Magnús Snæland Sveinsson fæddist að Torfalæk í Austur- Húnavatnssýslu 25. september 1932. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi þann 30. júní 2016.
Foreldrar hans voru Sveinn Björnsson, bóndi og smiður frá Sveinskoti á Álftanesi, f. 1883, d. 1957, og Guðbjörg Jónsdóttir, húsmóðir frá Hnífsdal, f. 1. október 1901, d. 7. desember 1982. Systkini Magnúsar eru Kristín, f. 1922, Guðmundur, f. 1924, d. 2003, Björn, f. 1927, Jóhanna, f. 1929, d. 2014 og Björg, f. 1938.
Magnús fór að heiman níu ára til hjónanna Sigríðar og Jóns sem bjuggu á Öxl í Austur-Húnavatnssýslu. Magnús gekk í Sveinsstaðaskóla í Sveinsstaðahreppi. Um fermingu fór Magnús að vinna hjá þeim til 20 ára aldurs. Eftir það fluttist hann til Guðmundar bróður síns í Njarðvík og konu hans Sólbjargar og var þar um tíma.
Í desember 1968 kynntist Magnús eiginkonu sinni Lilju Maríu Sigurvinsdóttur, f. 18. janúar 1946, ættaðri úr Rangárvallasýslu. Magnús og Lilja giftu sig 2. desember 1972. Foreldrar hennar voru Sigurvin Eyjólfsson, fyrrverandi verkstjóri, f. 8. júlí 1906, d. 10. maí 1981, og Sigurlaug Einarína Egilsdóttir, húsmóðir frá Rangárvallasýslu, f. 4. júlí 1916, d. 26. júní 1996. Magnús og Lilja María eiga tvö börn, Kristjönu Magnúsdóttur, f. 14. janúar 1970, og Guðmar Svein Magnússon, f. 9. janúar 1971. Kristjana á tvö börn, Tómas Gísla, f. 2000, og Esmeröldu Lísu, f. 2005. Faðir þeirra er Sveinbjörn Einarsson, f. 12. febrúar 1962.
Magnús hóf störf á Vellinum í Keflavík upp úr tvítugu og fór svo að vinna hjá Jarðýtunni hf. Eftir 1960 stofnaði hann með Marinó vinnuvélafyrirtækið Magnús og Marinó. Upp úr 1980 stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Vinnuvélaleigu Magnúsar, að Fjarðarseli 4, og vann hann fyrir ýmsa aðila og var vinsæll í vinnu og vandvirkur í alla staði. Magnús vann í sjálfboðavinnu mikið fyrir Kattavinafélagið og Kattholt að Stangarhyl 2 í Reykjavík frá 1988-1990. Bæði var um að ræða vinnu við lagfæringu lóðar að hluta og undirbúning fyrir opnun, ásamt vinnu innanhúss. Magnús hætti rekstri eigin fyrirtækis í árslok 2008.
Útför Magnúsar verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, 14. júlí 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.


Elsku pabbi minn ég sakna þín svo mikið, ég á svo erfitt með að trúa að þú sért farinn. Mér þykir svo vænt um þig, margar minningar geymi ég í hjarta mér um allar stundirnar sem ég átti með þér og allt sem þú hjálpaðir mér með þegar ég þarfnaðist þín.
Ég mun aldrei gleyma neinu þú varst mér svo góður.
Ég man eftir svo mörgu eins og þegar ég sem krakki fékk að koma með þér í vinnuna og sat í vörubílnum þínum meðan þú varst að keyra sand eða mold frá einum stað til annars. Mér leiddist aldrei, ég var meira spennt.
Þú varst svo góður að keyra stóru vörubílana þína og vinna á jarðýtunni þinni og gröfu.
Þetta var þitt áhugamál að vinna á vélum alveg síðan þú varst ungur maður.
Þegar ég fékk fyrsta hjólið mitt sem þú faldir fyrir mér en ég fann þegar ég opnaði hurðina á stóra herberginu í húsinu heima, ég varð svo glöð að sjá það þarna, ég elska að hjóla.
Ég var oft í bílskúrnum heima með fyrsta bílinn minn að þrífa hann og líka kom fyrir að ég hjálpaði þér með eitthvað smá annars varst það þú, elsku besti pabbi min,n sem varst alltaf að hjálpa mér. Þegar ég kallaði á þig þá varst þú aldrei lengi að koma til mín.
Þegar sonur minn og ég komum til þín í september 2001 þar sem þú varst með vinnuaðstöðu neðar í Skútuvoginum, við vorum á göngu og hittum þig þar við vinnu það var alltaf gott að sjá þig.
Við fórum í marga bíltúra þegar ég var krakki oft út á land til ömmu minnar, þú varst alltaf í miklu uppáhaldi hjá henni, stolt að mamma mí,n dóttir hennar, fann svona flottan og myndarlegan mann sem þú ert. Þér fannst mjög vænt um hana, þegar hún féll frá árið 1996 var það mjög sorglegt fyrir okkur öll, hún breiðir nú út faðminn og tekur á móti þér.
Ég hef mikið gaman að lesa góðar bækur og ég lá oft í rúmi mínu í herbergi mínu og las þegar þú gekkst fram hjá og sagðir mér að þú last mikið líka á þínum yngri árum og gerðir enn þegar þér var gefin bók í jólagjöf á hverju ári. Uppáhalds bækur voru eftir Arnald Indriðason og bíómyndir um spennu og hasar, gamlar bíómyndir líka og þótti mér svo gaman að færa þér eina eða tvær dvd-myndir í jólagjöf sumar sást þú í bíó þegar þú varst ungur.
Þér fannst gaman að tala við fólk og félagslyndur varstu mjög, áttir marga góða vini sem nú taka á móti þér þarna fyrir handan og móðir þín og faðir sem og bróðir þinn og systir.
Sunnudagsmorgun 12. júní fékk ég símtal frá Landsspítalanum um að þú lægir þar á hjartadeild og værir í öndunarvél því lungu þín væru orðinn mjög léleg. Mér brá mikið, ég kom til þín og sá þig liggja þarna svo veikan með þessa grímu fyrir andlitinu. Mér leið svo illa, ég kom hlaupandi til þín í faðm þinn og grét. Þú hélst utan um mig og vildir ekki sleppa, það var svo gott að vera hjá þér, elsku pabbi minn og tala við þig, þú reyndir að tala líka það var betra þegar þú fékkst aðra grímu þá var hægt að skilja þig betur. Við áttum gott samtal um svo margt, mér leið betur að geta talað við þig og þér líka. Ég kom næstum dagalega til þín, ég vildi koma og vera sem lengst því með því að vera hjá þér þá gat ég séð þig, ég hafði miklar áhyggjur af þér og leið illa.
Ég sagði þér frá hvað mér langaði mikið að fara til Grímsnes að skoða Kerið með börnunum mínum. Þú sagðir að við ættum að fara þegar þú værir orðinn góður, þú varðst og ætlaðir að ná þér upp úr þessu. Ég vildi að ég hefði mikið lengri tíma með þér. Sorg mín er mikil að hafa misst þig, elsku besti pabbi minn. Ég sakna þín svo mikið núna. Við sjáumst þegar ég kem til þín þegar minn tími kemur.

Illa dreymir drenginn minn
Drottinn, sendu engil þinn
Vöggu hans að vaka hjá,
Vondum draumum stjaka frá.
Láttu hann dreyma líf og yl,
ljós og allt, sem gott er til,
ást og von og traust og trú.
Taktu hann strax í fóstur nú.
Langa og fagra lífsins braut
leiddu hann gegnum sæld og þraut.
Verði hann bezta barnið þitt.
Bænheyrðu nú kvakið mitt,
Svo ég megi sætt og rótt
Sofa dauðans löngu nótt.


(Páll Ólafsson)

Þín dóttir,




Kristjana Magnúsdóttir.