EM-torgið Ingólfstorgið er að verða klárt fyrir útsendingar á breiðtjaldi.
EM-torgið Ingólfstorgið er að verða klárt fyrir útsendingar á breiðtjaldi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Á sama tíma og íslenska knattspyrnulandsliðið leggur lokahönd á undirbúning sinn fyrir Evrópumótið í knattspyrnu býr samfélagið á Íslandi sig einnig undir knattspyrnuveisluna. Af því tilefni hefur verið m.a.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Á sama tíma og íslenska knattspyrnulandsliðið leggur lokahönd á undirbúning sinn fyrir Evrópumótið í knattspyrnu býr samfélagið á Íslandi sig einnig undir knattspyrnuveisluna. Af því tilefni hefur verið m.a. verið sett upp EM-torg á Ingólfstorgi þar sem knattspyrnuáhugamenn geta fylgst með leikjunum á risatjaldi auk þess sem stöðug dagskrá verður meðan á mótinu stendur.

Þá má nefna það að hægt verður að horfa á valda leiki í Gamla bíói, sem nefnt verður EM-höllin meðan á mótinu stendur.

Í Annecy í Frakklandi undirbýr knattspyrnulandsliðið sig eftir fremsta megni. Í kringum liðið eru hvorki fleiri né færri en 23 starfsmenn, jafn margir og leikmennirnir í hópnum. Má þar m.a. nefna þrjá sjúkraþjálfara, tvo lækna, fimm njósnara og einn kokk.

Að sögn Ómars Smárasonar, upplýsingafulltrúa KSÍ, má búast við því að 50 blaðamenn muni fylgja landsliðinu í mótinu, þar af um helmingurinn erlendir blaðamenn.

Fundar með liðinu um matinn

Einar Björn Árnason, kokkur landsliðsins, hefur yfirumsjón með mataræði leikmanna og segir aðspurður að hlutverk hans sé að tryggja gæði matarins. „Að tryggja það að vel sé gengið frá hráefninu til að þeir fái hollan og fjölbreytilegan mat,“ segir Einar, en hann hefur yfirumsjón með kokkunum á hótelinu í Annecy sem dvalið er á. „Ég fundaði með liðinu þar sem ég tilkynnti að ég væri þarna fyrst og fremst fyrir hönd strákanna. Starfsfólkið á hótelinu ber gríðarlega virðingu fyrir mér og ég reyni að bera sömu virðingu fyrir því,“ segir Einar Björn og bætir við: „Það veitir því öryggi að ég sé með og að það sé verið að spá í þetta,“ segir Einar. Hann var liðinu einnig innan handar í undankeppninni. „Mesta reynslan fyrir mig var að fara til Tyrklands því þar var ég með fjóra til fimm kokka með mér, en enginn þeirra talaði ensku. Það var tiltölulega erfitt að útskýra hráefnið með hljóðum og leikrænum tilburðum,“ segir Einar og hlær. Hann segir að stöku sinnum geri strákarnir sérstakar kröfur. „Þá verð ég við þeim. En aðalmálið er að hráefnið sé í lagi og að þetta sé ferskt. Megnið af vinnu minni var búið þegar ég fór út því undirbúningurinn snýr að því að raða saman réttu magni af fitu, próteini og kolvetni,“ segir Einar. Til þess fékk hann næringarfræðing til að aðstoða sig. Spurður hvort hann passi upp á það að enginn fari á McDonald's þegar þeir fá frídag segir hann það óþarfi. „Það gerir það enginn, þeir eru svo hrifnir af matnum mínum,“ segir Einar og hlær.

Stefnir í metatkvæðagreiðslu

Í gær opnaði Perlan fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu í forsetakosningunum. Samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórn eru óvenju margir búnir að kjósa utan kjörfundar. Sem dæmi má nefna að um 315 höfðu kosið um miðjan dag í gær og í heild hafa um 2.500 manns kosið. Ku það vera viðkvæði margra að þeir hyggist fara á Evrópumótið í knattspyrnu og því séu þeir að kjósa svo snemma. Kosningarnar fara fram 25. júní og samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórn hafa aldrei eins margir kosið svo löngu fyrir kosningar. Hins vegar þarf þó að gera þann fyrirvara á tölunum að nú kýs allt höfuðborgarsvæðið saman ólíkt sem var í forsetakosningu 2012 þegar Reykjavík var sér kjördæmi.