Guðrún Margrét Árnadóttir fæddist á Bjargi við Bakkafjörð 17. ágúst 1921. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Nausti 16. febrúar 2016.

Foreldrar hennar voru hjónin Árni Friðriksson útvegsbóndi, f. 1. júlí 1890, d. 21. janúar 1975, og Petrína Pétursdóttir húsmóðir frá Bergholti á Bakkafirði, f. 1.desember 1883, d. 11. apríl 1966. Systkini Guðrúnar voru Eyþór Bergmann, f. 1.12. 1915, d. 5.5. 1990, Friðmar Bachmann, f. 17.6. 1918, d. 30.7. 1998, Sigurður, f. 26.12. 1919, d. 25.4. 1979, og Pétur Bergmann, f. 8.5. 1924, d. 19.2. 2013.

Guðrún giftist Njáli Halldórssyni sjómanni á Bakkafirði 31. desember 1959. Njáll var fæddur 2. október 1915, dáinn 11. júní 2007. Foreldrar Njáls voru Halldór Runólfsson kaupmaður í Höfn á Bakkafirði, f. 1. október 1870, d. 27. ágúst 1920, og kona hans Sólveig Kristjana Björnsdóttir, f. 18. júní 1883, d. 14. nóvember 1964.

Börn Guðrúnar og Njáls eru: 1) Reynir, f. 15.4. 1947, fisktæknir, giftur Sigþrúði Rögnvaldsdóttur verkstjóra, búsett á Höfn í Hornafirði. Börn þeirra eru: a) Njáll Fannar, giftur Þóru Þorgeirsdóttur. Börn þeirra: Fanney Rós, Iðunn Embla og Eva María. b) Rögnvaldur Ómar, í sambúð með Elisabeth Kruger. Börn þeirra eru: Franz Reynir, Phillip Máni og Frída Lind. c) Ágúst Ragnar, í sambúð með Aðalheiði Dagmar Einarsdóttur. Börn þeirra eru: Hilmar Freyr og Heiðdís Freyja. Fyrir átti Aðalheiður Erlend Rafnkel og Tinnu Rut. 2) Stúlka, f. 9.5. 1950, d. 1950. 3) Halldór, f. 29.3. 1953, sjómaður, búsettur á Bakkafirði. Börn hans og Brynhildar Óladóttur eru: a) Guðrún Margrét. b) Njáll. c) Himri. d) Þórey Lára. 4) Hilma Hrönn, f. 1.5. 1958, í sambúð með Áka Hermanni Guðmundssyni útgerðarmanni, búsett á Bakkafirði. Börn þeirra eru: a) Sólveig Helga, gift Andra Árnasyni. Börn þeirra eru: Áki Hlynur, Hekla Hrund og Hilma Hafrún. b) Guðmundur Hlífar. c) Flosi Hrannar. 5) Árni Bragi, f. 31.1. 1967, sjómaður, í sambúð með Ana Rabevska, búsett á Bakkafirði.

Guðrún ólst upp í Bergholti á Bakkafirði.Guðrún gekk í farskóla sem tíðkaðist þá. Veturinn 1943-1944 var Guðrún á Húsmæðraskólanum á Hallormsstað. Í Reykjavík lærði hún kjólasaum hjá Henny Ottoson og var þá kennt líka að sauma í pallíettur og perlur. Guðrún og Njáll hófu búskap árið 1946 og voru fyrstu árin í Kaupmannshúsinu á Bakkafirði, en flytja 1957 í Vík, sem þá var nýbyggt. Þau hjónin bjuggu allan sinn búskap á Bakkafirði. Guðrún vann að mestu heima við og einnig í fiskvinnslu þeirra hjóna.

Útför Guðrúnar Margrétar fer fram frá Skeggjastaðakirkju í dag, 27. febrúar 2016, klukkan 14.

Svo ástrík var hún mamma mín

Og merk er hennar saga

Því yndi kærleiks ennþá skín

Á alla mína daga.

Hlý og blíð hún hjá mér stóð,

minn helsti leiðarvísir,

af mildi sinni gaf hún glóð

sem gæfuspor mín lýsir.

Er æskuslóð um gróna grund

Gekk ég fyrir skömmu

Þá sá loga ljúfa stund

Ljósið hennar mömmu.

(Höf. Kristján Hreinsson)

Takk fyrir allt, elsku mamma.

Reynir, Halldór, Hilma

og Árni Bragi.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Minning þín lifir, elsku amma.

Þín,

Áki Hlynur, Hekla Hrund

og Hilma Hafrún.

Þannig týnist tíminn var sagt í einu af uppáhaldslögunum okkar ömmu. Með sanni er hægt að segja það núna þegar komið er að kveðjustund. Þar segir einnig: „Þar er ég, þar ert þú, þar er allt sem ástin okkur gaf.“ Þetta er góð lýsing á okkur, við vorum góðar vinkonur og það var mjög kært á milli okkar alla tíð. Þú varst amma sem hafði mikið að gefa og varst okkur krökkunum einstaklega góð. Þú hlúðir að okkur öllum með mikilli ást og vináttu. Þú áttir sérstakan stað í hjörtum okkar. Í Vík óluð þið afi upp börnin ykkar, hlúðuð að okkur barnabörnunum og langömmubörnunum. Það er erfitt að lýsa því en Vík var fullkominn staður. Fjölskyldan kom yfirleitt saman við eldhúsborðið og átti yndislegar stundir þar. Þú varst fljót að setja kleinur á borðið og hella kaffi í bolla. Þið afi voruð miklir máttarstólpar í fjölskyldunni. Það voru alltaf margir gestir hjá ykkur og tókuð þið gestum fagnandi og voruð einstaklega gestrisin.

Minningarnar eru margar og góðar. Þegar ég loka augunum finnst mér ég vera stödd í Vík, ég heyri glamrið í prjónunum þínum og malið í kettinum. Ég hafði sofið á dýnu inni á gólfi hjá ykkur afa eins og svo oft áður. Amma kallar á mig og segir: „Ég ætla að sýna þér svolítið.“ Hún sækir smjörið, setur smáslettu á stórutána á mér og ýtir við kettinum. Hann sleikir smjörið og úr verða mikil hlátrasköll. Amma hlær og telur að nú séum við tilbúnar í önnur verk. Ömmu féll aldrei verk út hendi, henni var það eðlislægt að halda vel áfram. Hún var vandvirk og metnaðargjörn, sumt sem hún gerði var hreinlega fullkomið. Minnist ég þess þegar ég var að læra að sauma, gat ég þá alltaf komið heim og fengið aðstoð hjá henni. Amma var mikil húsfreyja og var rómuð fyrir góðar pönnukökur. Hún var 93 ára þegar hún stóð enn við og steikti. Fiskibollurnar hennar voru líka algjört lostæti. Amma prjónaði alla tíð og sá til þess að karlarnir ættu alltaf nýja sokka á sjóinn. Hún gerði sokka og vettlinga á barnabörnin og barnabarnabörnin. Hún var ekki hrifin af því að sjá kalda fingur eða tær á krökkum og við erum enn að taka vettlinga og sokka úr skúffunni hennar.

Amma Gunna var frábær kona, hún var geðgóð en kunni þó alveg að hafa orð á hlutunum. Hún var skemmtileg og maður naut hverrar mínútu með henni. Amma var hjá okkur Andra í Reykjavík, það var skemmtilegur tími og mikilvægur fyrir krakkana mína. Elsku amma, þið Áki Hlynur voruð dugleg að spila saman og áttuð þið góðar stundir. Þið Hekla Hrund lékuð ykkur að dúkkum og spiluðuð. Svo kom litla Hilma Hafrún sem þú hittir í sumar, þrátt fyrir að vera orðin veik þá tókstu hana í fangið og söngst fyrir hana. Þú hafðir engu gleymt þegar börn voru annars vegar.

Ég kveð þig, elsku amma, með gríðarlegu þakklæti fyrir allan þann góða tíma sem við fengum saman. Minningin um þig kemur til með að lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Ég læt fylgja með vísu eftir Halldór afa:

Sofðu vært hinn síðasta blund.

Sæt er lausn frá heimsins þrautum.

Guðs á helgum himnabrautum.

Ástvinir fá endurfund.

Þín,

Sólveig Helga Ákadóttir. mbl.is/minningar

Elsku Gunna frænka er farin. Mig setti hljóðan og ég fór að hugsa um allan þann tíma sem ég hef setið í eldhúsinu hjá frænku, rætt um menn og málefni ásamt því að gæða mér á pönnukökum, lummum eða öðru góðgæti. Ég var ekki hár í loftinu þegar ég átti það til að gá hvort Gunna ætti ekki pönsur, gat alltaf sagt að ég væri að leita að Árna Braga, enda lékum við okkur mikið saman. Enda gætti frænka þess að eiga alltaf eitthvað til. Eftir að ég flutti í burtu og ferðum fækkaði austur á Bakkafjörð, þá var það alltaf fastur punktur að koma við hjá Gunnu. Það kom þó fyrir að ég kom ekki við og þá var ég ævinlega minntur á það næst, hvers vegna ég hefði nú ekki litið við síðast. Hún vildi fylgjast með hvernig gengi og uppvexti barnanna. Hún átti í manni hvert bein og börnunum líka. Hún fylgdist líka vel með og gat frætt mann um hvað væri að frétta. Þótt fyrsta svar væri gjarnan „ég veit ekkert um það“ þá kom það nú fram á endanum. Elsku Reynir, Halldór, Hilma, Árni Bragi og fjölskyldur, ykkur sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Ómar.