[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lukás Vráblik Dennik N Twitter.com/LukasVrablik Ekki leikur vafi á því að Slóvakía er á uppleið í kjölfar ráðningar Jan Kozak í stöðu landsliðsþjálfara árið 2013, eftir að hafa mistekist að komast á tvö síðustu stórmót.

Lukás Vráblik

Dennik N

Twitter.com/LukasVrablik

Ekki leikur vafi á því að Slóvakía er á uppleið í kjölfar ráðningar Jan Kozak í stöðu landsliðsþjálfara árið 2013, eftir að hafa mistekist að komast á tvö síðustu stórmót. Liðið sýndi góða takta í undankeppninni, vann frægan sigur á Spánverjum og endaði í öðru sæti fyrir ofan Úkraínu. Slóvakar eru erfiðir viðureignar og örðugt er að vinna þá, en vandamál liðsins koma í ljós gegn veikari mótherjum eins og sást í markalausu jafntefli gegn Lettlandi í mars. Slóvakía kann mun betur við sig í hlutverki lítilmagnans og vegna fámenns hóps leikmanna til að velja úr, þurfa helstu breytingar Kozaks að vera taktískar, frekar en á mannskap.

Mikilvægast fyrir Kozak var að ná hinu allra besta úr Marek Hamsik, leikstjórnanda Napoli. Hamsik hefur fengið algjört frelsi í stöðu sóknarsinnaðs miðjumanns í 4-2-3-1 leikkerfinu.

Fyrir aftan Hamsik eru tveir agaðir og áreiðanlegir miðjumenn, Juraj Kucka, leikmaður AC Milan, sem bæði verst og sækir, og hinn varnarsinnaðri Viktor Pecovsky sem er þó ekki enn í sínu besta formi eftir meiðsli.

Ef lokað er á Hamsik

Hamsik var frábær í undankeppninni, markahæstur með fimm mörk, en þessi helsti styrkleiki Slóvakíu er jafnframt helsti veikleiki liðsins. Liðið reiðir sig svo á hinn 28 ára gamla leikstjórnanda að lítil hætta stafar af sókninni ef mótherjanum tekst að útiloka hann. Skiljanlega vill Kozak ekki játa þennan vanda, en í ljósi vandræðanna í framlínu liðsins virðist hann eiga sér stoð. Adam Nemec var aðalframherji liðsins í undankeppninni en hann hefur misst byrjunarliðssætið í Willem II í Hollandi og hinn reyndi Robert Vittek er meiddur. Þá er Michal Duris eini framherjinn sem er í formi, en hann skoraði 16 mörk fyrir Viktoria Plzen á tímabilinu.

Lið Slóvakíu hefur ávallt byggt á traustri vörn og hröðum skyndisóknum. Liðið reiðir sig á snögga vængmenn eins og Vladimir Weiss, Miroslav Stoch og Róbert Mak. Hægri bakvörðurinn Peter Pekarík er einnig fljótur en Slóvakía á erfitt með að stjórna leikjum á móti vel skipulagðri vörn, eins og ljóst varð í jafnteflinu við Lettland.

Varnarmenn ekki í formi

Annað áhyggjuefni fyrir Kozak er form varnarmanna. Þeir voru traustir í undankeppninni, fengu aðeins á sig átta mörk en margir hverjir eru í slæmu formi eða meiddir. Þeirra helstur er Martin Skrtel, leikmaður Liverpool, sem mun að öllum líkindum mætta nokkrum liðsfélögum sínum þegar Slóvakía mætir Englandi í B-riðli.

Enn hafa þeir Pekarik, Norbert Gyomber, Jan Durica og Tomas Hubocan ýmist glímt við meiðsli eða óreglulegan spiltíma, en tæpt var að Hubocan næði að vera með.

Bestir þegar líkurnar eru í óhag

Þótt Slóvakía virðist eiga við allmörg vandamál að stríða fyrir mótsbyrjun taka þeir vandræðunum fagnandi. Liðið spilar best á stóra sviðinu, þegar líkurnar eru þeim í óhag og allt er mögulegt, eins og við höfum nú þegar séð með Kozak við stjórnvölinn. Liðið verður fullt sjálfstrausts og mun berjast til síðasta blóðdropa í von um að ná markmiði sínu og komast upp úr riðlinum.

Líklegt byrjunarlið : Kozácik – Pekarík, Durica, Skrtel, Svento – Hrosovský, Kucka – Weiss, Hamsik, Mak – Duris.