Á skjánum Afi heldur áfram að gleðja unga og aldna.
Á skjánum Afi heldur áfram að gleðja unga og aldna. — Ljósmynd/Af Facebook síðu Afa
Ég velti því stundum fyrir mér hvort það séu margir sem treysti á sjónvarpsdagskrána sem birtist í blöðum í dag? Sjónvarpsdagskráin er allavega með því fyrsta sem blasir við mér við blaðaflettingar, enda byrja ég aftast eins og venjulegt fólk.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort það séu margir sem treysti á sjónvarpsdagskrána sem birtist í blöðum í dag? Sjónvarpsdagskráin er allavega með því fyrsta sem blasir við mér við blaðaflettingar, enda byrja ég aftast eins og venjulegt fólk. Ástæðan er líklega sú að þegar ég byrjaði að lesa blöð sem barn var allt djúsí efnið að finna aftast. Fólk í fréttum, bíó og auðvitað sjónvarpsdagskrána. Sjálfa dagskrána las ég reyndar sjaldan, heldur óð ég beint í viðhorf blaðamannsins við því sem ljósvakinn bauð upp á og hugsaði oftar en ekki með mér: Bara ef ég gæti einhvern tímann deilt því með lesendum hvað mér finnst um Afa á Stöð 2. Það hefði að sjálfsögðu ekki verið nöldurpistill, enda elskaði ég Afa og laugardagurinn byrjaði ekki almennilega fyrr en „Hopp og hí, trallalí, upp á nefið nú ég sný“ hafði hljómað um alla íbúð. Lífið flæktist reyndar heldur mikið þegar ég uppgötvaði að Afi og Davíð Oddsson voru sami maðurinn, ég átti erfitt með að láta það ganga upp. En nú er Afi kominn aftur á skjáinn og því ber að fagna, þó svo að ég spretti kannski ekki jafnhratt á fætur klukkan 9 á laugardagsmorgnum og áður.

Erla María Markúsdóttir