Í Sýrlandi eru fangar pyntaðir til þess eins að brjóta þá niður og drepa þá

Áður en ófriðurinn braust út í Sýrlandi reyndi Bashir al-Assad að rækta þá ímynd hann væri upplýstur einræðisherra og allt horfði til framfara í ríki hans. Assad nam augnlækningar í Bretlandi og þar kynntist hann konu sinni. Asma Assad er sýrlensk að uppruna, en fæddist í Bretlandi og hafði starfað í bankaheiminum áður en hún batt trúss sitt við verðandi forseta Sýrlands. Fjölmiðlar hömpuðu henni, einnig eftir að hún varð forsetafrú, og í hinu útbreidda tískutímariti Vogue birtist við hana viðtal undir fyrirsögninni „Rós í eyðimörkinni“ þar sem „villtir“ lýðræðistilburðir fjölskyldunnar voru dásamaðir.

Raunveruleikinn á bak við þessa ímynd var hins vegar allt annar. Augnlæknirinn geðþekki reyndist beita sömu grimmd og faðir hans, Hafez al-Assad, sem annálaður var fyrir hrottaskap. Hryllilegasta dæmið er fjöldamorðin í þorpinu Hama. Assad hafði glímt við uppreisn Bræðralags múslíma í landinu. 1982 lét hann til skarar skríða í helsta vígi þeirra, bænum Hama. Tölum um mannfallið í bænum ber ekki saman, en eitt sinn var bróðir Hafez al-Assad, Riifat, sem stjórnaði aðgerðunum, spurður hvort rétt væri að sjö þúsund manns hefðu fallið í Hama. „Um hvað eru að tala, sjö þúsund? Nei, nei. Við drápum 38 þúsund,“ á Riifat Assad að hafa svarað um hæl.

Þegar fjöldamorðin höfðu verið framin var Hama jöfnuð við jörðu og salti stráð í svörðinn. Tilgangurinn var að ganga fram af slíku offorsi að engum dytti framar í hug að bjóða Assad birginn.

Sonurinn lærði þessa lexíu af föður sínum. Í dýflissum Sýrlands hefur hann látið pynta andstæðinga sína af einstökum hrottaskap, allt frá raunverulegum andstæðingum til unglinga sem hafa úðað slagorð gegn stjórn hans á veggi. Þeir sem hverfa inn í svarthol einræðisherrans eiga sjaldnast þaðan afturkvæmt.

Samtökin Amnesty International birtu í vikunni skýrslu um pyntingar fanga í Sýrlandi. Samkvæmt niðurstöðum samtakanna hafa rúmlega 17 þúsund dáið í varðhaldi sýrlenskra yfirvalda á undanförnum fimm árum vegna pyntinga og af öðrum orsökum.

Í skýrslunni er talað við 65 fanga sem lifðu af pyntingar, og lýsa þeir vítisdvöl í Sednaya-herfangelsinu skammt frá Damaskus.

Aðstæður í fangelsinu munu alltaf hafa verið slæmar, en versnuðu til muna þegar uppreisnin byrjaði í landinu. Áratugum saman hafa þeir sem stjórnvöld gruna um að vera íslamistar verið fangelsaðir þar.

Þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Írak mun Assad hafa gert föngunum tilboð um að þeir yrðu látnir lausir gegn því að fara til Íraks og berjast undir merkjum al-Qaeda við Bandaríkjamenn. Þeir sem sneru aftur voru margir handteknir á ný og stungið aftur inn í Sednaya.

Þegar þessir fangar gerðu uppreisn 2008 var gengið milli bols og höfuðs á þeim. Bashir al-Assad sendi Mahir bróður sinn til að sjá um verkið og á myndskeiðum má sjá hvar hann notar símann sinn til að taka myndir af líkum fanga. Pyntingar eru daglegt brauð og tilgangurinn er ekki að knýja fram játningar eða fá upplýsingar, heldur einfaldlega að brjóta fangana niður. Daglega deyja fangar vegna meðferðarinnar.

Fangarnir eru látnir dúsa naktir í klefum sínum eða í mesta lagi í nærfötum. Þeir eru látnir vera í myrkri og mega ekki tala. Þeir fá ekki nóg að borða. Þeim er meira að segja refsað sérstaklega ef þeir tala meðan á pyntingum stendur. Bannað er að horfa á fangaverðina.

„Þegar þeir fóru með okkur upp eftir tólf daga leit einn fanganna óvart á fangavörðinn. Hann var barinn til dauða fyrir augunum á mér,“ segir einn sjónarvotturinn í Sednaya.

Pyntingarnar eru af mörgum toga. Föngum er troðið inn í hjólbarða, kramdir milli tveggja hlemma og hýddir á iljunum. Þeim eru gefin raflost, beittir nauðgunum og kynferðisofbeldi, neglur dregnar af fingrum og tám, brenndir með heitu vatni og sviðnir með logandi sígarettum.

„Í Sednaya var tilfinningin að tilgangur pyntinganna væri að framkvæma nokkurs konar náttúruval – eins og ætti að losna við þá veikari um leið og þeir komu á staðinn,“ segir annar.

Í átökunum í Sýrlandi eru fáir kórdrengir en enginn slær þó Bashir al-Assad við.