Þórður Vagnsson fæddist í Bolungarvík 9. febrúar 1969. Hann lést 19. maí 2016.
Þórður, eða Tóti eins og hann var alltaf kallaður, var yngstur sjö barna hjónanna Birnu Hjaltalín Pálsdóttur, kaupmanns og húsmóður, f. 9. júlí 1933, og Vagns Margeirs Hrólfssonar, sjómanns, f. 25. apríl 1938, d. 18. desember 1990. Birna lifir son sinn og þarf nú að horfa á bak öðru barni sínu. Systkini Þórðar eru: 1) Ingibjörg, f. 16. júní 1957, d. 20. nóvember 2011, 2) Soffía, f. 5. nóvember 1958, 3) Hrólfur f. 20. febrúar 1960, 4) Margrét, f. 26. júní 1962, 5) Pálína, f. 30. nóvember 1964, og 6) Haukur, f. 10. mars 1967.
Þann 20. maí 2002 kvæntist Þórður eftirlifandi eiginkonu sinni, Eleanor M. Manguilimotan Vagnsson, frá Filipseyjum. Foreldrar hennar eru Erlinda M. Manguilimotan, f. 11. júlí 1941, og Cerilo Manguilimotan, f. 7. júlí 1937, d. 3. janúar 2008. Systkini Eleanor eru Jocelyn, f. 3. júlí 1963, Danílo, f. 24. nóvember 1966, og Noel, f. 3. maí 1969. Dóttir Þórðar og Eleanor er Katrín Erlinda, f. 2. ágúst 2004.
Sonur Þórðar og Evu Leilu Banine er Atli Ben, f. 12. febrúar 1991.
Þórður lauk grunnskólaprófi frá Grunnskóla Bolungarvíkur og þaðan lá leið hans í Menntaskólann við Sund þar sem hann stundaði nám. Eftir skólagöngu vann hann við ýmis verslunar- og þjónustustörf, meðal annars sem verslunarstjóri bæði í matvöru- og sérvöruverslun auk þess sem hann starfaði m.a. við fiskvinnslu í Bolungarvík og í dyravörslu. Undanfarin tvö ár starfaði hann sem rútubílstjóri hjá Kynnisferðum. Þórður var mikill golfáhugamaður og var einn af forsprökkum við uppbyggingu golfaðstöðu í Bolungarvík. Þar varð hann fyrsti unglingameistari klúbbsins. Í seinni tíð var hann virkur félagi í golfklúbbi Setbergs. Eitt af stóru áhugamálum Þórðar var útvarpsrekstur. Hann stofnaði útvarpsstöðina „Lífæðina“ og rak hana sem útvarpsstjóri í nokkur ár en útsendingar voru í kringum jólahátíðina, upphaflega í Bolungarvík og síðan um mest allt land. Þá var hann ötull sölumaður Herbalife. Þórður var mikill tónlistarmaður. Hann spilaði á saxófón, var mikill söngmaður og góður dansari. Hann söng m.a. í Gospelkór Lindakirkju um nokkurt skeið. Þá söng hann m.a. inn á hljómplöturnar Hönd í hönd, uppáhalds lögin hans pabba, Vagg og Velta með Vagnsbörnum að vestan og Litla jóladiskinn, ásamt systkinum sínum.
Útför Þórðar fer fram frá Lindakirkju Kópavogi í dag, 3. júní 2016 og hefst athöfnin klukkan 16.

Undir háu hamrabelti
höfði drúpir lítil rós.
(Guðmundur G. Halldórsson.)

Elsku Tóti, minn kæri vinur. Á þessu átti ég aldrei von á. Að ég þyrfti að kveðja þig svona snemma. Við áttum eftir að bralla svo margt saman. Síðustu dagar hafa verið mér ákaflega erfiðir, og ég viðurkenni,  að ég hef grátið þegar ég hugsa til þín og þinnar elskulegu fjölskyldu. Ég hefði viljað að við hefðum hist oftar, en alltaf var eins og  við hefðum hist í gær þegar við hittumst eða heyrðumst í síma. Það eru ógleymanleg símtölin sem byrjuðu á apaöskri eða eitthvað álíka (nú veit ég að Gummi Reynis glottir út í annað). Ég grét úr hlátri þegar við rifjuðum upp gamlar sögur, og þar varst þú á heimavelli.


Ég vil upplýsa um nokkur atriði sem þú elsku vinur kenndir mér. Það vita það ekki margir að þú kenndir mér miklu meira en margir aðrir, og fæstir vita. Finnst við hæfi að koma aðeins inn á það hér, og um leið, heiðra minningu frábærs drengs sem alltaf var til staðar fyrir alla. Alltaf. Fyrsta minning mín um Tóta Vagns er sú að ég er að ganga niður Þjóðólfsveginn og sé Tóta vera að æfa sig í að vippa golfkúlum á túninu heima hjá sér, í umfb buxunum, vel girtum. Seinna meir kynntist ég þessum öðlingi þegar ég hóf störf hjá Djúpfangi, hjá þeim Katli Helga og Ingu Vagns. Þetta var árið 1989, ég þá nýfermdur og Tóti þá liðlega tvítugur. Mamma sendi mig inn á grundir til að spyrja Ketil um vinnu og hann sagði: Geturðu byrjað strax, Páll Helgi var að koma inn með 12 tonn af boltaþorski. Ég byrjaði með það sama og var til kl. 8. um morguninn að hausa, salta og annað sem til þurfti. Það var strax einn strákur sem tók mig undir sinn verndarvæng. Það var Tóti Vagns. Tóti tók á móti mér á lyftaranum með derhúfu og sagði ,,blessaður Benni og velkominn. Þessum móttökum gleymi ég aldrei. Þarna fann ég strax að allt yrði í lagi. Þetta væri maðurinn sem ég gæti treyst á. Ég man líka vel að Tóti kenndi mér að radda. Ég man í einni pásunni að þá var lagið Komdu sæll og blessaður (Ofboðslega frægur) með Stuðmönnum að byrja og við vorum allan kaffitímann að syngja niðri á gólfi, alveg þangað til ég náði efri röddinni. Tóti gafst ekki upp fyrr en ég var búinn að ná þessu.

Seinna þegar Djúpfang færði sig einnig í Græðishúsið þá æfðum við þrír saman; ég, Tóti og Gummi Reynis, þinn besti vinur, marga kaffitímana. Mér er minnistætt lagið Help með Bítlunum. Þarna kennduð þið Gummi mér alls kyns raddir í alls kyns lögum og áður en ég vissi af gat ég raddað öll lög, afturábak og áfram. Það átt þú algjörlega skuldlaust Tóti minn. Ég hef einnig verið að hugsa það seinni árin að það er enginn vafi á því að allur minn tónlistarferill hófst hjá þér. Fyrir alvöru. Þú kenndir mér ekki bara á tónlistina, þú kenndir mér skipulagshæfileika. Mér finnst rétt að þetta komi fram.

Þetta var á föstudegi og vinnudegi að ljúka í Græðishúsinu. Ketill og Inga höfðu farið erlendis og þú varst verkstjóri í fjarveru Ketils. Þegar klukkan var fimm um daginn fór fólk að týnast heim. Þá man ég að þú stóðst á miðju gólfi og varst hugsi. Ég gekk að þér og spurði hvort eitthvað væri að. Þú snérir þér að mér og sagðir: Benni, ert þú til í að hjálpa mér aðeins? Við fórum í að færa allar vélar og tæki, borð, kör og annað. Þú á lyftaranum og ég að aðstoða. Þú vissir nákvæmlega hvernig þú vildir hafa þetta og skýrðir út þegar við færðum hvern hlut ástæðuna hvers vegna. Ég skildi ekki alveg til fulls þetta kvöld hvert þú varst að fara með þessu. En þegar fólk mætti til vinnu næsta dag, þá man ég að við stóðum á miðju gólfinu og þú skýrðir út fyrir mér hagræðinguna í að færa þetta, og færa hitt. Á þessu augnabliki kenndir þú mér allt það helsta sem ég kann í skipulagningu. Ég sá þetta ljóslifandi fyrir mér, og fór að horfa gagnrýnum augum á hitt og þetta. Afköstin þennan dag voru meiri en nokkru sinni fyrr. Ég held ég sé að fatta það almennilega í dag hversu framsýnn þú varst. Rúmlega tvítugur peyi að spá í svona hluti.

Mér er einnig mjög minnisstætt þegar ég og Gummi Reynis kíktum á þig í Þróttarablokkina haustið 2004. Algörlega ógleymanlegt kvöld þar sem var drukkið (bara aðeins), rifjaðar upp sögurnar og sungið. Þessu kvöldi mun ég aldrei gleyma. Annað dæmi um framsýni þína og kraft er Lífæðin. Þvílík og önnur eins elja. Ég held að við Bolvíkingar munum aldrei fatta hversu mikið þetta gerði fyrir bolvískt samfélag. Ég verð að koma inn á síðasta skiptið sem þú varst með Lífæðina, þegar ég samdi Lífæðarlagið. Þá kom Gummi Einars, frændi þinn, inn á síðustu metrunum og styrkti þetta frábæra framtak þitt. Ég man að Gummi sagði við mig (báðir búnir með tvo til þrjá): Benni, það sem Tóti er búinn að gera fyrir okkar samfélag verður aldrei fullþakkað, hann er algjörlega ómissandi. Það voru orð að sönnu.

Þú misstir pabba þinn og mág, Vagn Hrólfsson og Gunnar Svavarsson, skömmu eftir að ég hóf störf í Djúpfangi SF. Þú og pabbi þinn voruð mjög nánir og ég get fullyrt það að í hvert skipti sem við hittumst þá minntist þú á pabba þinn. Söknuðurinn var óbærilegur. Ég held að þú hafir aldrei komist yfir það.

Ég vil meina að þín mesta lukka hafi verið að kynnast Eleanor. Hún var þín stoð og stytta og þú dafnaðir með henni. Án undantekninga þá minntistu á hversu heppinn þú værir með konu. Það vita allir sem þekkja Ellu að hún er gull af manni. Maður eins og Tóti átti konu eins og Ellu skilið. Þú varst einstakur fjölskyldumaður. Einstakur vinur. Einstakur maður.

Elsku Eleanor, Katrín, Atli, elsku Binna og öll stórfjölskyldan. Ég sendi ykkur mínar allra dýpstu samúðarkveðjur. Megi góður guð veita ykkur styrk.

Eitt er það sem aldrei gleymist,
aldrei, það er minning þín.
(Guðmundur G. Halldórsson.)


Takk fyrir allt og allt elsku Tóti minn.
Hvíl í friði elsku vinur!
Hinsta kveðja,




Benedikt Sigurðsson (Benni Sig).