Halldór Gunnarsson
Halldór Gunnarsson
Eftir Halldór Gunnarsson: "Skoðanakannanavaldið ryðst inn á almenning með einhliða viðhorfi til mála."

Stjórnarskrá Íslands byggist á greiningu ríkisvaldsins í þrjá aðskilda þætti; löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þetta er ein meginstoð lýðræðis okkar og sjálfstæðis.

En er það svo? Við kjósum til Alþingis með mismunandi vægi á atkvæðum, sem mismunar þannig grunnrétti kjósanda, sem eiga að búa við lýðræði. Þessi réttur er enn frekar skertur með þvingun til kjörs á listum, þar sem kjósandi ræður litlu um kjör einstakra manna til Alþingis. Síðan ræður meirihluti alþingismanna ráðherra til að fara með framkvæmdavald, sem jafnframt ræður meira og minna með sínum embættismönnum hvaða lög eru sett. Framkvæmdavald og löggjafarvald leggur síðan dómsvaldinu til aðstöðu og lög til þess að veljast til starfa og dæma.

Þessi þrískipting valdsins er löskuð, án skýrra valdmarka. Eftir bankahrunið ber fólk æ minna traust til þeirra, sem með þetta vald fara. Um það vitnar málþóf og endalausar ræður um fundarstjórn á Alþingi. Þegar alþingismenn eru komnir upp í horn gagnvart því að fá frí frá þeirri umræðu, eru mál afgreidd með hraði í tímaþröng. Ráðherrar virðast ekki hafa burði eða þekkingu til þess að fara gegn embættismönnum ráðuneyta og um 700 nefndum ráðherra eða ráðuneyta. Þannig tefjast mál, þau dagar uppi og flytja þarf þau alveg upp á nýtt með umsagnarferli á nýju þingi. Dómsvaldið er í miklum þrengingum og nýtur því miður æ minna trausts vegna rökstuddrar gagnrýni úr ýmsum áttum, m.a. frá fyrrverandi hæstaréttardómara, sem ekki er svarað.

Embættismannavaldið

Ég kalla embættismannavaldið í ráðuneytum fjórða valdið. Embættismenn í ráðuneytunum eru ráðgjafar bæði framkvæmdavalds og löggjafavalds. Þar sem alþingismenn, án ráðherrastöðu, hafa litla aðstöðu til rannsókna á þingmálum ráðherra og njóta ekki aðstoðar við samningu lagafrumvarpa, þá leyfi ég mér að halda því fram, að embættismenn ráðuneyta séu í dag valdameiri í þjóðfélagi okkar en ráðherrar og alþingismenn. Þessir embættismenn leita einnig oft til hæstaréttardómara um samningu lagafrumvarpa. Það, að þessir dómarar séu síðan að kveða upp endanlega dóma eftir eigin lögum, er skaðlegt lýðræði okkar. Eins er það með ólíkindum, þegar skjöl í ráðuneytum eru lokuð inni sem leyndarmál, sem enginn má vita um og einnig þegar sagt er að fundargerðir í ráðuneyti hafi týnst eða ritari verið veikur og engin fundargerð verið skrifuð. Hvernig er hægt að líða þetta? Þjóðin hefur ekki samþykkt í kosningum að embættismannavald ráðuneyta skuli vera sterkara en framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið. Það verður að aðgreina þessi þrjú framangreindu „völd“ með skýrum hætti, t.d. með breytingu á stjórnarskrá þannig að forsætisráðherra verði kosinn með jöfnum atkvæðisrétti kjósanda, sem velji sína ráðherra og beri einn ábyrgð á framkvæmdavaldi með nýrri skipan embættismanna í ráðuneytum. Hann verði síðan að vinna með alþingismönnum, sem setji lögin með hjálp sérfræðinga. Ágreiningi milli þessara aðila sé vísað til þjóðarinnar og verði sá aðili sem tapar í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu að leita eftir nýju umboði í kosningum.

Vald fjölmiðla

Ég kalla þetta vald fimmta valdið og tel það sterkara í þjóðfélagi okkar en hin, sem ég hef áður vikið að. Þetta vald ryðst inn á almenning í útvarpi, sjónvarpi, símum og tölvum með einhliða viðhorfi til mála sem almenningur á erfitt með að afla sér þekkingar á til þess að greina hvort þarna sé fluttur sannleikur eða ekki.

Pólitískir einstaklingar í ríkisfjölmiðlum sem ráða fréttum skera sig ekki frá öðrum fréttaflutningi fjölmiðla sem við kostum og ættum að eiga og stjórna, án aðkomu ráðherra, breyta eða leggja af, vegna engu síðri upplýsinga frá öðrum fjölmiðlum.

Engin lög ná til þess hvort eigendur hafi óeðlileg áhrif á umfjöllun miðilsins um tiltekin mál. Samkeppnisstaða fjölmiðla er einnig skökk þar sem ríkisfjölmiðlar njóta skylduáskriftar, ríkisstyrks og óhefts aðgangs að auglýsingum, sem þekkist raunar hvergi annars staðar með sama hætti. Í síðustu alþingiskosningum stjórnuðu t.d. ríkisfjölmiðlar umræðu frambjóðenda með pólitískri umfjöllun sérfræðinga sem þeir kölluðu til á undan umræðunni. Fréttamennirnir stýrðu síðan umræðunni með ákveðnum spurningum til frambjóðenda út frá umfjöllun sérfræðinganna! Vald fjölmiðla birtist einnig í skoðanamyndun fyrir kosningar með því að birta skoðanakannanir fram að kvöldi fyrir kosningar og láta sína sérfræðinga útlista og spá um niðurstöður.

Vald skoðanakannana

Ég kalla þetta vald sjötta valdið og tel það sterkast með hjálp fimmta valdsins. Það stjórnar skoðanamyndun fólks fyrir kosningar. Þá erum við leidd áfram að kjörkassanum með þá vitneskju skoðanakannana, að ekki þýði að kjósa nema þá sem eiga möguleika á að komast að eða möguleika á að bæta við manni. Hér hefði mátt ætla að löggjafarvaldið hefði sett leikreglur um svo áhrifamikinn þátt í okkar lýðræðisferli. Hefur löggjafarvaldið gert það? Engin lög eru til sérstaklega um skoðanakannanir, hvenær þær megi fara fram, t.d. hversu mörgum dögum fyrir kosningar, hverjir megi setja þær fram, hverjir séu spurðir og eftir hvaða reglum úrtak sé gert, þ.e. eftir hlutfallsfjölda, hver geti átt félagið/stofnunina sem spyr og hver sé ábyrgð þeirra, hvernig spurningar séu bornar fram, hverjir geti keypt skoðanakannanir og þá ráðið hvernig spurt er. Einnig hvernig skoðanakannanir séu birtar, greina í hverri skoðanakönnun, fjölda í úrtöku með hlutfalli kyns, aldurs og búsetu, hversu margir neiti að svara eða segjast ekki ætla að kjósa eða segjast óákveðnir.

Fimmta valdið, sem ég svo kalla, fjölmiðlarnir, keppast við að birta ýmsar niðurstöður. Það leggur einnig fram eigin skoðanakannanir og túlkar á sinn hátt, jafnvel í kosningum, fram að kveldi fyrir kjördag. Sú framkvæmd hlýtur að hafa áhrif á ákvörðun kjósandans í kjörklefanum. Auðvitað eru skoðanakannanir framkvæmdar með mismunandi hætti en vitað er að í flestum þeirra eru eldri borgarar, 67 ára og eldri, ekki spurðir. Hvers vegna?

Skoðanakannanir hafa áhrif á hvað einstaklingurinn gerir með dýrmætasta rétt sinn í kjörklefanum. Skoðanakannanir um ýmis önnur atriði hafa áhrif á hvað fréttamenn, embættismenn, dómarar og alþingismenn gera, segja og ákveða og því er niðurstaða mín, að þetta „vald“ sem engin lög ná yfir og starfar óheft út um allt, sé sterkasta „valdið“ í dag með hjálp fjölmiðla.

Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur í Holti.