Árið 1925 gaf Einar Olgeirsson, þá kornungur kennari á Akureyri, út fjörlega skrifaða bók um franska heimspekinginn Jean-Jacques Rousseau.

Árið 1925 gaf Einar Olgeirsson, þá kornungur kennari á Akureyri, út fjörlega skrifaða bók um franska heimspekinginn Jean-Jacques Rousseau. Sennilega hefur Einar aðallega stuðst við yfirlitsrit um Rousseau, því að það fór fram hjá honum, að heimspekingurinn getur Íslands tvisvar. Fyrst er það í neðanmálsgrein við 2. hluta Orðræðu um ójöfnuð (Discours sur l'origine et les fondements de l'inégalité parmi les hommes), en sú bók var sett saman 1754 og er til í fjölmörgum útgáfum.

Rousseau lýsir þar einu meginstefinu í stjórnmálaheimspeki sinni, sem er, að maðurinn spillist af menningunni. Úti í náttúrunni sé hann frjáls, heilbrigður og hamingjusamur, því að hann þurfi ekki á öðrum að halda. Samlíf frumstæðra manna sé að vísu skref út úr náttúrunni, en það sé samt miklu betra en samlíf meðal menningarþjóða. Slíkt frumstætt skipulag sé stöðugt, og þar sé ratað hið gullna meðalhóf milli náttúru og menningar.

Í neðanmálsgrein segir Rousseau, að menn af frumstæðum þjóðum, sem fluttir séu til menningarþjóða, kunni lítt að meta það. Vart þurfi að nefna Grænlendinga og íbúa Íslands, sem reynt hafi verið að mennta og fæða í Danmörku, en hafi allir dáið úr sorg og örvæntingu. Þeir hafi ýmist veslast upp eða drukknað á rúmsjó, þegar þeir hafi reynt að synda á heimaslóðir. Í því sambandi nefnir Rousseau líka hottintotta í Suður-Afríku, sem jafnan snúi aftur til fyrra lífs þrátt fyrir tilraunir trúboða til að siða þá.

Heimildarmaður Rousseaus er eflaust Frakkinn Isaac La Peyrère, sem dvaldist um tíma í Danmörku og skrifaði Íslandslýsingu í árslok 1644, og kom hún út í París 1663 (Relation de l'Islande). Þar segir hann á 49.-50. bls., að Íslendingar uni sér ekki í Kaupmannahöfn og vilji heim. Peyrère skrifaði líka Grænlandslýsingu, og kom hún út í París 1647 (Relation du Groenland).

Rousseau minnist síðan á Ísland í 1. bók rits síns um uppeldismál, Émile , sem kom út 1762. Þar segir hann, að kenna þurfi börnum að bjarga sér, hvort sem þau séu niður komin á snjóbreiðum Íslands eða sólbökuðum klettum Möltu. Það dæmi er þó ekki eins sögulegt og hitt, að Íslendingar í Kaupmannahöfn drukkni jafnan, þegar þeir reyni í örvæntingu að synda heim til Íslands.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is