Stefanía Ágústsdóttir fæddist að Ásum í Gnúpverjahreppi 12. nóvember 1924. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 21. maí 2016.

Hún var dóttir hjónanna Kristínar Stefánsdóttur frá Ásólfsstöðum og Ágústs Sveinssonar, sem fluttist ungur með foreldrum sínum frá Syðra-Langholti að Ásum. Stefanía var yngst þriggja systkina; eldri voru Þorvaldur, fæddur 1919, og Sveinn, fæddur 1923. Fóstursystkini hennar voru Guðbjörg Einarsdóttir, fædd 1921, Stefán Bjarnason, fæddur 1908 og Aðalheiður Hulda Björnsdóttir, fædd 1916. Þau eru öll látin.

Stefanía var glaðsinna og félagslynd, og lét til sín taka í leik og starfi. Hún var í hópi fyrstu kvenna sem tóku ökupróf í Árnessýslu. Ung gekk hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og mat þá dvöl mikils. Hún var um árabil í stjórn Kvenfélags Gnúpverja, sem henni þótti alla tíð vænt um, og lagði margvíslegum líknarmálum lið. Hún þótti eftirminnileg leikkona á yngri árum, raddfögur, sköruleg og einbeitt.

Hinn 24. maí 1947 giftist hún Guðmundi Ámundasyni frá Sandlæk, f. 17. september 1913, d. 23. janúar 2004. Þau eignuðust fjögur börn: 1) Ágúst, f. 30. apríl 1948. Kona hans er Vaka Haraldsdóttir, f. 29. ágúst 1952. Þau eiga tvo syni, Stefán Má og Harald. 2) Halla, f. 27. febrúar 1951. Maður hennar er Viðar Gunngeirsson, f. 27. september 1949. Þau eiga Hauk Vatnar, Álfheiði og Guðmund Val. 3) Stefán, f. 21. maí 1956. Kona hans er Katrín Sigurðardóttir, f. 1. september 1957. Þeirra börn eru Halla Steinunn, Hrafn, Sigurður Hallmar, Viðar, Guðmundur og Birgir. 4) Kristín, f. 10. maí 1961. Dóttir hennar og Sigmundar G. Sigurjónssonar er Ingunn Ásta. Sonur hennar og Valdimars Ó. Jónassonar er Jónas Ingi.

Stefanía og Guðmundur bjuggu allan sinn búskap að Ásum í Gnúpverjahreppi. Þau eiga blómlegan hóp afkomenda sem nú sakna vinar í stað. Stefanía var eftirminnileg söngkona, og átti farsælan feril í mörgum kórum á langri ævi, einnig sem einsöngvari. Þau hjónin sungu í Söngfélagi Stóra-Núpskirkju í meira en hálfa öld.

Útför Stefaníu fer fram frá Stóra-Núpskirkju í dag, 10. júní 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

Það var á yndislegri vornóttu fyrir 47 árum að tveir galsafullir unglingar komu af balli heim að Ásum.

Ég var að gera hosur mínar grænar fyrir fallegu heimasætunni en hafði aldrei komið heim til hennar áður. Allt í einu opnast dyr og Stefanía stendur á ganginum. Hún átti ekki von á okkur – og við ekki á henni. Það sljákkaði aðeins í okkur og Halla sagðist hafa komið með næturgest. „Ég sé það. Verst að ég var ekki í nýja náttkjólnum,“ sagði hún sposk, fór inn til sín og lokaði á eftir sér.

Þessi töffari átti eftir að verða tengdamóðir mín. Aldrei gaf hún annað upp en að henni hefði litist vel á þennan renglulega ungling. Við urðum miklir vinir, og einu sinni bjargaði hún lífi mínu með næmi sínu á líðan annarra. Það er geymt en ekki gleymt.

Við fluttum að Ásum haustið 1976 með nýfæddan son, fyrst til vetrarvistar, en nú eru árin orðin 40. Það var ómetanlegt að amma og afi bjuggu handan gangsins og amma skammaði aldrei, sagði bara til, hafði alltaf tíma, hrósaði og hvatti. Heimili hennar var alla tíð fullt af fólki – börnum, barnabörnum, sumarbörnum, fósturbörnum og allir nutu kærleika hennar og jákvæðs lífsviðhorfs. Að ekki sé talað um alla gestina, bæði fyrr og síðar. Við eldhúsborðið hennar var jafnræði, glaðværð og hlýja. Og bannað að tala illa um náungann. Einu skiptin sem ég sá henni renna í skap var það mest af hryggð og sorg yfir heimsku mannanna sem fara illa með náttúruna og guðs gjafir – náttúruvernd var henni hjartans mál.

Ég hafði verið mörg ár í sveit en Stebba kenndi mér að búa. Það var háskóli að mjólka með henni, að sjá hvernig hún umgekkst skepnur, skildi þær og var í raun ólærður dýralæknir eins og fleiri í hennar ætt. Þau hjónin kenndu mér margt, ekki bara í búskap. Þau tóku mig með sér í kirkjukórinn, sungu hvort öðru betur og kunnu öll lög og alla sálma – mér er nær að halda að þau hafi kunnað allar raddsetningarnar.

Stebba var að mörgu leyti frumkvöðull. Hún var einlægur talsmaður jafnréttis á öllum sviðum og þoldi ekki að talað væri niður til fólks sem var „öðruvísi“. Hún fór á fjall fyrst kvenna 18 ára gömul, tók ökupróf kornung og var fyrsta konan til að ganga í hestamannafélagið. Hún elskaði hesta og var mjög næm hestamanneskja. Uppáhaldshryssa, sem Freyja var kölluð, kastaði en gat ekki mjólkað folaldinu, sem nefnt var Glói. Nú voru góð ráð dýr. Stebba blandaði af hyggjuviti sínu mjólkurblöndu eins og handa nýfæddu barni; vaknaði til hans og gaf honum á þriggja tíma fresti fyrstu vikurnar. Þetta tókst svo vel að Glói varð mikill gæðingur og tókst með okkur gott samkomulag um hestinn. Ég reið honum og hún horfði á. Ég veit ekki hvort var montnara, ég eða hún, þegar ég reið fyrir eldhúsgluggann. Ég fór svo til hennar, kyssti hana og þakkaði hestlánið, þótt ég hefði hann eins og ég ætti hann. Það þótti okkur báðum gaman.

Ég þakka þér fyrir allt gott og fallegt sem þú gafst mér af örlæti. Takk fyrir hestlánið, elsku Stebba mín.

Nú mátt þú.

Viðar Gunngeirsson.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók)

Þessa litlu bæn fór hún amma mín, Stefanía Ágústsdóttir, oft með, með mér, þegar ég var lítill drengur og gisti hjá henni. Þá sat hún á rúmstokknum hjá mér og spjallaði við mig áður en ég fór að sofa, svo báðum við bænirnar og svo söng hún sálma á meðan ég var að líða inn í draumalandið. Og fyrir myrkfælinn dreng var ekkert betra en að vita af litla kertinu sem logaði á fram í eldhúsi. Þetta var heldur ekkert venjulegt kerti. Með því gat hún nefnilega sent hverjum sem á þurfti að halda birtu og yl. Þeir voru margir. Því að amma átti alltaf birtu og hlýju handa öllum og í eldhúsið til hennar voru allir velkomnir. Og þó svo að kræsingarnar sem hún reiddi fram hafi ætíð verið eins og handa kónginum þá var það nærvera hennar sem var best af öllu.

Amma sá alltaf það góða í öllum og sagði sjaldan styggðaryrði um nokkurn mann. Samt var stutt í glettnina hjá henni því hún var hinn mesti grallari en hún fór bara mjög vel með það. En glampann í augunum á henni og dillandi hláturinn kannast allir við sem þekktu hana.

Elsku amma Stebba, nú er ljósið þitt slokknað og þið afi farin að syngja aftur saman, en það lýsir enn í hjörtum þeirra sem þekktu þig. Þú ert ein af fyrirmyndum mínum í lífinu. Takk.

Haukur Vatnar Viðarsson.

„Þegar ég er orðin stór ætla ég að vera með stór brjóst og stórar hendur og baka kleinur eins og amma.“ Ég var ekki gömul þegar ég tilkynnti þetta, enda hefur amma alltaf verið ein af mínum stærstu fyrirmyndum.

Það er algjörlega ómetanlegt að hafa alist upp hinum megin við ganginn frá ömmu og afa. Alltaf gat ég farið til ömmu ef mig vantaði eitthvað. Ég fór líka oft yfir til ömmu til að vera „ein“. Þá bjó ég mér til legubekk úr borðstofustólunum, raðaði undir mig púðum, breiddi yfir mig teppi, drakk vatn úr fallegu glasi með fæti – og hlustaði á óperur.

Amma var trúuð og ég fór að safna englum eins og amma, því hún sagði alltaf að englarnir vöktu yfir okkur. Hún kenndi mér að biðja bænirnar, hún lá oft upp í hjá mér hlý og mjúk, og ennþá bið ég bænirnar í sömu röð og hún kenndi mér. Alla romsuna. Ég fór stundum með ömmu og afa til kirkju þar sem þau sungu með kórnum og ef þau komust ekki í kirkju hlustuðu þau á messu í útvarpinu og sungu með hverjum einasta sálmi, og oft fannst þeim ekki veita af að laga sönginn. Við kveikjum á kerti eins og amma ef einhver er í prófum eða á um sárt að binda.

Aldrei held ég að ég hafi séð ömmu reiða og aldrei hallmælti hún nokkrum manni, nema þeim sem vildu eyðileggja landið. Amma vildi alltaf vera vel til höfð og allt fram á síðasta dag setti hún á sig bleika varalitinn sinn áður en hún fór fram í kaffi. Hún átti alltaf mola til að stinga upp í litla munna og það var svo gott að skríða í hlýtt fangið á henni ef manni leið eitthvað illa. Hún hlýjaði kaldar hendur og kyssti á smæstu sár. Hún hafði einstakt lag á því að finna út hvernig hægt væri að láta öllum líða betur, hvort heldur menn eða skepnur.

Amma var alltaf að baka eitthvað gott. Mér fannst svo gaman að fá að hjálpa til við baksturinn, þótt hjálpin hafi oftast falist í því að borða kræsingarnar. Við hjálpuðum ömmu að snúa við kleinunum, enda var ég sannfærð um að ég gerði það betur en afi. Að launum fengum við nýbakaðar kleinur og ískalda mjólk. Það var líka svo notalegt þegar við komum köld og svöng heim úr skólanum að fá að borða beint upp úr kæfupottinum eða nýeldaðan „kúlugraut“ með kanilsykri.

Ég var líka svo heppin að Ásta frænka var mjög mikið hjá ömmu og við vorum alltaf saman. Við tíndum blóm handa ömmu og fórum með henni í gönguferðir. Seinna fékk hún að hafa áhyggjur af okkur þegar við fórum að fara í langa reiðtúra á kvöldin með krökkunum í sveitinni, og svo þegar við fórum að stunda sveitaböllin. Ég held að amma hafi aldrei farið að sofa fyrr en hún heyrði að við vorum komnar heim.

Amma var svo glöð að ég skyldi ná mér í góðan mann. Hún og Jón áttu oft gott spjall yfir kaffibolla, því að amma var alltaf með heitt á könnunni. Það er líka ómetanlegt að börnin okkar hafi fengið að kynnast langömmu sinni.

Nú er amma komin í Sumarlandið til afa og getur hleypt á skeið á honum Glóa sínum yfir gullna akra og blómabreiður.

Ég ætti kannski að hnýta á mig svuntuna sem hún átti og athuga hvort ég kunni að baka kleinur – eins og amma.

Álfheiður Viðarsdóttir.

Ég finn fyrir stolti þegar ég nálgast Ása, stolti sem ég finn í brjóstinu er ég segi frá því að ég sé barnabarn sómafólksins Stefaníu og Guðmundar í Ásum. Það kemur ekki til af engu því amma og afi eru góðar fyrirmyndir um ótalmargt. Þau eru fyrirmyndir mínar í kennarastarfinu og í uppeldi barna minna. Amma og afi voru líka fyrirmyndarhjón með gott skipulag og jafnvægi á hlutunum, stundum ólík en alltaf samstiga og saman í liði. Þau hófu hvern dag á minnst tíu kossum og kærleiksríku faðmlagi í miðju eldhúsinu. Svo tóku þau lýsið saman við eldhúsvaskinn til að viðhalda sjón og heilsu. Þar á eftir drukku þau morgunkaffið. Alltaf eins, alla morgna. Eftir vinnudaginn fóru þau saman í háttinn, hann með þykku sængina og háa koddann og hún þá þunnu og svæfilinn. Allt vill lagið hafa.

Hlýjan á milli okkar var til staðar frá upphafi, ég var alltaf svo innilega velkomin. Ég bjó í Ásum fyrsta æviárið og var mikið hjá ömmu og afa fram á fullorðinsár. Þannig voru amma og afi mér sem aðrir foreldrar og höfðu mikil áhrif á lífssýn mína og gildi. Það er ómetanlegt fyrir börn að alast upp við svo jákvæða speglun á sig sjálf eins og ég naut hjá afa og ömmu. Þau voru gæfan í lífi mínu.

Við amma héldum miklu og góðu sambandi alla tíð og fyrir það er ég afskaplega þakklát. Amma hló hátt og innilega með mér, þerraði tár, gaf mér mola ef ég grét undan eldri hersingunni og sagði þeim stóru að vera góð við þá yngstu. Hún var spaugari, ég settist til dæmis síðast í fangið á henni eins og barn fyrir um það bil fimm árum þar sem hún sat í stólnum sínum í eldhúsinu og við hlógum dátt að uppátækinu. Amma trúði á hið góða í fólki og það hefur oft fleytt mér langt í samskiptum. Trúna á sjálfa mig hlaut ég í veganesti í Ásum.

Amma eldaði iðulega allt sem mig langaði í þegar ég kom í heimsókn. Pottana mátti ég samt helst ekki snerta, ég gæti brennt mig! Ég sá því um að borða, hún eldaði, bakaði og skenkti. Svo sneri ég tveimur kílóum þyngri til baka! Alltaf eins í hverri heimsókn. Fyrirsjáanleikinn hentaði okkur báðum vel, við vissum alltaf hvar við höfðum hvor aðra. Umhyggju sína yfirfærði hún svo á börnin mín þrjú og Jónsa þegar þau komu til sögunnar.

Ég þakkaði ömmu fyrir góða helgi og horfði í augu hennar. Hún hélt um hendur mínar með báðum höndum, þakkaði mér fyrir komuna. Ég hlustaði á orðin en það sem ég sá í augum hennar skipti meira máli. Það var lífsreynslan, gleðin, móðurástin. Hún sýndi alltaf í verki hvað henni þótti óskaplega vænt um mig.

Í dag fylgi ég henni síðasta spölinn með þakklæti í hjarta, reyni að vera hnarreist eins og hún á tröppunum þegar hún horfði á eftir mér úr hlaði. Ég veifa til hennar brosandi, bið hana fyrir kærar kveðjur til elsku afa og allra þeirra sem taka á móti henni hinum megin. Það verður heldur betur góðra vina fundur! Þangað til við hittumst á ný, elsku amma mín,

Stýr minni hönd að gjöra gott,

að gleði´ég öðrum veiti,

svo breytni mín þess beri vott,

að barn þitt gott ég heiti.

(Valdimar Briem)

mbl.is/minningar

Ingunn Ásta Sigmundsdóttir.

Ég var svo lánsamt barn í Reykjavík að eiga foreldra sem uxu upp úti á landi. Móðir mín, Guðbjörg Einarsdóttir, var alin upp hjá föðurbróður sínum, Ágústi Sveinssyni, og konu hans, Kristínu Stefánsdóttur í Ásum í Gnúpverjahreppi. Þó að hún ætti ekki kost á því að búa hjá foreldrum sínum var hún svo lánsöm að eignast þrjú fóstursystkin, Þorvald, Svein og Stefaníu. Þær Bagga og Stebba urðu afar samrýndar systur og vinkonur þó að aldursmunurinn væri þrjú og hálft ár. Kristín, móðir þeirra, sagði að þeim hefði aldrei orðið sundurorða og það staðfestu þær báðar. Þó grunar mig að þeir Sveinn og Valdi hafi alveg látið sig hafa það að stríða systrum sínum og að mamma hafi stundum strítt strákunum.

Mitt lán var að alast upp við það að fara að Ásum, fá að dvelja þar tíma og tíma frá því að ég fæddist. Tíu ára gamall var ég farinn að vera þar í sveit, sem þýddi að ég var talinn gera eitthvert gagn, t.d. sækja og reka kýrnar, að gefa þeim mél, moka flórinn og fljótlega kunni ég að ná mjólk úr spena þó að aldrei næði ég þeim hraða við handmjaltir sem Stebba og mamma höfðu.

Stebba var húsmóðir á mannmörgu sveitaheimili þar sem gestrisni var í fyrirrúmi og þar var gestkvæmt. Sem barn gerði ég mér áreiðanlega ekki grein fyrir hve mikið álag hefur verið á þessari húsmóður sem var alls staðar til reiðu. Það voru ekki aðeins heimilisstörf, í Ásum var einnig símstöð, sem vissulega þurfti að sinna. Mjaltir hvíldu mikið á húsmóðurinni og að sjá til þess að kartöflur væru settar niður og teknar upp. Það voru ekki margar stundir sem gáfust til að setjast niður, ég man varla eftir því að Stebba sæti til borðs með okkur hinum þegar mest var umleikis.

Seinna þegar um hægðist í búskapnum birtist mér önnur hlið á Stebbu, ég var orðinn fullorðinn og hafði líklega þroskast eitthvað. Þá uppgötvaði ég að hún var einstakur skepnuhirðir, hún þekkti dýrin sín, hafði yndi af hrossum og skynjaði líðan kúnna. Hún var farin að tjá sig um þjóðfélagsmál. Henni var umhugað um náttúruna og landið, henni var ekki sama um hvernig stjórnvöld ætluðu að fara með landið hennar, Þjórsárver og Þjórsá, og henni rann til rifja sú skammsýni sem var á ferðinni þegar Kárahnjúkastífla var byggð.

Ég þakka fyrir sælustundirnar sem ég átti með Stebbu í Ásum við eldhúsborðið hennar með kaffi sem aldrei brást og heimabakað rúgbrauð og kæfu. Ég þakka fyrir vináttuna og hlýja kímna brosið sem ég fékk þegar hún heyrði röddina mína og hún sagði; „Ert þetta þú, Þorsteinn minn?“

Ég votta öllum ættingjum og vinum Stebbu í Ásum samúð mína, blessuð veri minning hennar.

Þorsteinn Ólafsson.

Föðursystir mín og fóstra, Stefanía Ágústsdóttir, var einstök kona sem hafði mikil áhrif á líf mitt. Við systkinin áttum því láni að fagna í æsku að dveljast að sumarlagi hjá Stebbu frænku, eins og hún var einatt kölluð, og Guðmundi Ámundasyni, eiginmanni hennar. Barnahjörðin á Ásum var stór þessi sumur, við aðkomukrakkarnir í bland við börn hjónanna, ys og þys frá morgni til kvölds. Öllum var sinnt af alúð, þar sem saman fór holl hræra vinnusemi, hóflegs aga og ómælds kærleika. Síðar meir, þegar mesti æskugalsinn var runninn af okkur krökkunum, áttuðum við okkar á því hvílíkt veganesti kynnin af þessum mannkostahjónum voru. Þau kenndu okkur ekki hvað síst að meta þá óþrjótandi auðlegð sem hversdagsleikinn hefur upp á að bjóða.

Þá er ótalin íslenskukennslan við háskóla eldhússborðsins í Ásum þar sem ungu fólki var gert ljóst að jafnmiklu skipti að virða lögmál íslenskrar tungu og að standa vel að verki. Lagt var að jöfnu að fara rétt með vísur Egils Skallagrímssonar og að fara rétt að hrossi, góð málkennd var metin að jöfnu við gott verklag og okkur var hrósað fyrir gagnyrt tungutak. Ágúst afi gekk vasklegast fram í kennslunni og varð ekki beint frýnilegur á svip ef okkur krökkunum varð á að beygja vitlaust eða fara rangt með tilvitnun í fornbókmenntirnar. Stebba frænka gerði svo gott úr öllu með mildi sinni og kímni. Þegar litið er um öxl á þessa veröld sem var, hvarflar að sú hugsun að einmitt svona hafi íslensk tunga haldið velli í danósa heimi. Íslenskan átti sér athvarf í sveitum landsins þar sem saman fór að yrkja mál og jörð. Sá menningararfur verður seint metinn að verðleikum.

Það þarf sterka skaphöfn til að slaka hvergi á kröfum til sjálfs sín. Eftir á að hyggja er erfitt að skilja hvernig Stebba frænka megnaði að sinna öllum þeim störfum sem hún gegndi, innan dyra sem utan. Hún gekk hljóðlega frá einu skylduverki til annars og vékst aldrei undan ábyrgð. Ofan á alla vinnuna bættust við eilífar áhyggjur af velferð okkar krakkanna í tæri við vélvæddan landbúnaðinn. Engu að síður var hún óþrjótandi uppspretta gæsku og visku sem við krakkarnir löðuðumst einatt að. Umhyggja hennar var slík að á mótunarárum bernskunnar rann Stebba frænka einhvern veginn saman við hugmyndina um móður jörð. Í hugarheimi mínum er hún æ síðan magna mater, hin mikla móðir okkar allra og í senn persónugervingur yndislegs gróandans í Ásum, eins og hann birtist í blágresinu í Ranabrekkunni eða snarrótarpunti í Vetrarmýrinni.

Fyrir nokkrum árum ræddum við hjónin við Stebbu frænku um lífið og tilveruna. Hún sagði á sinn blíða hátt: „Mér hefur farnast afar vel í lífinu. Mér fellur vel við allt fólk og ég veit ekki um nokkurn sem er illa við mig.“ Þannig mælti kona sem lifa mun að eilífu í hjörtum okkar sem hana þekktu.

Jón Þorvaldsson.

Það var alltaf tilhlökkunarefni að fara til sumardvalar í Ásum. Við systkinin fórum fyrst í klippingu í Kirkjustrætinu og þaðan var haldið í Geysi til að kaupa strigaskó. Á leiðinni austur kenndi pabbi okkur svo nöfnin á fjöllunum og bæjunum. Þegar farið var að styttast á áfangastað kepptum við Jón um hvort okkar yrði fyrst til að sjá heim að Ásum. Sveitalyktin kom svolítið á óvart en gleymdist strax og svo var örlítið kvíðvænlegt að þurfa að heilsa öllum.

Um leið og komið var inn í eldhúsið varð allt gott og eins og það átti að vera. Þar tók Stebba frænka á móti okkur brosmild, önnum kafin, hlý og örugg. Amma sat við borðsendann með kóngabrjóstsykur í vasanum og dísætt kaffi innan seilingar. Afi sinnti símstöðvarskyldum sínum, skýrmæltur og ákveðinn og Gummi laumaði út úr sér einhverju meinfyndnu með brosglampa í augunum.

Í þessum heimi var gott að vera og sumarið leið hratt. Frændsystkinin og hin sumarbörnin skemmtileg og góð, nóg að gera jafnt í leik og starfi og minningarnar ómetanlegur sjóður sem aldrei þrýtur.

Eftir að ég óx úr grasi gerði ég mér betur grein fyrir hvað Stebba frænka átti stóran þátt í að gera þennan tíma svona góðan. Það er ekki sjálfgefið að börnum líði vel fjarri heimahögum sínum, hvað þá þegar þau koma inn á mannmargt heimili þar sem mikið er að gera og fleiri börn sem þarf að sinna. Það þarf að stýra verkinu, hafa góða yfirsýn, rétta innstillingu og skýra stefnu. Þetta hlutverk leysti hún af hendi eins og framúrskarandi nútímastjórnandi gæti verið fullsæmdur af eftir langt og strangt nám og þjálfun í útlöndum.

Hægt væri að skrifa mikið um pönnukökurnar, kæfuna og brauðið hennar góða, en þrátt fyrir mikla færni í matseld og bakstri þá er hún fjarri því sem stendur upp úr í minningunni um Stebbu. Fyrir utan það að vera yndisleg frænka og góð manneskja sem skipti aldrei skapi og tók mér og mínum alltaf vel, var hún afburðaframkvæmdastjóri. Hún var mannþekkjari sem kunni að hvetja og ná fram því besta og treysti okkur til góðra verka í stað þess að vera með aðfinnslur og umvandanir. Ef henni mislíkaði sást það á svipnum og það var alveg nóg. Hún var traust, stöðug, réttsýn og mikil fyrirmynd. Takk fyrir allt, elsku Stebba frænka.

mbl.is/minningar

Steinunn Kristín

Þorvaldsdóttir.

Elsku Stebba, þakka þér fyrir að hafa verið okkar. Við vorum kornung, þegar við komum að Ásum, ungur prestur og fjölskylda hans. Það var ekki prestssetur í boði, en við fengum inni hjá ykkur Gumma og Ágústi föður þínum í Ásum. Það var okkar gæfa og gleði.

Þegar við settumst að í Ásum áttum við von á okkar öðru barni. Í Ásum var okkur tekið með fögnuði og þar eignuðumst við ævivini. Börnin okkar, Hrefna og Guðmundur, voru ævinlega velkomin í vesturbæinn. Gummi, sem fæddist rétt eftir að við fluttum í Ása, var ekki fyrr farinn að bera sig um skríðandi en hann klóraði í hurðina á vesturbænum og sagði við Stebbu, þegar hún opnaði: Nammi. Þá var hann borinn á höndum Stebbu, Gumma eða Ágústs eins og prins, gefið gott í munn og ástríkt atlæti. Hrefna okkar var dekruð af öllu Ásafólkinu og heimasætan Kristín gerði hana að drottningu. Hún fékk að taka þátt í öllum helstu atburðum á stóru búi og var alltaf í aðalhlutverki. Bjarnheiður gekk svo í húsmæðraskóla í Ásum og lærði að matbúa allt mögulegt af besta toga hjá Stebbu. Svo kom yngsta barnið okkar eftir að við fluttum frá Ásum. Hann hlaut nafnið Stefán, til að heiðra Stebbu okkar.

Þegar sveitarstjórnin bauð okkur gott hús í Tröð við Árnes urðum við glöð, en fluttum með trega. Það var erfitt að yfirgefa Ása og kærleiksheimilið þar. En kærleikur Ása fluttist með okkur. Þau voru alltaf okkar og við þeirra. Stebba var virðuleg og stolt kona með góða sjálfsvirðingu. Hún þjónaði öðrum endalaust, en vissi vel hver hún var og kunni að taka hóli. Hún var góð að innstu hjartarótum.

Stebba elskaði tónlist, var músíkölsk og söng vel. Bjarnheiður og hún nutu þess að syngja saman í kirkjukór. Stebba var sópran, en Bjarnheiður söng alt. Það var líka hægt að tala við Stebbu um allt. Hún var heimakona, en hafði víða sýn á lífið. Yndislegar minningar eigum við um ferð í Fljótin með Gumma og Stebbu. Þangað höfðu þau aldrei komið, en voru svo vel lesin að það kom þeim ekkert á óvart. Þau náðu strax tengslum við Hemma og Auði, frændfólk okkar og vini í Fljótum. Við skiljum það, góðum líkar góðir.

Stebba var þeirrar gerðar að hún hallaði aldrei orðinu á annan, en margir urðu stærri af því að kynnast henni. En að lífslokum urðu hennar styrkleikar veikleikar. Hún var ekki fyrir ferðalög eða breytingar. Síðustu ár voru þung og við erum svo þakklát fyrir að hún fékk að fara til Gumma síns og allra hinna. Þeim feginleika fylgir þung sorg. Það er svo sárt að fá aldrei að faðma þig aftur, elsku Stebba okkar. Allir þínir verða alltaf okkar, við sendum þeim innilegar samúðarkveðjur.

Bjarnheiður, Sigfinnur, Hrefna Ösp, Guðmundur

og Stefán Þór.