Katrín Sæmundsdóttir fæddist í Stóru-Mörk í Vestur-Eyjafjöllum 1. júní 1917. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 1. júní 2016. Foreldrar hennar voru Sæmundur Einarsson, hreppstjóri og bóndi, og Guðbjörg María Jónsdóttir, húsfreyja. Katrín var sjöunda í röðinni af 14 systkinum, eftirlifandi er Sigurbjörg Sæmundsdóttir.
Katrín eignaðist tvö börn með Eysteini Einarssyni, f. 12. apríl 1904, d. 25. febrúar 1991.
Hrafnhildi Eysteinsdóttur, f. 17. júní 1949, d. 31. júlí 2015, og Hilmar Eysteinsson, f. 2. september 1951.
Hrafnhildur var gift Jónasi Ragnarssyni, börn þeirra eru, Ragnar Þórður, Katrín Hildur, Hrönn, Edda Rán, Eysteinn. Hilmar er kvæntur Sigríði Magnúsdóttur, barn þeirra er Ingibjörg Hilmarsdóttir, synir Sigríðar eru Óskar Ingi og Stefán.
Katrín átti 13 langömmubörn og tvö langalangömmubörn.
Katrín var fyrst um sinn búsett í Stóru-Mörk þar sem hún stundaði félagsbúskap ásamt tveimur bræðrum sínum en einnig bjó hún í Reykjavík, Brú í Austur-Landeyjum og Hvolsvelli. Katrín flutti í Kirkjulund í Garðabæ 1990, þar sem hún bjó allt þar til fyrir tveimur árum er hún fluttist á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hún lést eftir skammvinn veikindi.
Útför Katrínar fer fram í Vídalínskirkju í dag, 10. júní 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.
Í dag eru kaflaskil í lífi fjölskyldunnar okkar þegar við kveðjum elsku ömmu Kötu í hinsta sinn. Amma kvaddi okkur á afmælisdegi sínum, 1. júní síðastliðinn, þá 99 ára gömul. Hún er án efa ein af mínum stærstu fyrirmyndum og sú sem hefur sýnt mér einna best hvers konar manneskju ég vil geyma.
Amma var dugleg og iðin kona. Sem ung kona hóf hún félagsbúskap í Stóru-Mörk ásamt Einari, bróður sínum, en þau deildu jörðinni með Árna, bróður þeirra, og Lilju, konu hans. Amma fæddist í Stóru-Mörk og var þar sín uppvaxtarár og fram á fullorðinsaldur. Eftir að amma hætti vinnu var hún ávallt með einhver verkefni og sat ekki auðum höndum, hún var mikil handavinnukona og prjónaði eins lengi og hún hafði sjón til. Takk, amma mín, fyrir að kenna mér vinnusemi.
Það skipti ömmu alltaf máli að geta hugsað um sig sjálf. Hún keyrði aldrei bíl sjálf en þess í stað fór hún mikið um gangandi. Hún var sjálfri sér næg og ætlaðist aldrei til neins af öðrum en var alltaf reiðubúin að koma öðrum til hjálpar. Takk, amma, fyrir að kenna mér að vera sjálfstæð kona.
Á sínum efri árum fór amma nokkrar utanlandsferðir, bæði með Hrafnhildi, dóttur sinni, og með eldri borgurum. Þó að hún hafi alltaf verið heimakær var hún heldur ekki hrædd við að stíga út fyrir þægindarammann og lét fátt stoppa sig í að njóta lífsins. Þakka þér, amma mín, fyrir að kenna mér að næra ævintýraþrána og setja mér ekki takmörk.
Hún var mjög tengd fjölskyldunni sinni, börnum, barnabörnum og langömmubörnum, hún hélt alltaf góðu sambandi við systkin sín og frændfólk og lét sér annt um fólkið í lífi sínu. Ég á ófáar minningar með ömmu bæði á Hvolsvelli og í Garðabænum, hún hafði gaman af því að hafa okkur barnabörnin hjá sér og var alltaf tilbúin að gefa okkur tíma sinn og leyfa okkur að gista hjá sér eða koma til að hugsa um okkur og eyða með okkur tíma. Þrátt fyrir háan aldur var hugurinn alltaf skýr og mundi hún alltaf afmælisdaga allra þeirra sem henni voru kærir. Takk, amma, fyrir að sýna mér að tíminn er það dýrmætasta sem ég get gefið fjölskyldunni minni.
Ég gæti skrifað langan pistil um alla þá eiginleika sem ég dáðist að við hana ömmu mína, við fjölskyldan erum lánsöm að hafa átt hana að. Hún skilur eftir sig stórt skarð og á þessum tímamótum lít ég yfir farinn veg, ylja mér við minningarnar og fyllist þakklæti yfir að hafa haft hana í lífi mínu.
Fósturlandsins Freyja,
fagra vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís.
Blessað sé þitt blíða
bros og gullið tár.
Þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár.
(Matt. Joch.)
Ég kveð þig, amma mín, með sömu orðum og þú kvaddir mig alltaf,
„Vertu alltaf blessuð, amma mín.“
Þín,
Ingibjörg.
Amma kær, ert horfin okkur hér,
en hlýjar bjartar minningar þær streyma
um hjörtu þau er heitast unnu þér,
og hafa mest að þakka, muna og geyma.
Þú varst amma yndisleg og góð,
og allt hið besta gafst þú hverju sinni,
þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,
og ungar sálir vafðir elsku þinni.
Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,
þær góðu stundir blessun, amma kæra.
Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá
í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.
(Ingibj. Sig.)
Hvíldu í friði, elsku langamma, takk fyrir allt. Þín,
Andrea Óskarsdóttir.