Valgerður Rúnarsdóttir
Valgerður Rúnarsdóttir
Eftir Valgerði Rúnarsdóttur: "Sjúkdómurinn er algengur og herjar á venjulegt fólk, þverskurð samfélagsins."

Fíknsjúkdómur er langvinnur heilasjúkdómur sem orsakast af erfða- og umhverfisþáttum. Hann hefst oftast snemma á ævinni, oft á unglingsaldri. Margt hefur áhrif á tilurð hans, bæði líffræðilegir þættir og uppeldislegir, aðrir sjúkdómar og heilaskaðar, aldur og kyn.

Hann greinist með sögu; einkenni um að neysla vímugefandi efna, (áfengis, lyfja, vímuefna löglegra og ólöglegra) er meiri en ætlað er, lengur en ætlað er, endurtekin þrátt fyrir ásetning um annað og heldur áfram þrátt fyrir afleiðingar. Tilraunir til að minnka, stjórna eða hætta neyslu þessara efna ganga ekki eins og óskað var.

Sjúkdómurinn er algengur og herjar á venjulegt fólk, þverskurð samfélagsins. Það má ná bata frá þessum sjúkdómi á mörgum stigum og á mismunandi sviðum, eins og betri líkamlegri heilsu og/eða geðheilsu, minni afleiðingum, bættri félagslegri stöðu eins og atvinnu, fjölskyldulífi o.s.frv. Batinn getur komið að hluta, í áföngum og til lengri tíma, og bakslag getur orðið.

Sjálfstæður sjúkdómur

Þessi heilasjúkdómur er sjálfstæður sjúkdómur, svo honum þarf að sinna sérstaklega. Margir hafa aðra sjúkdóma samhliða og þurfa því að sinna fleiri sjúkdómum á sama tíma. Þeir geta verið bæði líkamlegir sjúkdómar og geðsjúkdómar, það reynir meira á einstaklinginn og hann þarfnast jafnan aukinnar meðferðar og fleiri úrræða.

Mörgum dugir lítið inngrip við fíknsjúkdómnum, aðrir þurfa lengri sérhæfða meðferð og endurtekningar.

Afleiðingar fíknsjúkdóms eru margbreytilegar, líkamlegar, geðrænar og félagslegar og valda viðkomandi og hans aðstandendum vonbrigðum, sorg og harmi.

Eitt af því erfiðara við að eiga er hversu dulinn og falinn vandinn sjálfur oft er. Gjarnan er einblínt á afleiðingarnar og orkan sett í að laga þær. Einnig er algengt að skömm og fordómar komi í veg fyrir að ræða þennan vanda, fíknsjúkdóminn, sérstaklega, en einblínt á samhliða vandamál s.s. verki, svefntruflanir og kvíðaeinkenni. Jafnvel er reynt að finna sökudólg fyrir þessari „hegðun“ sem ofneyslan er, í stað þess að greina fíknsjúkdóm sem samhliða sérstakt vandamál sem þarf einnig meðferðar við. Þetta getur orðið flókið og valdið talsverðum erfiðleikum fyrir hvern þann sem reynir að takast á við slíkt.

Í dag er algengt að þeir sem koma á Vog og hafa fíknsjúkdóm, noti mörg mismunandi vímugefandi efni. Áfengi er algengasta og mest notaða vímuefnið. Örvandi vímuefni (amfetamín, kókaín, mdma) og kannabisefni eru vandi hjá um helmingi þeirra sem þangað leita. Ávanabindandi lyf eins og róandi-, kvíðastillandi- og svefnlyf, ásamt sterkum verkjalyfjum og örvandi lyfjum (methylphenidate), eru einnig stór hluti af vímuefnaneyslu þeirra sem á Vog koma. Þótt fíknin sé af sama toga eru afleiðingar og eftirköst neyslunnar ólíkar. Það getur því verið flókið fyrir einstakling að sjá skóginn fyrir trjám og oft eru erfiðleikar sem að steðja flóknir og koma í veg fyrir að hefjast handa og takast á við vandann.

Góð byrjun að huga að fíknsjúkdómnum

Ef vandinn er flókinn, félagslega, andlega, líkamlega, og hluti vandans er ofneysla vímugefandi efna eða lyfja, þá er áreiðanlega góð byrjun að huga að fíknsjúkdómnum. Þegar fíkn er annars vegar, er erfiðara að eiga við verki (eða fara af verkjalyfjum), eiga við svefntruflanir og kvíða (eða minnka töku róandi lyfja og svefnlyfja), koma sér út úr braski (eða hætta að reykja kannabis), halda sér í vinnu (eða hætta helgardrykkju eða örvandiefnatúrum), o.s.frv.

Fyrir þá sem kannast við að neysla vímugefandi efna sé hluti af þeirra vanda, þá getur verið besta byrjunin á flóknum vanda að taka á fíkninni. Þannig gefst svigrúm og næði til að sinna því sem á eftir kemur, samhliða eða í framhaldi. Þetta er oft þolinmæðisvinna en vel þess virði.

Þannig má byrja á byrjuninni.

Höfundur er yfirlæknir á Sjúkrahúsinu Vogi.