Þórður Georg Hjörleifsson
Þórður Georg Hjörleifsson
Morgunblaðið hefur rætt við nokkra úr íþróttahreyfingunni sem þekkja til Hilmars. Eru þeir á einu máli um að hann sé mikill íþróttamaður og sé til alls líklegur í alpagreinum á Vetrarólympíumótum fatlaðra í framtíðinni.

Morgunblaðið hefur rætt við nokkra úr íþróttahreyfingunni sem þekkja til Hilmars. Eru þeir á einu máli um að hann sé mikill íþróttamaður og sé til alls líklegur í alpagreinum á Vetrarólympíumótum fatlaðra í framtíðinni. Blaðið hafði samband við Þórð Georg Hjörleifsson, skíðaþjálfara Hilmars hjá Víkingi, og ræddi við hann um Hilmar Snæ.

„Að fá að þjálfa þennan dreng eru þvílík forréttindi. Hann er alveg rosalega áhugasamur. Hilmar vill ná langt og ætlar sér að gera góða hluti,“ sagði Þórður og bendir á að Hilmar hafi þegar sýnt í hvaða gæðaflokki hann er með því að vinna sig inn á HM fullorðinna sem fram fer næsta vetur.

„Við fórum á mót í Austurríki síðasta vetur. Með þeim árangri sem hann náði í því móti tókst honum að vinna sig inn á heimsmeistaramótið sem fram fer í Austurríki í janúar á næsta ári. Hann hafnaði í 4. sæti í svigi sem er hans sterkari grein eins og er en vann sig í raun einnig inn á HM í stórsviginu. Ég er mjög spenntur fyrir því að vinna með honum í vetur.“

Hugarfarið eins og best verður á kosið

Í ljósi þessa árangurs segir Þórður það vera fullkomlega raunhæft að Hilmar geti verið á meðal keppenda á Vetrarólympíumótinu árið 2018 í Suður-Kóreu. „Það er alveg klárt að hann nær því markmiði. Við förum á mót í Landgraaf í Hollandi en fyrsta mót vetrarins er alltaf haldið í skíðahöllinni þar (SnowWorld). Það verður í raun hans fyrsta mót í fullorðinsflokki en mínir villtustu draumar ganga út á að hann tryggi sig inn á Ólympíumótið strax í því móti. Ég hef trú á því að hann geti gert það enda vantar ekki mikið upp á,“ útskýrði Þórður.

Spurður um helstu styrkleika Hilmars segir Þórður þá vera nokkra. „Hann er tæknilega góður á skíðinu og þá sérstaklega í sviginu. En þar fyrir utan er hann fjörugur. Í raun sprelligosi. Þar af leiðandi er aldrei neitt sem bjátar á og hann er aldrei í fýlu. Hans styrkur er gleðin. Ég hef þjálfað Hilmar ásamt ófötluðum einstaklingum og það var aldrei neitt vesen. Sama hvernig viðraði eða hvernig aðstæður voru. Hann var alltaf tilbúinn, alveg sama hvaða vitleysur maður fer með þau í,“ sagði Þórður Georg þegar Morgunblaðið hafði samband við hann. kris@mbl.is