[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1. umferð Kristján Jónsson kris@mbl.is „Það er ótrúlega þægilegt að hún hafi byrjað á því að skora þrennu. Ég veit að fyrir hana sjálfa er mikilvægt að byrja mótið vel.

1. umferð

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Það er ótrúlega þægilegt að hún hafi byrjað á því að skora þrennu. Ég veit að fyrir hana sjálfa er mikilvægt að byrja mótið vel. Sóknarmenn eru þannig að þeir pæla mikið í markaskorun og þrífast á því að skora mörk. Mikið hefur verið talað um að Margrét Lára muni skora mörg mörk þar sem hún er nú komin inn í deildina og kannski eykur það aðeins pressuna. Við höfum þurft að treysta mjög á Hörpu síðustu árin en þetta tímabilið er staðan aðeins önnur því við erum með Donnu Kay og Katrínu Ásbjörns sem einnig geta skorað. Fyrir okkur er frábær byrjun á mótinu að Harpa skori þrennu í 1. umferð,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, þegar Morgunblaðið ræddi við hana um Hörpu Þorsteinsdóttur samherja hennar.

Morgunblaðið tekur Hörpu til umfjöllunar eftir 1. umferð Pepsi-deildarinnar en Harpa skoraði þrívegis í 4:0 sigri á Þór/KA í Garðabænum á miðvikudagskvöldið.

Vinnusöm og hleypur mikið

Harpa hefur skorað jafnt og þétt fyrir Stjörnuna síðustu árin. Í fyrra urðu mörkin í deildinni fimmtán hjá henni og stoðsendingarnar þrettán og tvö ár þar á undan varð hún markahæst í deildinni. Ásgerður bendir á að Harpa geri meira á vellinum en að skora mörk.

„Hún er mjög vinnusöm og er ekki þessi hefðbundni sóknarmaður sem er alltaf inni í vítateig. Hún hleypur mikið, sérstaklega miðað við framherja, og mér finnst sá þáttur hjá henni stundum vanmetinn. Harpa er auk þess gríðarlega líkamlega sterk og leggur almennt séð mikið af mörkum til liðsins. Auk þess er hún ekki þessi týpíski markaskorari sem nýtir öll marktækifærin heldur þarf hún oft fleiri færi til að skora. Hún gæti reyndar orðið brjáluð út í mig fyrir að nefna þetta,“ sagði Ásgerður og hló.

Harpa er áberandi líkamlega hraust og með sterka fætur. Ásgerður er spurð um hvort Harpa leggi mikið á sig til að viðhalda styrk? „Hún er bara svona ótrúlega sterk að upplagi. Í vetur hefur hún þó verið í sér lyftingaþjálfun en hún þarf bara að lyfta svona einu sinni í viku til að halda þessum vöðvamassa við.“

Létt yfir henni í hópnum

Ásgerður segir Hörpu vera mikilvæga í leikmannahópi Stjörnunnar en þær tvær eru nú þær reynslumestu í Stjörnuliðinu. „Hún er mjög sterkur persónuleiki í hóp og er leiðtogi en á annan hátt en ekta fyrirliði. Eins og margir markaskorarar þá hugsar hún um sjálfan sig en ekki á slæman hátt samt sem áður. Ég veit ekki alveg hvernig er best að lýsa því. Við erum bara tvær eftir af þessum kjarna eldri leikmanna sem voru þegar velgengni Stjörnunnar hófst. Hún er ekki alvarlega týpan þótt hún virki stundum þannig heldur er frekar létt yfir henni,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir ennfremur í samtali við Morgunblaðið í gær.
Harpa Þorsteinsdóttir
» Hún er 29 ára gömul, fædd 27. júní 1986, og hóf að spila með meistaraflokki Stjörnunnar 2002.
» Hún spilaði í nokkrar vikur með enska liðinu Charlton og lék með Breiðabliki 2008 til 2010 en sneri þá aftur í Stjörnuna.
» Frá þeim tíma hefur hún orðið þrisvar Íslandsmeistari og þrisvar bikarmeistari með Stjörnunni og tvisvar verið markadrottning deildarinnar.
» Harpa er fimmta markahæst í sögu efstu deildar með 153 mörk og sú sjötta leikjahæsta með 212 leiki.
» Harpa hefur spilað 59 landsleiki og skorað í þeim 14 mörk.