Lillian Kristin Söberg Andrésson fæddist 25. september 1933 í Kaupmannahöfn. Hún lést 3. júní 2016.

Foreldrar hennar voru Þóra Svanhvít Gísladóttir, er fæddist á Íslandi 1898, og Sigurd Olsen Söberg, sem fæddist í Noregi 1895. Hálfbróðir hennar var Eiríkur Gíslason, alsystkini Sveinn, John og Ásta Söberg.

Eftirlifandi eiginmaður hennar er Sverrir Andrésson frá Þrándarholti í Gnúpverjahreppi, f. 30. mars 1930. Foreldrar hans voru Andrés Sigurðsson, f. 1900, og Halldóra Hansdóttir, f. 1905, stúpfaðir hans var Ingvar Jónsson, f. 1898.

Lillian og Sverrir gengu í hjónaband 25. febrúar 1956 og héldu á þessu ári upp á demantsbrúðkaup sitt. Börn: 1. Sigurður Reynir, f. 1951, börn: a. Vernharður Reynir, kvæntur Ingibjörgu Birgisdóttur, b. Þórmundur, kvæntur Margréti B. Davíðsdóttur, c. Stefán Jökull, kvæntur Steinunni Skúladóttur, d. Christian, e. Lisa Katríne, f. Jakob. 2. Pia, f. 1952, eiginmaður hennar er Frank, börn: a. Bjarke, kvæntur Leu, b. Sidsel Kristin. 3. Sveinn, f. 1953, börn: a. Benedikt, b. Skarphéðinn kvæntur Rebecu, c. Irena, d. Karin, e. Oliver. 4. Þórir, f. 1956. 5. Bragi, f. 1958, eiginkona hans er Svava Davíðsdóttir, börn: a. Kristín Arna, b. Davíð Örn, c. Aron. 6. Linda, f. 1960, eiginmaður hennar er Sigurjón Reynisson, börn: a. Sverrir, kvæntur Karitas Ottesen, b. Sævar Ingi, c. Steinar. 7. Sævar, f. 1963, eiginkona hans er Auður Svala Heiðarsdóttir, börn: a. Heiðrún Ósk, b. Birta Sif. 8. Inga Dóra, f. 1964, börn: a. Helga Lillian, b. Lena Rut, c. Helena, d. Linda. Barnabarnabörnin eru 20 talsins.

Lillian var alin upp í Kaupmannahöfn til 12 ára aldurs er hún fluttist til Íslands. Hún settist að á Selfossi með eiginmanni sínum og bjó þar alla tíð, síðast til heimilis að Bakkatjörn 3. Lengst af vann hún í Sundhöll Selfoss.

Hún lést eftir skamma dvöl á Ljósheimum á Selfossi. Útför hennar verður gerð frá Selfosskirkju í dag, 10. júní 2016, klukkan 11.

Í dag kveð ég yndislegustu manneskju sem ég hef kynnst. Þessi kona er mamma mín og á ég henni svo endalaust margt að þakka. Það var svo óskaplega gott að leita til hennar, hún átti alltaf til ráð við öllu. Það er svo margt sem hún kenndi mér um lífið og tilveruna, ég væri ekki sú manneskja sem ég er í dag ef ég hefði ekki átt hana að. Ég á margar góðar minningar úr æsku og oft minnist ég þess þegar mamma spilaði fyrir okkur gömlu góðu vínylplöturnar. Villi Vill og Svanhildur voru í miklu uppáhaldi hjá henni. Hún spilaði líka mikið danskar plötur og ég man að ég söng oft með hástöfum án þess að hafa hugmynd um hvað textarnir þýddu. Mamma sönglaði mikið og var nánast alltaf flautandi. Hún kenndi mér ansi margt og þar á meðal að prjóna en ég hafði bara ekki þessa sömu þolinmæði og hún. Oftast endaði það nú svo að ég byrjaði á einhverri peysu og alltaf var það mamma sem kláraði hana. Ég á margar fallegar útprjónaðar peysur eftir hana, bæði sem hún prjónaði handa mér og einnig dætrum mínum. Það var alltaf stutt í húmorinn og góða skapið hjá mömmu. Hún var gædd þeim hæfileika að sjá alltaf björtu hliðarnar á öllu. Aldrei nokkurn tíma man ég eftir að hafa heyrt hana kvarta. Stundum þegar eitthvað var að hrjá hana þá átti hún það til að segja: „Það eru svo margir sem hafa það miklu verra en ég.“

Mamma hafði oft orð á því hvað hún væri heppin með afkomendur sína. Ég held að ég geti alveg verið sammála henni þar. Samheldnin í fjölskyldu okkar er mikil.

Undanfarin ár höfum við systkinin, börn og makar alltaf reynt að hittast í vöfflukaffi hjá mömmu og pabba á hverjum föstudegi. Ég veit að þetta hefur gefið foreldrum okkar mikið og ekki síður okkur börnunum, tengdabörnum og barnabörnum.

Mamma var mjög heimakær og gátum við fjölskyldan alltaf gengið að henni vísri heima við. Hún var alltaf til staðar fyrir fólkið sitt, alltaf tilbúin að gefa af tíma sínum og spjalla við okkur um hvað það sem okkur lá á hjarta. Hjónaband þeirra mömmu og pabba var alveg óskaplega fallegt og einkenndist af mikilli virðingu og væntumþykju. Ég naut þess að gera allt sem ég gat fyrir hana mömmu, hún kunni svo vel að meta það. Enda átti hún það sannarlega inni hjá mér eftir allt það sem hún gerði fyrir mig.

Stóllinn sem þú sast svo oft í,

ég horfi á hann oft á dag.

Bara ég gæti fengið þig til baka

þá myndi allt komast aftur í lag.

Minningar um þig um huga minn reika,

margar góðar eru í skjóðunni þar.

Við áttum svo marga góða tíma.

Já, mikið um gleði hjá okkur þá var.

Ávallt gat ég til þín leitað,

aldrei hunsaðir þú mig,

reyndir alltaf mig að hugga.

Ó, hve sárt er að missa þig!

Þitt bros og þína gleði

aldrei sé ég á ný.

Ég vil bara ekki trúa

að þitt líf sé fyrir bí.

Ég vildi að við hefðum haft

meiri tíma, þú og ég.

Við áttum svo mikið eftir að segja.

Ó, hvað veröldin er óútreiknanleg.

Ég veit að þú munt yfir mér vaka,

verða mér alltaf nær.

Þú varst og ert alltaf mér best,

elsku móðir mín kær.

(Katrín Ruth)

Ég kveð hana mömmu mína með sárum söknuði, en í hjarta mínu mun hún alltaf lifa.

Inga Dóra Sverrisdóttir.

Elsku mamma,

Ljósið flæðir enn um ásýnd þína:

yfir þínum luktu hvörmum skína

sólir þær er sálu þinni frá

sínum geislum stráðu veginn á.

Myrkur dauðans megnar ekki að hylja

mannlund þína, tryggð og fórnarvilja

– eftir því sem hryggðin harðar slær

hjarta þitt er brjóstum okkar nær.

Innstu sveiflur óskastunda þinna

ennþá má í húsi þínu finna,

þangað mun hann sækja sálarró,

sá er lengst að fegurð þeirra bjó.

Börnin sem þú blessun vafðir þinni

búa þér nú stað í vitund sinni:

alla sína ævi geyma þar

auðlegðina sem þeim gefin var.

Þú ert áfram líf af okkar lífi:

líkt og morgunblær um hugann svífi

ilmi og svölun andar minning hver

– athvarfið var stórt og bjart hjá þér.

Allir sem þér unnu þakkir gjalda.

Ástúð þinni handan blárra tjalda

opið standi ódauðleikans svið.

Andinn mikli gefi þér sinn frið.

(Jóhannes úr Kötlum)

Hvíldu í friði, elsku mamma mín,

Minning þín lifir í hjörtum okkar. Þín

Linda.

Þá er hún farin hún mamma, kona sem ég bar mikla virðingu fyrir og leit alltaf upp til. Það er af nógu að taka úr minningabankanum þegar ég hugsa til baka. Alltaf var gott að kíkja í kaffi til mömmu og spjalla. Dýravinur var hún mikill og mátti ekkert illt sjá gagnvart dýrum. Ósjaldan komum við systkinin heim með vængbrotinn fugl, kettlinga og fleiri dýr, allt var tekið í fóstur. Mikið var gott að þú leyfðir mér að vera hjá þér síðustu andartökin og að ég skuli hafa fengið að kveðja þig í hinsta sinn á afmælidaginn minn.

Það verður tómlegt í föstudagskaffinu þegar þú verður ekki til staðar. Þín verður sárt saknað. Þinn sonur,

Sævar

Lillian tengdamamma er fallin frá. Margar góðar og ljúfar minningar koma upp í hugann þegar horft er til baka, enda samfylgdin orðin rétt rúm 30 ár. Fljótlega eftir að ég kom inn í fjölskylduna á Eyrarveginum fann ég að við áttum ýmislegt sameiginlegt eins og til dæmis lestur góðra bóka. Endalaust gátum við rætt söguþráðinn í nýjustu bókinni hennar Camillu Läckberg, enda fannst okkur báðum þær endalaust spennandi.

Lillian var vel lesin og las eiginlega allt á milli himins og jarðar, hún var vel upplýst og fylgdist vel með. Hún hafði skoðanir á hlutunum og stundum var ekki hægt að snúa henni, sama hvað maður reyndi. Það var alltaf gott að koma í eldhúsið hjá tengdó, fá kaffibolla og ræða daginn og veginn, jafnvel dýpstu hjartans mál, því það var ekkert málefni sem ekki var hægt að ræða við Lillian. Veiðiferðirnar inn í Ljótapoll eru líka ógleymanlegar en þangað brunaði öll fjölskyldan um hverja helgi á sumrin þar sem veiddur var silungur.

Þar var Lillian, ættmóðirin, hrókur alls fagnaðar því hún hafði mikla kímnigáfu og sló á létta strengi. Þau hjónin, Sverrir og Lillian, voru dugleg við að kalla saman fjölskylduna og á hverjum föstudegi komu þeir sem voru lausir í kaffi og vöfflur í Bakkatjörn. Þetta eru dýrmætar minningar sem gott er að eiga. Samheldni fjölskyldunnar er einstök og ég er innilega þakklát fyrir að vera hluti af henni.

Við áttum líka sameiginlegan áhuga á hundum en Lillian hefur alltaf átt hund. Tíkin mín hændist að Lillian og fannst gott að koma í föstudagskaffið á Bakka.

Alltaf átti tengdó góðan bita handa henni og gott klapp. Lillian var einstök manneskja, tók alltaf upp hanskann fyrir þá sem minna máttu sín og aldrei man ég eftir að hún hafi hallmælt nokkrum manni.

Elsku Lillian, það er komið að kveðjustund. Ég vil þakka þér fyrir samfylgdina og tryggðina. Mikið eigum við öll eftir að sakna þín. Guð geymi þig.

Þín tengdadóttir,

Svava Davíðsdóttir.

Það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um elsku ömmu. Við eigum svo ótalmargar yndislegar minningar um hana. Það var t.d. svo gaman að hlusta á ömmu þegar hún var að segja sögur frá því hún var lítil stelpa og bjó í Kaupmannahöfn á stríðsárunum. Hún hafði séð svo margt og gert svo margt. Hún var algjör ofuramma sem hafði meira að segja séð Hitler! Okkur fannst allt svo merkilegt og alveg ótrúlegt allt það sem hún hafði upplifað. Húmorinn var alltaf til staðar hjá henni og mikið sem við gátum oft hlegið með henni. Hún gerði líka óspart grín að sjálfri sér og mörg gullkorn eigum við til eftir hana sem við höfum svo oft flissað yfir.

Amma var mikill dýravinur. Hún elskaði öll dýr og mest af öllu hundana sína. Það fengu alltaf allir hundar eitthvað gott að borða hjá henni þegar þeir komu í heimsókn. Hún átti líka stóra bók með öllum helstu hundategundum og gat hún lýst fyrir manni hverri einustu tegund sem var í bókinni.

Við systurnar ólumst upp við það að eiga bara eina ömmu en hún tók það hlutverk að sér að vera á við tvær og gerði það með miklum sóma. Það var alltaf svo gott að leita til hennar, hvort sem það var með hjálp í dönsku í skólanum, að fá góð ráð eða bara til þess að spjalla um daginn og veginn. Hún var gædd þeim eiginleikum að dæma aldrei nokkurn mann. Hún talaði ávallt fallega um alla og sá það góða í öllum. Hún sá jákvæðu hliðarnar á öllu og var svo þakklát fyrir allt sitt. Hún kenndi okkur svo ótal margt og hugsunarháttur hennar er eitthvað sem allir ættu að taka sér til fyrirmyndar. Við munum sannarlega reyna að tileinka okkur þá frábæru kosti sem hún hafði.

Amma var líka sú manneskja sem hrósaði okkur óspart. Við fundum alltaf hvað hún var stolt af okkur, hvort sem það var í skólanum, fimleikum, fótbolta eða bara lífinu almennt. Hún vissi alltaf hvað við voru að gera og fylgdist auðvitað spennt með því öllu saman.

Við erum óendanlega þakklátar fyrir að hafa átt hana fyrir ömmu, betri ömmu er ekki hægt að hugsa sér.

Takk fyrir allt, elsku amma, þú gerðir líf okkar sannarlega betra á allan hátt. Þín verður sárt saknað en minning þín mun lifa í hjörtum okkar alla tíð.

Helga Lillian, Lena Rut, Linda og Helena

Guðmundsdætur.

Ég leit eina lilju í holti,

hún lifði hjá steinum á mel.

Svo blíð og svo björt og svo auðmjúk

en blettinn sinn prýddi hún vel.

(Þorsteinn Gíslason)

Traust, fyndin, dýravinur, falleg að innan sem utan en fyrst og fremst góð amma eru orðin sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um þig. Ófá voru spjöllin og stundirnar sem ég átti með þér og óteljandi minningar. Ég datt sko í lukkupottinn þegar ég fékk þig sem ömmu!

Þú varst fyrirmynd mín í einu og öllu og það var alltaf hægt að leita til þín með hvað sem er.

Þakklát er ég fyrir að hafa setið þér við hlið þegar þú tókst síðustu andartökin. Elsku amma mín, það sem ég mun sakna þín.

Þín,

Heiðrún Ósk.