Meistarinn Franska fótboltagoðsögnin Zinedine Zidane lék allan sinn feril í Adidas Predator takkaskóm og því viðeigandi að hann hafi afhjúpað keppnisboltann frá Adidas fyrir Evrópumótið í Frakklandi.
Meistarinn Franska fótboltagoðsögnin Zinedine Zidane lék allan sinn feril í Adidas Predator takkaskóm og því viðeigandi að hann hafi afhjúpað keppnisboltann frá Adidas fyrir Evrópumótið í Frakklandi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sem fyrr er það þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas sem leggur til boltann fyrir Evrópumótið í Frakklandi. Kallast boltinn „Beau Jeu“ að þessu sinni og er það vel: það útleggst sem „hinn fallegi leikur“ eins og fótbolti kallast réttilega um heim allan.

Það ríkir ávallt talsverð eftirvænting eftir þeim viðburði þegar hulunni er svipt af keppnisboltanum fyrir Evrópumótið í fótbolta hverju sinni. Í ár dregur boltinn dám af fánalitum heimaþjóðarinnar, Frakklands, sem eru blár, hvítur og rauður. Það sem virðist tilviljanakennd og jafnvel svolítið kaótísk mynstur eru í rauninni flétta af orðinu EURO og ártalinu 2016, eins og sjá má þegar að er gáð.

Byggist á mynstri Brazuca

Eins og glöggir boltanördar taka sjálfsagt eftir þá er samsetning Beau Jeu (les.„bó sju“) samskonar og á hinum geysilitríka Adidas Brazuca sem notaður var sem keppnisbolti á HM 2014 í Brasilíu. Boltinn er saumaður saman úr 6 hlutum og að sögn sérfræðinga Adidas á hönnunin að tryggja jafnari álagsdreifingu við spark, reglulegra flug boltans, nákvæmari spyrnur fótboltamanna og betri stjórn á honum í það heila. Litasamsetningin er vitaskuld alveg ný af nálinni og nokkuð hófstilltari en hjá forveranum Brazuca. Eins og vant er verður svo sérstök úrslitaleiksútgáfa af Beau Jeu afhjúpuð þegar þar að kemur. Þá er áferðin á yfirborði boltans ný en hún á sömuleiðis að bæta stöðugleika boltans á flugi og auka gripið þegar honum er sparkað til að bæta stýringuna.

Atvinnumenn sáu um prófanir

Alls vörðu nokkrir helstu fótboltamenn heims sem eru á mála hjá Adidas um einu og hálfu ári samanlagt við prófanir á boltanum í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Herzogenaurach í Þýskalandi og var ekki annað að heyra á þeim við afhjúpunina í desember sl. en að þeir væru ánægðir. Gareth Bale, fyrirliði velska landsliðsins og leikmaður Real Madrid, mátaði boltann og reyndi langskot, nákvæmar sendingar og knattrak á harðahlaupum upp völlinn og gaf boltanum bestu meðmæli. Iker Casillas, fyrirliði Spánar og leikmaður Porto, tók í sama streng.

Loks var það einkar viðeigandi að goðsögnin Zinedine Zidane sæi um að afhjúpa boltann, en hann lék allan sinn feril í Adidas.