljan og Kastljós eru tilnefnd fyrir umfjöllun um nauðganir, áreitni og ofbeldi gagnvart þroskahömluðum konum. Þær Kristjana Björg Guðbrandsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir á Fréttablaðinu eru tilnefndar fyrir umfjöllun sína um mansal. gudni@mbl.is