Hrafn Jökulsson
Hrafn Jökulsson
Eftir Hrafn Jökulsson: "Allt er þetta í anda kjörorða skákhreyfingarinnar, sem Birna sýndi með frumkvæði sínu að eru ekki orðin tóm: Við erum ein fjölskylda."

Árið 1978 er merkilegt ár í íslenskri skáksögu. Friðrik Ólafsson, okkar ástsæli stórmeistari, var kjörinn forseti FIDE, alþjóðahreyfingar skákmanna, og gegndi embættinu af mikilli reisn við afar erfiðar aðstæður. Síðasti herramaðurinn í FIDE, var síðari tíma dómur Garrys Kasparovs.

Annað gerðist sögulegt 1978. Þá sendu Íslendingar í fyrsta sinn kvennasveit til keppni á Ólympíumót í skák, og sagan á bak við það ævintýri er stórmerkileg. Skákhreyfingin á Íslandi hafði frá öndverðu verið forhert karlavígi, og lítið sem ekkert gert til að stuðla að skákiðkun stúlkna og kvenna fyrr en Taflfélag Reykjavíkur, þá undir forystu Guðfinns Kjartanssonar, stofnaði kvennadeild árið 1975. Sama ár var í fyrsta skipti keppt um Íslandsmeistaratitil kvenna, sigurvegari varð kornung stúlka úr Kópavogi, Guðlaug Þorsteinsdóttir. Þá höfðu karlarnir keppt um Íslandsmeistaratitil í sextíu ár.

Ein af þeim konum sem tóku þátt í líflegu starfi kvennadeildarinnar var bóndakona á miðjum aldri, Birna Norðdahl. Hún fæddist 1919 og hafði árið 1940 stigið það djarfa spor að taka þátt í skákmóti – það þóttu undur og stórmerki að 21 árs stúlka skyldi hætta sér inn í hið algera karlaveldi. Enda leið heill aldarfjórðungur þangað til Birna settist næst að tafli á skákmóti. En hún varð lífið og sálin í þeirri vakningu sem varð meðal íslenskra skákkvenna á áttunda áratugnum, varð Íslandsmeistari 1976 og aftur 1980, þá liðlega sextug.

„Amman í skákinni“ var hún kölluð af þeim ungu og hæfileikaríku konum sem þá voru að koma fram á sjónarsviðið, og það var þessi amma sem átti allan heiður af því að Íslendingar skyldu loksins senda kvennasveit til keppni á Ólympíumótið í Buenos Aires. Sumum fannst víst hugmyndin alveg fráleit og engir aurar fundust í sjóðum skákhreyfingarinnar til að fjármagna ferðina. En amman dó ekki ráðalaus: Hún hóf söfnun, virkjaði fjölmiðla og almenning, og smitaði stöllur sínar af brennandi ákafanum. Og svo mætti hún á fund hjá stjórn Skáksambands; sagan segir að hún hafi með bros á vör slengt seðlabúntinu á borðið og sagt: Nú verðiði að láta okkur fara til Argentínu.

Og þangað fóru þær, Guðlaug og Birna, Ólöf Þráinsdóttir og Svana Samúelsdóttir, og stóðu sig með miklum sóma. Reyndar var árangurinn aukaatriði: Mestu skipti að þarna var búið að brjóta múr, láta draum rætast og verkin tala. Tveimur árum síðar var Birna svo í sveit Íslands á Ólympíumótinu á Möltu – þá orðin langamma. Þá komu þær líka inn í sveitina, Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir og Áslaug Kristinsdóttir, sem um árabil hafa verið meðal okkar sterkustu og ástsælustu skákkvenna.

Ég kynntist Birnu aldrei persónulega en samferðamenn og vinir lýsa henni sem afar hlýrri og hæfileikaríkri konu, sem hvarvetna lét gott af sér leiða. Víst er um að nafn hennar er letrað gylltu letri í íslenska skáksögu. Og það er á allan hátt viðeigandi að margir sterkustu skákmenn þjóðarinnar með íslenska kvennalandsliðið í fararbroddi heiðri minningu hennar með stórmóti á Reykhólum laugardaginn 20. ágúst.

Drifkraftur bak við Minningarmót Birnu Norðdahl, sem haldið er af stórhug og metnaði, er Hlynur Þór Magnússon sagnfræðingur á Reykhólum sem fær ómældar þakkir fyrir að halda þannig á loft nafni brautryðjandans Birnu. Reykhólamenn skipuleggja mótið í samvinnu við Hrókinn með dyggum stuðningi Þörungaverksmiðjunnar, Skáksambandsins og fjölmargra einstaklinga, félaga og fyrirtækja. Allt er þetta í anda kjörorða skákhreyfingarinnar, sem Birna sýndi með frumkvæði sínu að eru ekki orðin tóm: Við erum ein fjölskylda.

Höfundur er forseti Skákfélagsins Hróksins.