Viðvörun Davíðs Oddssonar um sálarheill þjóðar eru í fullu gildi

Í kosningabaráttunni vegna forsetakosninganna sem fram fóru undir lok júnímánaðar var það einn þáttur í málflutningi Davíðs Oddssonar, sem vakti athygli mína umfram annað sem fram kom í umræðum frambjóðenda en það var sú skoðun hans að forseti ætti að halda sig meira heima við en tíðkazt hefði um skeið og huga meira að sálarheill þjóðarinnar.

Forsetakosningarnar eru að baki en þessi þáttur í afleiðingum hrunsins er enn til staðar og þess virði að um sé fjallað.

Það er enn fyrir hendi reiði í samfélaginu og hún á sér eðlilegar skýringar. Tugir þúsunda landsmanna urðu illa úti vegna þeirra fjárhagslegu hremminga, sem fylgdu í kjölfarið. Með réttu eða röngu fannst þessum þjóðfélagshópum að þeir hefðu verið skildir eftir í þeim aðgerðum sem fylgdu í kjölfar hrunsins og að meira hefði verið hugsað um aðra hagsmuni en hagsmuni heimilanna. Fyrir viku var að því vikið hér að kannski hefðu íslenzk stjórnvöld verið meira undir hælnum á Alþjóða gjaldeyrissjóðnum en fram hefði komið og þess vegna hefði áherzlan fremur verið á að huga að hagsmunum erlendra kröfuhafa hinna föllnu einkabanka en að slá þeirri skjaldborg um heimilin, sem lofað hafði verið. Alla vega er það staðreynd að bankarnir, sem voru tveir af þremur í eigu hinna erlendu kröfuhafa, hafa grætt á tá og fingri á sama tíma og þúsundir fjölskyldna misstu heimili sín.

Hinir kjörnu fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi og í ríkisstjórnum eftir hrun hafa lítið gert af því að fjalla beint um áhrif þessara hremminga á sálarheill stórs hluta þjóðarinnar. Þess vegna vöktu þessi orð Davíðs Oddssonar athygli. Þótt hann hafi ekki fengið tækifæri til að fylgja þeim eftir er ástæða til að hvetja aðra, sem eru í aðstöðu til að gera það, vegna þess að þar er mikið verk að vinna.

Á dögum kalda stríðsins var stjórnmálabaráttan hörð en hún snerist öll með beinum eða óbeinum hætti um þau átakamál. Þótt harkan væri mikil og langt gengið í vinnubrögðum, sem nú þykja ekki við hæfi sbr. umræður um símahleranir og fleira, voru línurnar þó skýrar og ekki vegið að einkalífi fólks á þann veg, sem nú er gert. Dæmi um það sem að vísu er sótt í árin á undan kalda stríðinu er þegar Ólafur Thors, þá formaður Sjálfstæðisflokks, beitti sér fyrir því að fjölskylda Einars Olgeirssonar, sem þá var höfuðandstæðingurinn, fengi greitt þingfararkaup Einars á þeim tíma, þegar hann var í fangelsi í Bretlandi.

Í aðdraganda þeirra þingkosninga, sem framundan eru þykist ég verða þess var að sjálfsagt þyki að vega að fólki persónulega svo fremi sem fingraförin sjáist ekki eða illa. Þannig var pólitíkin ekki en hún fór að harðna að þessu leyti á níunda áratugnum, þegar kalda stríðið var að byrja að fjara út. Og raunar átti það einnig við um viðskiptalífið á hátindi valda viðskiptajöfranna.

Þessi þáttur stjórnmálabaráttunnar snýst líka um sálarheill fólks. Reiðin sem fyrir er magnar upp neikvæðar tilfinningar sem er að finna í okkur öllum og gerir átökin á vettvangi stjórnmálanna enn ógeðfelldari en ella, að ekki sé talað um þann tíma og þá orku, sem fer í neðanjarðarhernað af þessu tagi.

Enn einn þáttur þessarar reiði er að fólk er bersýnilega farið að vantreysta hinum ýmsu stofnunum samfélagsins meira en áður. Á dögunum átti ég fróðlegt samtal við tvo einstaklinga, sem hafa mikinn áhuga á afnámi verðtryggingar. Mér kom á óvart í því samtali, að þeir töldu nauðsynlegt að fá erlenda sérfræðinga til ráðgjafar um slíka aðgerð vegna þess að þeir treysta íslenzkum sérfræðingum og stofnunum ekki. Og ástæðan fyrir því vantrausti er ekki sú að þeir telji þekkingu ekki til staðar heldur að sérfræðingar hér heima fyrir tengist flokkum, hagsmunasamtökum eða öðrum hagsmunum á þann veg að það sé aldrei hægt að vera viss um, að þeir séu að taka efnislega afstöðu og að ekki séu einhverjir huldir hagsmunir að baki.Athyglisvert er að þetta vantraust nær nú orðið einnig til dómstólanna.

Þegar við þessa upplifun bætist að mörgum finnst að þrátt fyrir vaxandi uppgang í samfélaginu sé enn vitlaust gefið og þar að auki séu vísbendingar um að leikurinn frá síðustu árunum fyrir hrun verði endurtekinn er hætta á ferðum.

Jafnvel fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafði orð á því á dögunum að ekki þyrfti að koma á óvart að aldraðir og öryrkjar skildu ekki hvers vegna þeir gætu ekki fengið greiddar hækkanir aftur á bak, þegar æðstu embættismenn íslenzka ríkisins fengju slíkar greiðslur. Þetta er auðvitað rétt hjá Sigmundi Davíð. Hver er skýringin?

Frammi fyrir slíkum tilfinningum þýðir ekki að segja: þið hafið aldrei haft það jafn gott („you have never had it so good“) eins og Harold MacMillan, forsætisráðherra Breta, sagði fyrir bráðum 60 árum og frægt varð.

Í kosningabaráttunni, sem er að hefjast ættu frambjóðendur að huga að þeim orðum Davíðs Oddssonar úr kosningabaráttunni vegna forsetakosninganna, sem hér hefur verið vitnað til, og íhuga jafnframt hvort þeir geti lagt sitt af mörkum til þess að bæta andrúmsloftið í samfélaginu með málflutningi sínum og beinum aðgerðum í eigin flokkum.

Það dugar ekki að afgreiða annað fólk sem vitleysinga, jafnvel þótt það hafi aðra skoðun en maður sjálfur. Og það vill enginn búa í samfélagi þar sem stór hluti fólks telur að fámennir hópar einbeiti sér að því einu að skara eld að eigin köku.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is