Stórbrotið Atriði Bosníu.
Stórbrotið Atriði Bosníu. — AFP
Hvað amar eiginlega að Evrópu? Í fyrra hafnaði álfan framlagi Finna til Evrópumeistaramótsins í lummusöng enda þótt pönkararnir hugdjörfu bæru augljóslega af öðrum framlögum.

Hvað amar eiginlega að Evrópu? Í fyrra hafnaði álfan framlagi Finna til Evrópumeistaramótsins í lummusöng enda þótt pönkararnir hugdjörfu bæru augljóslega af öðrum framlögum. Í ár varð Bosnía og Hersegóvína fórnarlamb sama tómlætis enda þótt atriðið bæri augljóslega af öðrum atriðum í undanrásunum á þriðjudaginn. Man ekki svo vel eftir laginu sjálfu – enda er það aukaatriði.

Það var allt í atriðinu. Fyrir það fyrsta byrjuðu menn á því að strengja gaddavír þvert yfir sviðið. Öðrum megin stóð leðurdressaður söngvari sem gæti auðveldlega verið bróðir þeirra Geirdæla í íslenska málmbandinu Dimmu. Hinum megin var kona í rauðum kjól. Framan af stal þó senunni kona með knéfiðlu sem var örugglega klippt út úr einhverjum vísindatrylli. Það er knéfiðlan en ekki konan. Hún heyrði til sömu vídd og við. Sat og stóð á víxl.

Hápunktur atriðisins var þó þegar saltvondur miðaldra rappari rauk inn á sviðið og hraunaði yfir viðstadda. Gísli Marteinn, sem gerði prýðilegt mót, fullyrti að það væri vegna þess að nafn aumingja mannsins væri að finna í Panama-skjölunum. Það er með miklum ólíkindum að Evrópa hafi sniðgengið þetta atriði.

Annars er Evrópumeistaramótið í lummusöng að breytast í Evrópumeistaramótið í grafískri hönnun og ljósabrellum. Lögin eru orðin aukaatriði. Er það vel.

Orri Páll Ormarsson