Jarðbundinn Jonas Hector er nákvæmlega sama um frægðina sem fylgir fótboltanum.
Jarðbundinn Jonas Hector er nákvæmlega sama um frægðina sem fylgir fótboltanum. — AFP
Þýskaland Christoph Biermann 11Freunde twitter.com/chbiermann Þegar rýnt er í tölfræði þýska landsliðsins í lok síðasta árs, kemur í ljós talan 754. Þessi tala vísar í þann leikmann liðsins sem lék flestar mínútur árið 2015.

Þýskaland

Christoph Biermann

11Freunde

twitter.com/chbiermann

Þegar rýnt er í tölfræði þýska landsliðsins í lok síðasta árs, kemur í ljós talan 754. Þessi tala vísar í þann leikmann liðsins sem lék flestar mínútur árið 2015. Talan er kannski í sjálfu sér ekkert sérstök en það er hins vegar ansi áhugavert að skoða nafnið á bak við hana. Flestir sérfræðingar myndu eflaust giska á Mesut Özil eða Manuel Neuer, kannski Toni Kroos eða jafnvel Thomas Müller. En leikmaðurinn sem um ræðir, sá eini sem lék alla níu leiki Þýskalands á árinu og lék flestar mínútur, heitir Jonas Hector.

Jonas Hector?

Vinstri bakvörðurinn frá FC Köln er einn af áhugaverðari leikmönnum í hópnum hjá Joakim Löw, ekki síst vegna þess að þessi tegund af fótboltamanni ætti ekki að vera til lengur. Hector er eini landsliðsmaður Þýskalands sem aldrei hefur eytt tíma í unglinga-akademíu, þar sem hann lék með fimmtu deildarliði SV Auersmacher til tvítugs. Hann lék sinn fyrsta leik í annarri deild 22 ára og í Bundesligunni tveimur árum síðar, árið 2014. Sama ár lék hann sinn fyrsta landsleik, eftir aðeins 10 leiki í efstu deild. Jonas Hector er hinn þýski Jamie Vardy – án ökklabands auðvitað.

Lygileg leið á toppinn

Saga Hectors er á þessa leið: þú getur tekið strákinn úr þorpinu en þú getur ekki tekið þorpið úr stráknum. Í samtölum er Hector kurteis og hæverskur og svo virðist sem hans æðsta markmið sé að láta lítið fyrir sér fara.

Hann kemur frá Auersmacher, 2.800 manna smábæ í Saarland, nálægt frönsku landamærunum. Hæfileikar hans vöktu fljótt athygli en Hector tók þá ákvörðun að semja við FC Saarbrücken, sem er stærsta lið héraðsins, með það fyrir augum að komast í unglingastarf félagsins. „Ég var ánægður í Auersbacher og svo langaði mig að halda áfram að spila fótbolta með vinum mínum.“ Það hljómar nánast þannig að Hector vilji frekar leika fótbolta í afdölum en með Þýskalandi á EM. „Í þá daga leyfði ég mér ekki að dreyma um að leika í Bundesligunni.“

Hann beið með að yfirgefa heimabæinn, þar til hann var orðinn tvítugur og sumarið 2010 fór hann til FC Köln til að leika með varaliði félagsins í fjórðu deildinni. Köln vildi staðfesta vistaskiptin strax í janúar en Hector vildi ekki yfirgefa vini sína á miðju tímbili.

Í Köln byrjaði hann sem skapandi miðjumaður en fór að lokum aftar á miðjuna í varnarsinnað hlutverk. Tveimur árum síðar lék hann sinn fyrsta leik með aðalliðinu en þá í stöðu vinstri bakvarðar, stöðu sem hann leikur í landsliðinu. Phillip Lahm lék um árabil í þessari stöðu í landsliðinu en færði sig að lokum í aðrar stöður á vellinum. Þar með var stórt skarð hoggið í stöðu vinstri bakvarðar og sumir vilja meina að uppgang Hectors megi skýra með því að landsliðsþjálfarinn hafi í raun fáa aðra valkosti.

Einstakur leikmaður og manneskja

Christofer Clemens, sem er í þjálfarateymi þýska landsliðsins, hefur hins vegar þetta að segja um Hector: „Hann skilur leikinn.“ Ekki amaleg meðmæli það.

Þeir sem vinna að þjálfun landsliðsins segja það ekki opinberlega en þeir elska Jonas Hector. Ekki vegna þess að hann er besti leikmaður heims, heldur vegna þess hversu áreiðanlegur hann er. Hector er leikmaður sem þekkir sínar takmarkanir og er alltaf tilbúinn að læra og bæta sig.

„Ég hef aldrei hitt svona náunga, hvorki sem leikmaður né þjálfari,“ segir Peter Stöger, þjálfari hans hjá Köln. Þar elska þeir hann líka, ekki síst þar sem honum er nákvæmlega sama um frægðina sem fylgir fótboltanum.

Þegar hann er ekki að leika knattspyrnu, lærir Hector viðskiptafræði til að leiða hugann að einhverju öðru. „Það er gott að hafa eitthvað sem dreifir athyglinni,“ segir Hector. Hann er líka einn af fáum fótboltamönnum sem eru ekki á Facebook, Twitter, Instagram og öðrum samfélagsmiðlum. „Ég vil frekar hafa hlutina lágstemmda og hef lítinn áhuga á því að vera sýnilegur á internetinu. Það er ekki alveg minn tebolli.“ Hann er reyndar afskaplega jarðbundinn maður og aðspurður hvaða þægindi hann leyfi sér í daglegu lífi, svarar hann „stærra sjónvarp“, hugsar sig örlítið um og bætir við,„stærra rúm“.

Sparar til mögru áranna

„Ég er bara að reyna að lifa sama lífi og ég gerði í Auersmacher. Ég reyni að spara peningana mína í stað þess að spreða þeim um allar jarðir,“ bætir Hector við. Vinir hans frá Auersmacher eru ennþá vinir hans í dag og reyndar hans helstu aðdáendur líka. Þeir keyra yfirleitt 300 kílómetra leið til Köln á heimaleikina og reyna að komast á alla útileiki líka, svo lengi sem það skarast ekki við leikjadagskrá SV Auersmacher. Þeir þurfa þó ekki að hafa neinar áhyggjur af því að lenda í slíkum vandamálum í sumar. Þegar Evrópukeppnin byrjar í Frakklandi, verða þeir á svæðinu.

Þjóðverji skrifar um Hector

Þjóðverjar eru ríkjandi heimsmeistarar en hafa þó ekki unnið Evrópumeistaratitilinn í tuttugu ár. Þeir sigruðu í þriðja sinn árið 1996 og áður 1972 og 1980. Þá léku þeir til úrslita 1976, 1992 og 2008. Þjóðverjar mæta Úkraínu í fyrsta leik sínum í C-riðli á EM á sunnudaginn en í sama riðli eru Pólland og Norður-Írland.

Christoph Biermann, blaðamaður hjá þýska knattspyrnutímaritinu 11Freunde, skrifaði meðfylgjandi grein um vinstri bakvörðinn Jonas Hector, leikmann Köln.

Greinin er hluti af samstarfi Morgunblaðsins og 23 fjölmiðla í jafnmörgum löndum sem eiga lið á EM en að undanförnu hafa birst í blaðinu sambærilegar greinar um leikmenn frá Portúgal, Ungverjalandi, Austurríki, Norður-Írlandi, Frakklandi og Spáni sem landar þeirra skrifa.

Jonas Hector
» Hann er 26 ára gamall, fæddur 27. maí 1990 í Saarbrücken.
» Hann lék með SV Auersmacher frá átta ára aldri til ársins 2010. Síðan með varaliði Kölnar í þrjú ár og aðalliðinu frá 2012.
» Hector lék sinn fyrsta landsleik í nóvember 2014 en hann á nú 14 landsleiki að baki og hefur skorað eitt mark.