Einar Hrafn Aronsson fæddist 4. febrúar árið 1976 í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal. Hann lést á heimili sínu í Kópavogi 17. febrúar 2016.

Móðir hans er Halldís Hallsdóttir, fædd 13. febrúar 1945. Faðir hans er Aron Magnússon, fæddur 18. júlí 1951. Hálfsystur Einars eru tvíburasysturnar María og Fjóla, fæddar 26. október árið 1977, og hálfbróðir hans er Ólafur, fæddur 9. apríl 1990.

Einar Hrafn ólst upp í Hallkelsstaðahlíð til ellefu ára aldurs ásamt móður sinni og móðurfólki. Móðir hans giftist síðar Jóel H. Jónassyni á Bíldhóli í Dalabyggð Skógarströnd. Einar eignaðist við það stóran hóp fóstursystkina; Evu Maríu, Láru, Jón Geir, Reyni og Björk.

Einar stundaði nám í Laugagerðisskóla, var um tíma í Stykkishólmi en fluttist svo til Reykjavíkur. Hann stundaði ýmsa vinnu, bæði í Hallkelsstaðahlíð og á Bíldhóli og á Grundarfirði.

Jarðarför Einars Hrafns fer fram á Kolbeinsstöðum í dag, 27. febrúar 2016, klukkan 14.

Kæri vinur og bekkjarbróðir.

Nú er komið að kveðjustund allt of fljótt. Við þökkum þér fyrir að hafa verið vinur okkar, þú varst sá sem alltaf var hægt að leita til. Þú varst traustur vinur og mikið gátum við hlegið saman og haft gaman. Alltaf var fjör í kringum þig alla okkar grunnskólagöngu. Þú varst vanur að finna spaugilegu hliðar allra mála og fórst oft þínar eigin leiðir, hvort sem kennararnir voru sammála eður ei. Eftir að grunnskólanum lauk og við útskrifuðumst með rós í hnappagatinu árið 1992 lágu leiðir okkar allra hver í sína áttina. Þú fetaðir ótroðnar slóðir sem leiddu þig inn á þá þrautagöngu sem þú barðist við allt þitt líf. Nú er þeirri göngu lokið og svefninn langi tekur við.

Minning þín lifir í hjörtum okkar. Minning um góðan og kátan dreng sem fékk okkur til að brosa.

„Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Aðstandendum öllum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þínir vinir og bekkjarfélagar úr Laugargerðisskóla frá 1982-1992,

Ásgrímur Karl, Björn Ingi, Halldór Örn, Halldóra, Helga Hrund, Hrólfur Már, Kristín Lilja, Lára, Sigríður, Tómas Freyr.