Jóhannes Loftsson
Jóhannes Loftsson
Eftir Jóhannes Loftsson: "Hver breytti hlutverki Reykjavíkurflugvallar í að þjóna ekki minni flugvélum og sjúkraflugi?"

Kæri innanríkisráðherra.

Í grein 3.1.1. í VI. hluta reglugerðar 464/2007 um flugvelli segir:

„Fjöldi og stefna flugbrauta á flugvelli ætti að vera slíkur að notkunarstuðull flugvallarins sé ekki minni en 95% fyrir flugvélarnar sem flugvöllurinn þjónar.“

Þetta þýðir að reikna þarf notkunarstuðul fyrir allar flugvélar sem flugvöllur þarf að þjónusta, ekki bara fyrir stærri áætlunarflugvélarnar sem þola meiri hliðarvind. Sá skilningur fer ekki milli mála, því ef Flugfélag Íslands mundi t.d. einhvern tímann í framtíðinni ákveða að flytja alla starfsemi sína á Keflavíkurflugvöll, þá væru eingöngu eftir minni flugvélar á Reykjavíkurflugvelli, en engir útreikningar fyrir hendi sem sýndu að krafan um nothæfisstuðul upp á 95% væri uppfyllt. Í nýlegu áhættumati vegna lokunar neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli var hins vegar ekki reiknaður notkunarstuðull fyrir minni flugvélar.

Eina réttmæta forsenda þess að ekki þyrfti að taka tillit til lendingarskilyrða minni flugvéla á Reykjavíkurflugvelli væri ef fyrir lægi ákvörðun stjórnvalda um að hlutverki Reykjavíkurflugvallar væri breytt þannig að ekki ætti lengur að miða við það að Reykjavíkurflugvöllur þurfi að þjónusta minni flugvélar. Þar sem allt sjúkraflug fer fram minni flugvélum, þá er hér um meiriháttar stefnubreytingu yfirvalda að ræða, sem getur m.a. haft áhrif á hátt í 30 sjúkraflugsferðir á ári og mun nær áreiðanlega kosta mannslíf þegar fram í sækir. Fólk hefur því rétt á að vita hver ber ábyrgð á þessu.

Sem yfirmaður samgöngumála átt þú sem innanríkisráðherra að geta svarað þessu. Var þetta ákvörðun ríkisstjórnarinnar? Var þetta ákvörðun þín, innanríkisráðherra? Var þetta ákveðið af Samgöngustofu sem fór yfir áhættumatið um lokun neyðarbrautarinnar? Var þetta ákveðið af ISAVIA sem stýrði áhættumatinu... eða var það Verkfræðistofan Efla sem reiknaði notkunarstuðulinn og ákvað að breyta hlutverki Reykjavíkurflugvallar? Hver ákvað að breyta hlutverki Reykjavíkurflugvallar?

Reikniskekkjur má leiðrétta

Ef þú, innanríkisráðherra, hefur ekki komið að þessari ákvörðun, þá er þetta ólögleg reikniskekkja, því hvorki ráðgjafaverkfræðistofur né undirstofnanir þínar mega taka sér slíkt vald.

Mögulega væri hægt að stöðva þetta einfaldlega með því að ítreka það við Samgöngustofu, sem yfirfór áhættumatið, að ISAVIA hafði enga heimild til að breyta hlutverki Reykjavíkurflugvallar í áhættumatinu. Í ljósi þessara nýju upplýsinga er ekki útilokað að Samgöngustofa gæti hafnað öllum frekari leyfisveitingum vegna breytinga flugvallarins eða dregið til baka útgefin leyfi.

Ef af einhverjum ástæðum, lagalegum eða stjórnskipunarlegum, ekki er hægt að beita þessari aðferð, þá hvílir siðferðisleg skylda á Alþingi að grípa inn í á einhvern hátt. Það er einfaldlega ekki boðlegt að Alþingi sitji hjá og láti reikniskekkju ráða jafn afdrifaríkri ákvörðun og þessari sem getur haft áhrif á líf og heilsu fjölda fólks.

Höfundur er verkfræðingur og frumkvöðull.