Anna Sigríður Einarsdóttir
Árni Grétar Finnsson
Ákvörðun Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um að víkja lögreglufulltrúa í fíkniefnadeild lögreglunnar frá störfum hefur verið kærð til innanríkisráðuneytisins. Héraðssaksóknari felldi niður mál lögreglufulltrúans í fyrradag, en málið hafði verið til rannsóknar hjá embættinu í nærri hálft ár.
Í málum sem þessum er sérstök nefnd sem metur hvort forsendur hafi staðið til að leysa viðkomandi starfsmann frá störfum. Lögreglufulltrúinn ákvað þó, í samráði við Kristján B. Thorlacius, lögmann sinn, að kæra ákvörðunina til ráðuneytisins. Það er mat þeirra að ekki sé samræmi á milli þess hvernig viðbrögð voru í þessu máli og öðrum. „Grundvöllurinn fyrir því sem við settum í kærunni til innanríkisráðuneytisins var að lögreglustjóraembættið gætti ekki að reglunum um meðalhóf og jafnræði þegar það tók þessa ákvörðun,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is í gær.
Ekki sambærilegt LÖKE-máli
Kristján telur að mál lögreglumannsins Gunnars Scheving Thorsteinssonar, sem oft er nefnt LÖKE-málið, sé ekki sambærilegt þessu máli. „Þar var Gunnar t.d. ekki leystur frá störfum fyrr en það var búið að gefa út ákæru. Hann var sendur heim á launum, en það var ekki notuð sama aðferð í máli míns umbjóðanda. Hann var leystur frá störfum á hálfum grunnlaunum 14. janúar sl. og síðan er málið búið að taka næstum fimm mánuði,“ sagði Kristján og bætti við að flestir geti ímyndað sér að slíkar tekjur dugi skammt.
Krafa um ígrundaða ákvörðun
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, tekur undir að meðalhófs hafi ekki verið gætt við ákvarðanatöku lögreglustjóra. „Ákvörðunin hefur í för með sér íþyngjandi áhrif á viðkomandi starfsmann. Það er lagaáskilnaður um að stjórnvaldsákvarðanir megi ekki ganga lengra en góðri meðalhófsreglu gegnir. Þau tilvik sem við skoðum í þessu sambandi eru þess eðlis að þau bera með sér að það sé ekki gætt að meðalhófsreglu og að þetta sé mjög handahófskennd ákvarðanataka. Út á það gengur kæran,“ segir Snorri.Nú mun málið fara fyrir sérstaka nefnd sem starfar samkvæmt 27. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Nefndin mun meðal annars meta hvort ákvörðunin hafi verið lögmæt á þeim tíma sem hún var tekin og hvaða gögn hafi legið til grundvallar ákvörðuninni. „Við höfum dæmi þess að þessi nefnd hafi komist að því að ákvarðanir lögreglustjóra hafi ekki verið réttmætar. Nefndin mun fjalla um málið og ljúka athugun sinni á því óháð niðurstöðu héraðssaksóknara.“
Gæti verið fordæmisgefandi
Snorri segir að málið geti vel verið fordæmisgefandi fyrir aðra starfsmenn lögreglunnar. „Það er skemmst frá því að segja að Aldís Hilmarsdóttir var færð til í starfi af því er hún telur vegna eindregins stuðnings síns við þennan tiltekna lögreglufulltrúa. Það eru fleiri einstaklingar sem hafa orðið fyrir áhrifum af þessari rannsókn,“ segir Snorri.
Lögreglufulltrúi
» Rannsókn héraðssaksóknara á máli lögreglufulltrúans hófst fyrir um hálfu ári síðan.
» Búið er að kæra ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að víkja lögreglufulltrúanum frá störfum.
» Formaður Landssambands lögreglumanna segir ákvörðunina hafa verið handahófskennda.