Píratar Aðalfundur hefst á morgun. Myndin var tekin á aðalfundi 2015.
Píratar Aðalfundur hefst á morgun. Myndin var tekin á aðalfundi 2015. — Morgunblaðið/Þórður
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Píratar halda aðalfund um helgina. Fundurinn verður settur um hádegi á morgun í Rúgbrauðsgerðinni í Reykjavík. Fundinum á svo að ljúka kl. 18.00 á sunnudag. Búist er við um 150 fundargestum.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Píratar halda aðalfund um helgina. Fundurinn verður settur um hádegi á morgun í Rúgbrauðsgerðinni í Reykjavík. Fundinum á svo að ljúka kl. 18.00 á sunnudag.

Búist er við um 150 fundargestum. Skráðir gestir hafa forgang að fundargögnum, sætum og veitingum. Fundurinn er öllum opinn svo lengi sem húsrúm leyfir. Fólk getur skráð sig til þátttöku á heimasíðu Pírata (piratar.is). Einnig er hægt að skrá sig við komuna á fundinn. Húsið verður opnað kl. 11.00 á morgun.

Á dagskrá aðalfundarins er m.a. Pírataskóli, kynning á starfsmönnum flokksins og grasrót Pírata. Þá mun framkvæmdaráð fara yfir árið og greina frá skýrslu stjórnar og fjármálum. Þá munu borgarfulltrúi og þingflokkurinn vera með framsögu á fundinum.

Kosið verður nýtt sjö manna framkvæmdaráð á fundinum og jafn margir til vara. Framkvæmdaráðið ber ábyrgð á rekstri félagsins. Fimm aðalmenn og jafn margir varamenn eru kosnir úr hópi fólks sem hefur gefið kost á sér til setu í framkvæmdaráðinu og skilað inn hagsmunaskráningu. Síðan eru tveir aðalmenn og tveir varamenn slembivaldir úr hópi fundarmanna og annarra sem gefa kost á sér í slembivalið. Einnig verða kosin úrskurðarnefnd og trúnaðarráð, þrír fulltrúar í hvora nefnd.

Auk þess verða afgreiddar lagabreytingatillögur sem liggja fyrir fundinum.

Aðalfundur Pírata er haldinn á hverju ári og ber að halda hann fyrir lok september. Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, sagði að ákveðið hefði verið að flýta fundinum nú vegna alþingiskosninga í haust.