Í tölvubréfi andmælir Jóhann Páll Árnason heimspekingur mér svofelldum orðum: „Svo segir þú að ekki eitt einasta dæmi sé um það að Sósíalistaflokkurinn hafi gagnrýnt orð eða gerðir Sovétríkjanna. Þetta er auðvitað skrifað gegn betri vitund.

Í tölvubréfi andmælir Jóhann Páll Árnason heimspekingur mér svofelldum orðum: „Svo segir þú að ekki eitt einasta dæmi sé um það að Sósíalistaflokkurinn hafi gagnrýnt orð eða gerðir Sovétríkjanna. Þetta er auðvitað skrifað gegn betri vitund. Innrásin í Ungverjaland 1956 var fordæmd í leiðara Þjóðviljans, sem þá var flokksmálgagn Sósíalistaflokksins. Þess utan fordæmdi Alþýðubandalagið innrásina, og sem hluti af Alþýðubandalaginu verður Sósíalistaflokkurinn að teljast aðili að þeirri fordæmingu.“

Þjóðviljinn skrifaði í leiðara 6. nóvember 1956, að Rauði herinn hefði tekið „öll ráð í Ungverjalandi í sínar hendur“. Síðan sagði blaðið: „Þetta eru aðfarir sem hver sósíalisti hlýtur að líta mjög alvarlegum augum, með þeim eru þverbrotnar sósíalistískar meginreglur um réttindi þjóða. Hver þjóð heims á að hafa rétt til að búa í landi sínu ein og frjáls án erlendrar íhlutunar.“ Blaðið bætti því við, að innrásin í Ungverjaland væri ekki síst vestrænum ríkjum að kenna. „Landvinningamenn og stríðssinnar auðvaldsríkjanna bera sína þungu ábyrgð á örlögum Ungverjalands, og ekkert er viðurstyggilegra en að sjá talsmenn þeirra fella krókódílatár yfir Ungverjum.“

Þjóðviljinn skrifaði næstu vikur fátt um Ungverjaland, en þeim mun fleira um mótmæli fyrir utan sendiráð Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík 7. nóvember 1956, en þá gengu forystumenn Sósíalistaflokksins þangað til veislu, Einar Olgeirsson, Lúðvík Jósepsson og Brynjólfur Bjarnason. Valdi blaðið mótmælendum hin hraklegustu orð.

Sósíalistaflokkurinn sjálfur ályktaði ekkert um innrásina í Ungverjalandi. Á flokksstjórnarfundi 25.-30. nóvember 1956 samþykkti flokkurinn eftir harðar deilur að leyfa einstökum félagsmönnum að mótmæla innrásinni, þótt flokkurinn gerði það ekki sjálfur. Ég veit ekki til þess, að flokksmenn hafi notfært sér þetta „leyfi“. Í ályktun ungra sósíalista við nám austan tjalds sagði hins vegar: „Það er skoðun okkar, að íhlutun sovéthersins hafi verið ill nauðsyn til þess að hindra stofnun fasistaríkis í Ungverjalandi, sem hefði margfaldað hættuna á nýrri heimsstyrjöld.“ Nokkrir menntaskólanemar á Akureyri tóku sömu afstöðu.

Ég stend því við fullyrðingu mína: Þess eru engin dæmi allt til 1968, að Sósíalistaflokkurinn hafi gagnrýnt orð eða gerðir ráðstjórnarinnar rússnesku.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is