Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir „óheppilegt að ríkisstjórnin standi ekki öll sameinuð að baki jafnjákvæðri fjármálaáætlun“ og samþykkt var á Alþingi í fyrradag, og vísar þar til hjásetu Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra þegar greidd voru atkvæði á Alþingi um fjármálaáætlun til næstu fimm ára.

Forsætisráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að hjáseta ráðherra við atkvæðagreiðslu um stórt mál ríkisstjórnarinnar væri óvenjuleg, en hún hafi ekki komið á óvart.

Sigurður Ingi segir að nægt svigrúm sé í fjármálaáætluninni, til að taka m.a. tillit til hugmynda sem félagsmálaráðherra hafi lagt fram.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, um hjásetu félagsmálaráðherra: „Það er ekki til þess fallið að treysta samstarfið milli stjórnarflokka í samsteypustjórn að ráðherra styðji ekki stóru málin. Þetta er næsti bær við að styðja ekki fjárlög.“

„Það verður á endanum að vera ákvörðun þess flokks sem hún situr fyrir í ríkisstjórn,“ sagði Bjarni þegar hann var spurður hvort hann teldi að Eygló Harðardóttir gæti setið áfram sem ráðherra eftir hjásetuna.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að engum hefði átt að koma hjáseta hennar á óvart, því hún hafi strax við afgreiðslu fjármálaáætlunar út úr ríkisstjórn sett fyrirvara. Hún hafi ekki íhugað afsögn. „Mér hefur verið sætt frá því að ég upplýsti um þennan fyrirvara minn og hef starfað af trúmennsku sem ráðherra félags- og húsnæðismála og staðið vörð um mína málaflokka.“