Ragna Halldórsdóttir fæddist 14. desember 1919. Hún lést 29. júlí 2016.

Útför Rögnu fór fram 8. ágúst 2016.

Hvað er fallegra en heilbrigð ferðalok, sem bera í sér nýtt upphaf? Er ekki kveðjan jafn falleg og fæðingin eftir langt líf – þar sem allri ábyrgð og öllum skyldum hefur verið mætt af stakri virðingu og ófrávíkjanlegri reisn? Eins og í tilfelli Rögnu Halldórsdóttur, föðurömmu minnar og alnöfnu, sem kenndi mér sjálfsvirðingu, hófsemi, umhyggjusemi og heiðarleika og innrætti mér nægjusemi, að leggja alúð við allt og aldrei að takast á við neitt af hálfum hug.

Á efstu hæð í Álfheimum 5 í Reykjavík bar Ragna amma ávallt með sér hið vestfirska stolt afkomenda stórbóndans í hinni kastalabyggðu Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp – hennar barnmarga æskuheimili, sem auk þess var símstöð með stöðugar gestakomur og þar sem aldrei vantaði upp á gestrisnina. Enda var Arngerðareyri eitt af þessum alíslensku byggðarheimilum sem hafa borið með sér rjómann í íslenskri landsbyggðarmenningu í gegnum árhundruðin.

Í Álfheimum færði Ragna amma áfram til okkar allra sem þangað komu hina stoltu og vestfirsku menningu. Í Álfheimum kenndi amma mér að lesa þjóðfélagið, innan um íslenskan heimilismat, við eldhúsborðið, oftast í kompaníi við höfðingjann heitinn, föðurafa minn, Kristin. Og það voru engar málamiðlanir við eldhúsborðið, þegar um var að ræða heilindi, drengskap, réttlæti eða manndóm í stjórnmálum og þjóðfélagsmálum – líka þegar um var að ræða Sjálfstæðisflokkinn, sem þó naut alltaf óbilandi stuðnings Rögnu ömmu, sama hvað bjátaði á.

Öll barnabörn og barnabarnabörn Rögnu ömmu og Kristins afa voru svo lánsöm að vera í pössun um lengri eða styttri tíma í Álfheimum. Og það segir sannarlega sína sögu að í gegnum áratugi þá bar ekkert barn nokkurn tíma hinn minnsta skaða af, svo sterk var athyglin og umhyggjusemin. Amma innrætti okkur öllum afar sterk gildi. Og þótt um væri að ræða gríðarlega öruggt og reglusamt heimili, þar sem allt var strokið, straujað, hreint og matauðugt, þá var alltaf pláss fyrir hæfilegt umburðarlyndi hjá Rögnu ömmu, t.d. þegar ég sem barn minntist á móðurfjölskyldu mína, þar sem veislur og gleði voru sjálfsagður hluti af lífsamstrinu – ólíkt Álfheimum. Jafnvel þegar ég var fimm ára og gat stoltur sagt frá því að ég hafi verið í veislu hjá móðurfjölskyldunni þar sem dansað var uppi á borðum í anda franskrar borgarastéttar og Carmen Bizets.

Mér hefur alltaf þótt rótsterk og bolþykk eikartré minna mig á fólk eins og Rögnu ömmu og Kristinn afa.

Í öllu lífsins amstri og viðburðaríku þjóðlífi, þá eru þess konar fólk klettarnir sem hjálpa vegfarendum að ná áttum. Og nú, þegar ég minnist með örfáum orðum einnar fallegustu og virðingarverðustu manneskju sem ég hef kynnst – þá er ekki úr vegi að minnast samtímis á þvílíka afkomendur Ragna amma og Kristinn afi hafa skilið eftir sig – gjörvalla föðurfjölskyldu mína sem ég get verið jafn stoltur af og þeim. Guð blessi minningu þeirra beggja, Rögnu Halldórsdóttur ömmu og Kristins afa. Arfleifð þeirra beggja lifir áfram með okkur öllum.

Ragnar Halldórsson.

Amma var svona amma sem var alltaf til staðar fyrir sína nánustu.

Þegar ég var lítill strákur gat ég alltaf bankað upp á hjá ömmu og afa í Álfheimunum. Ömmu fannst gaman að fá okkur barnabörnin í heimsókn og spjalla. Við sátum við eldhúsborðið og endrum og eins stóð hún upp og horfði út um gluggann yfir Álfheimana eins og hún væri að gá til frétta. Í minningunni gaf hún mér alltaf ristað brauð með rauða saltaða smjörvanum, skinku eða osti, og kalda nýmjólk eða Nesquik í bláu óbrjótanlegu glasi. Amma drakk hins vegar alltaf neskaffi og með árunum byrjaði ég að gera það líka þó að ég hefði aldrei komist upp á lagið með það sem hún gerði: Að dýfa sykurmolum í kaffið og láta þá bráðna uppi í sér fölbrúna við kaffidrykkjuna.

Eitt það minnisstæðasta sem amma sagði við mig í einni slíkri heimsókn, fyrir kannski svona 20 árum, var það að heimurinn væri alltaf að skreppa saman, verða minni og minni. Hún lék þessa tilhneigingu heimsins með því að draga annað augað í pung og hringa vísifingur saman upp við þumalinn á sér þannig að lítið gat myndaðist sem hún horfði svo í gegnum til að útskýra hvað hún ætti við.

Þetta var væntanlega einhvers konar skráargat heimsins í hennar augum; tilfinning hennar fyrir því að heimurinn væri orðinn svo miklu opnari og aðgengilegri en hann var þegar hún var ung stúlka og bjó fyrstu æviárin sín í torfbæ á Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp.

Svona man ég samveruna við ömmu í gegnum árin. Samveru sem var hlý, örugg og ömmuleg og hún prjónaði á mig peysur og sokka úr lopa.

Heimili hennar og afa Kristins var eins konar athvarf þar sem ríkti ró og friður; þau áttu þunga standklukku sem tifaði hægt og gaf taktinn í þessari tilveru í kór við Dýrin í Hálsaskógi og Kardimommubæinn sem hljómuðu gjarnan úr plötuspilaranum þegar barnabörnin komu í heimsókn. Ég man eftir því að hafa sofnað á stofugólfinu hjá ömmu sem barn og afi gat jafnvel dottað við hliðina á manni ef hann hafði komið úr vinnunni í hádeginu til að borða kálböggla, bjúgu eða soðna ýsu og síðan rétt fleygt sér í hægindastólinn sinn í kortér.

Amma var amma af gamla skólanum. Hennar staður var heimilið – þannig vildi hún hafa það. Hún spilaði ekki golf, keyrði ekki bíl, fór sjaldan eða aldrei í Glæsibæ eða Kringluna, stundaði ekki leikfimi og fór ekki í borgarferðir til útlanda. Ef svo ólíklega vildi til að hún væri ekki heima þegar ég, eða einhver annar, kom við þá hafði hún að öllum líkindum bara skotist í lagningu yfir götuna eða þá í bakaríið eða kjörbúðina sem voru í sama litla verslanakjarnanum sem var sýnilegur frá eldhúsglugganum þeirra.

Þegar mamma sagði mér var að amma væri dáin sagði hún mér að hún hefði bara verið á æskuslóðunum á Arngerðareyri undir það síðasta. Arngerðareyri og minningar ömmu um heimili barnæsku hennar stóðu eftir að lokum þegar flest annað var horfið úr minni hennar með árunum. Mamma sagði að á Arngerðareyri hefði ömmu liðið best. Amma, eða hugur hennar, var þá komin heim.

Takk kærlega fyrir allt, amma mín.

Ingi Freyr Vilhjálmsson.

Elsku amma mín. Ég er svo heppin að hafa kynnst þér mjög vel, en ég var skírð í höfuðið á þér og við vorum alltaf ofsalega góðar vinkonur.

Ég bjó rétt hjá ykkur afa, þið í Álfheimum og við fjölskyldan í Sólheimum, Langholtsskólinn minn beint á móti ykkur og þangað labbaði ég alltaf eftir skóla og var hjá ykkur hluta af deginum. Það var alltaf einstaklega gott að koma í Álfheimana; vínrauða teppið á ganginum, skrifstofan hans afa, eldhúsið þitt, þar sem þú bjóst til hádegismatinn, kaffið, kvöldmatinn og bakaðir jólakökur fyrir okkur, stofan með öllum kaktusunum og langa vínrauða bekknum sem var gott að leggja sig í.

Leikkrókurinn þar sem þú settir mig í fangið á þér ef ég var lítil í mér og ruggaðir okkur fram og til baka.

Gullhálsmenið þitt sem var gaman að skoða á meðan maður jafnaði sig og fékk klapp á bakið og söng á meðan. Heimsóknirnar ykkar afa í Sólheimana voru líka alltaf svo skemmtilegar.

Kaffi og meðlæti á borðinu og þið að spjalla við mömmu og pabba og klappa hundunum. Þú varst alltaf með svo fallegt hár og vel til höfð.

Alltaf hlæjandi og hress og yndisleg amma, besta amma sem hægt er að eiga. Það er erfitt að kveðja þig.

Ég mun alltaf halda minningarnar um þig í hjartanu mínu og segja börnunum mínum frá þér. Vertu sæl að sinni, elsku amma mín.

Ragna Björg Ingólfsdóttir.