[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stuart James The Guardian Twitter.com/StuartJamesGNM Wales stillti upp alls konar liðum í undankeppninni en eftirlætisuppstillingin er 3-4-2-1 sem tryggði sigur í mikilvægum leikjum, í útileikjunum í Kýpur og Ísrael og í heimaleiknum gegn Belgíu.

Stuart James

The Guardian

Twitter.com/StuartJamesGNM

Wales stillti upp alls konar liðum í undankeppninni en eftirlætisuppstillingin er 3-4-2-1 sem tryggði sigur í mikilvægum leikjum, í útileikjunum í Kýpur og Ísrael og í heimaleiknum gegn Belgíu.

Chris Coleman vildi hverfa frá 4-3-3 leikkerfinu í byrjun undankeppninnar og ákvað að stilla upp þremur varnarmönnum, sem hentar einnig leikmönnunum sem hann hefur úr að velja. Wales tók skref aftur á bak og stillti upp fjögurra manna varnarlínu í nokkrum leikjum snemma í undankeppninni en allt small saman eftir sannfærandi 3:0 sigur á Ísrael í Haifa.

Auk þess sem hann stillti upp þriggja manna vörn þann dag, ákvað Coleman að nota tvo leikmenn í hlutverki ,,tíunnar“, þá Gareth Bale og Aaron Ramsey, og það gekk afar vel. Hinir sóknarsinnuðu vængbakverðir komu með breiddina og tveir varnarsinnaðir miðjumenn, Joe Allen og Joe Ledley, skýldu vörninni og stjórnuðu spilinu þegar Walesverjar voru með boltann. Fremst var það Hal Robson-Kanu sem teygði á vörninni með óeigingjörnum hlaupum og skapaði pláss sem Bale og Ramsey gátu nýtt sér.

Það er líklegt að Wales spili nákvæmlega eins í Frakklandi. Leikkerfið gerir það erfitt að brjóta leikmennina á bak aftur, þeir fengu aðeins á sig fjögur mörk í undankeppninni, og veitir Bale og Ramsey, tækifæri til þess að sækja án þess að einangrast frá liðinu. Það er ekki líklegt að Coleman stilli Bale upp einum frammi í Frakklandi. Hann lét reyna á það í Belgíu í nóvember 2014. Þá beið Bale oft of lengi eftir boltanum sem kom aldrei. Hann snerti boltann aðeins 18 sinnum allan leikinn en Wales fékk mikilvægt stig í 0:0 jafntefli.

Það er aldrei of mikið sagt um mikilvægi Bale. Þessi sóknarmaður Real Madrid elskar að spila fyrir þjóð sína og blómstrar í frjálsa hlutverkinu sem Coleman færir honum. Hann skoraði sjö og lagði upp tvö af 11 mörkum liðsins í undankeppninni og er fullfær um að vinna leiki upp á sitt eindæmi. Bale þarf að vera með boltann eins mikið og mögulegt er.

Augljós veikleiki í þessu velska liði er að það vantar framherja sem hefur sannað sig í ensku úrvalsdeildinni. Simon Church, Sam Vokes og Robson-Kanu hafa allir leikið í stöðu fremsta manns en enginn verið á skotskónum. Robson-Kanu mun alveg örugglega fá byrjunarliðssætið vegna vinnusemi sinnar.

Mikilvægt verður að ákveða hvort Chris Gunter muni spila í þriggja manna varnarlínunni eða sem vængbakvörður. Hið fyrra virðist líklegra og þá munu Ashley Williams og Ben Davies spila við hlið hans í varnarlínunni og Ashley Richards heldur áfram í hægri vængbakvarðarstöðunni, en hann var ekkert sérstaklega góður í undankeppninni. Neil Taylor fyllir sömu stöðu vinstra megin. Annað áhyggjuefni fyrir Coleman er heilsa Joe Ledleys sem gæti opnað dyrnar fyrir Andy King sem varð Englandsmeistari með Leicester.

Föst leikatriði gætu verið vandamál fyrir vörnina. Bæði mörkin sem liðið fékk á sig gegn Norður-Írlandi og Úkraínu í vináttuleikjunum í mars komu úr föstum leikatriðum og Bosníumenn skoruðu tvö slík mörk í eina tapi Wales í undankeppninni. Coleman veit vel um þetta vandamál og það verður athyglisvert að sjá hvort hann setji James Collins í þriggja manna varnarlínuna til þess að gera hana sterkari í loftinu.

Líklegt byrjunarlið : Hennessey – Gunter, A Williams, Davies – Richards, Allen, Ledley, Taylor – Ramsey, Bale – Robson-Kanu.