[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Florian Vetter Der Standard twitter.com/Florian_Vetter Austurrísk knattspyrna hefur verið í endurreisn síðan Marcel Koller var ráðinn landsliðsþjálfari árið 2011.

Florian Vetter

Der Standard

twitter.com/Florian_Vetter

Austurrísk knattspyrna hefur verið í endurreisn síðan Marcel Koller var ráðinn landsliðsþjálfari árið 2011. Fyrir utan stutta þátttöku á EM 2008 sem gestgjafi ásamt Sviss er þetta fyrsta stórmót sem Austurríki kemst á síðan HM 1998. Áhrif fyrrverandi svissneska landsliðsmannsins Kollers eru þó ekki takmörkuð við úrslit.

Framfarir sáust þegar Koller kom með 4-2-3-1 leikkerfi sem var nógu sveigjanlegt til að verða 4-3-3 og lét alla aldurshópa fylgja því. Fyrir komu hans var Austurríki tákngervingur vonbrigða sem þurfti að gjalda fyrir lélega þjálfun og augljósan skort á framtíðarsýn. Nú getur hann valið úr kynslóð hæfileikaríkra, flinkra leikmanna með mikinn leikskilning sem leika flestir erlendis.

Junuzovic í lykilhlutverki

Mest ber á hinum fjölhæfa David Alaba úr Bayern München og Marko Arnautovic, sem hefur staðið sig vel nýlega með Stoke City í ensku úrvalsdeildinni, en lykilstöður í liði Kollers leika varnartengiliðurinn Julian Baumgartlinger og Zlatko Junuzovic. Sá síðarnefndi, miðjumaður Werder Bremen, gegnir lykilhlutverki þegar Austurríki vinnur boltann. Hann rýkur fram með boltann og kemur honum út á kantana, annaðhvort til Arnautovic til hægri eða Martin Harnik úr Stuttgart til vinstri. Bæði Harnik og Arnautovic eru vængmenn en þeir eru engu að síður óhræddir við að styðja framherjann Marc Janko.

Janko á skotskónum

Janko hefur verið á skotskónum fyrir Basel og Austurríki á tímabilinu. Hann hefur skorað 20 mörk í 33 leikjum fyrir Basel og skorar að meðaltali í öðrum hverjum leik fyrir landsliðið. Einnig nýtir hann alla sína 196 sentímetra til þess að halda boltanum, sem gerir miðjumönnunum Junuzovic og Alaba kleift að fara framar og skjóta á markið. Þetta gerir Janko að lykilmanni.

Bakvarðastöðurnar voru alltaf veikleiki Austurríkis en nú eru þær styrkur liðsins. Fyrirliðinn Christian Fuchs, sem kemur til Frakklands eftir frábært tímabil með Leicester City, og Harnik ná vel saman á vinstri kantinum og hið sama má segja um Florian Klein og Arnautovic hægra megin.

Markvörðurinn utan teigs

Ef mótherjar Austurríkis reyna að byggja upp sókn úr vörninni vill Koller pressa stíft og þá lætur hann markvörðinn Robert Almer koma út úr vítateignum og taka þátt í spilinu, líkt og þýski markvörðurinn Manuel Neuer. Ástæðan er sú að Almer er ,,með góðan fót, hávaxinn og reyndur“, eins og Koller segir sjálfur. Ef mótherjar Austurríkis reyna hins vegar að gefa langar sendingar leggur Koller áherslu á pressu miðsvæðis. Helsta áhyggjuefnið er þegar Baumgartlinger og Alaba sækja of langt fram og varnarlínan verður berskjölduð.

Austurríki, sem dróst í sama riðil og nágrannarnir og erkifjendurnir Ungverjaland, hefur engu að síður virkilegar ástæður til bjartsýni. En þrátt fyrir að byrjunarlið Kollers geti reynst hvaða liði sem er erfitt er ekki hægt að segja hið sama um varamennina.

Líklegt byrjunarlið : Almer – Klein, Dragovic, Hinteregger, Fuchs – Baumgartlinger, Alaba – Harnik, Junuzovic, Arnautovic – Janko.