Evrópumótið í knattspyrnu karla 2016 hefst í kvöld með leik Frakklands og Rúmeníu. Þetta er í fimmtánda sinn sem mótið er haldið, en að þessu sinni á það sérstakan stað í hjörtum íslenskra knattspyrnuaðdáenda, þar sem íslenska karlalandsliðið leikur nú í fyrsta sinn á stórmóti í vinsælustu hópíþrótt heims.
Það hefur verið að mörgu að hyggja í aðdraganda mótsins, og hafa gestgjafarnir frönsku lagt sig í líma við að tryggja að mótið fari sem best fram og öryggisgæsla verði í hámarki, sér í lagi eftir hin skelfilegu hryðjuverk í nóvember síðastliðnum, sem meðal annars beindust óbeint að franska landsliðinu. Gera má ráð fyrir því að miklar tilfinningar muni fylgja mótinu meðal heimamanna, ekki síst ef franska landsliðið nær góðum árangri.
Vert er að hafa í huga að afrek íslenska liðsins er þegar unnið, sama hvernig leikirnir í riðlakeppninni fara. Líklega áttu fæstir von á því að liðinu tækist að tryggja sig beint í lokakeppnina en það tókst með gríðarlegri vinnu, samheldni og öflugri liðsheild. Takist að virkja þá kosti á ný þarf íslenska liðið engu að kvíða. Vitanlega yrði það mikið fagnaðarefni ef bætt yrði í hinn ótrúlega árangur Íslands í undankeppninni, án þess þó að menn láti draumana hlaupa með sig í gönur. Takist það ekki geta bæði leikmenn og stuðningsmenn huggað sig við að liðið hefur þegar náð frábærum árangri, auk þess sem annað mót kemur eftir þetta.
En árangurinn í íslenskri knattspyrnu einskorðast ekki við karlalandsliðið. Kvennalandsliðið er hársbreidd frá því að tryggja sér sæti á Evrópumóti kvennalandsliða í þriðja sinn í röð. Það er markverður árangur hjá konunum okkar og samanlagt staðfestir þetta að vel er staðið að málefnum knattspyrnunnar hér á landi. Miklu skiptir fyrir framtíðina að ungir iðkendur eigi sér fyrirmyndir sem þeir geta litið upp til, og landsliðin okkar tvö uppfylla svo sannarlega það hlutverk.
Mestu máli skiptir þó að landsmenn njóti stundarinnar, hvort sem það verður á völlunum sjálfum, á skipulögðum mannamótum innanlands, heima í stofu eða hvar sem þeir kjósa að upplifa þessa veislu. Því að fram undan er sannkölluð knattspyrnuveisla.