Þórhallur Gíslason 100 ára Öldungurinn býr nú á Hrafnistu DAS Hlévangi í Reykjanesbæ.
Þórhallur Gíslason 100 ára Öldungurinn býr nú á Hrafnistu DAS Hlévangi í Reykjanesbæ. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Aflaklóin Þórhallur Gíslason, skipstjóri frá Syðsta-Koti í Sandgerði, oft kallaður Dúddi Gísla, er 100 ára í dag.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Aflaklóin Þórhallur Gíslason, skipstjóri frá Syðsta-Koti í Sandgerði, oft kallaður Dúddi Gísla, er 100 ára í dag. „Það er allt í lagi að vera 100 ára ef maður hefur góða heilsu og það hef ég haft,“ segir Þórhallur.

Hann byrjaði sem unglingur á trillu með föður sínum og fann sig strax á sjónum. „Ég var í rúmlega 40 ár á sjó, þar af 34 vertíðir á síld, samtals á 12 bátum, ef ég man rétt,“ rifjar hann upp. Eftir að hann fór, 55 ára, í land starfaði hann sem hafnarvörður og lóðs í Sandgerði í 20 ár. „Ég þekkti innsiglinguna vel og strandaði aldrei,“ segir hann.

Veiðin aðalatriðið

Þórhallur tók vélstjórapróf áður en hann náði sér í skipstjóraréttindi. „Ég var vélstjóri í átta ár áður en ég fór í stýrimanninn,“ segir Þórhallur, sem var lengst af skipstjóri og fiskinn mjög. Í tilefni 95 ára afmælis Þórhalls lét Jónas, sonur hans, útbúa skjöld með nöfnum aflakónga á vetrarvertíð í Sandgerði 1939 til 1991. Þórhallur var fjórum sinnum aflakóngur – á Hamri GK 1961, Munin GK 1962 og Sæunni GK 1963 og 1965. Afkomendur hans gáfu Sandgerðisbæ skjöldinn, sem er varðveittur í Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði.

„Ég hafði alltaf nóg að gera enda snerist þetta fyrst og fremst um að veiða nógu mikið,“ rifjar Þórhallur upp. Segir margs að minnast frá sjónum en samt hafi verið kærkomið að koma heim til fjölskyldunnar eftir langa útiveru á síldveiðunum fyrir norðan. „Fjarveran frá fjölskyldunni var eins og gengur en það var gaman að koma heim. Ég átti gott heimili en það stendur upp úr að ég var alltaf á toppskipunum og þau voru mörg.“

Lengi vel vann Þórhallur hjá öðrum en 1956 fór hann til Danmerkur til þess að láta smíða bátinn Hamar, sem hann átti í samvinnu við fjóra aðra menn. Það var þá dýrasta skip, sem hafði verið smíðað í Esbjerg og var töluvert látið með það. „Ég reri mikið á honum, 120 tonna bátnum, en ætli Sæunn hafi ekki verið besti báturinn, sem ég var með,“ segir Þórhallur.

Hann segir að þótt sjómennskan hafi oft verið erfið, sérstaklega í slæmu veðri, hafi hann alla tíð kunnað vel við sig úti á sjó. Aldurinn hafi hins vegar sagt til sín og því hafi hann farið í land. „Ég var orðinn það gamall að það voru síðustu forvöð að fá einhverja vinnu í landi.“

Sonurinn Benóný, útgerðarmaður í Grindavík, lét smíða bátinn Dúdda Gísla GK sem hefur verið mikið aflaskip. Nema hvað.

Í tilefni aldarafmælis Þórhalls efna ættingjar hans til samsætis honum til heiðurs í Vörðunni í Sandgerði frá klukkan 14 til 16 í dag.